Skrifað í þokunni

Ég er búinn að vera lesa hinn og þess blog nokkuð reglulega undanfarið. Hjá fólki eins og mér sem hefur þörf til þess að tjá sig. Á einu þeirra hefur verið umræða um sjálfstraust í gangi. Eitthvað sem ég hef oft velt fyrir mér undanfarið. Svona hvernig standi á því að, og ég vitna beint í orð sem féllu í umræðunni. Að sjálfstraust sé skrítin skepna sem maður getur haft helling af á einu sviði en verið öreigi á öðrum.  Þarna fannst mér nefnilega sjálfum mér og svo mörgum öðrum, ef bara hreinlega ekki okkur öllum svo ákaflega vel líst.

Ég þekki nefnilega fullt af yndislegu fólki. Sem er að mínu mati ferlega skemmtilegt, klárt og fullt af hæfileikum. Fólki sem ég tel mig eiginlega vera bara ferlega heppinn að þekkja eitthvað. Sumt af þessu fólki dauðöfunda ég af því að sem mér finnst vera velgengni þeirra í lífinu. Finnst eins og því hafi tekist eitthvað svo miklu betur til en mér sjálfum. Hef líka setið með sumu af þessu sama fólki þar sem við rætt um vanda okkar á einu og öðru sviði. Þá hefur stundum komið í ljós að þetta sama fólk og ég öfunda hvað mest, er öreigar á einhverju sviði þar sem mig skortir fátt.

Svona eins og til dæmis það að skrifa eitthvað á borð við þetta. Fyrir sumum væri það hin versta martröð. Mér finnst það hins vegar bara notalegt. Þægileg aðferð til þess að koma einhverju sem mér liggur á hjarta frá mér. Þarf ekkert að vera óskaplega merkilegt. Gefur mér tækifæri til þess að segja skoðanir mínar á hlutum sem ég tel mig hafa eitthvað vit á. Segja frá einhverju sem ég hef upplifað. Það finnst mér ekkert mál. En á öðrum sviðum gengur mér mun verr. Veit ekki alveg hvað veldur. Veit ekki einu sinni hvort ég geti nokkurn tíma áttað mig á því. Held að við séum öll dálítið fötluð hvað þetta varðar.

Stundum er lífið nefnilega svo undarlegt. Maður heldur að maður sé búinnn að átta sig á hlutunum. Sé með þetta nokkuð vel á hreinu. Á réttri leið. Því þegar ég var lítill þá var manni svo oft sagt að maður myndi skilja þetta þegar maður yrði stór. En svo varð ég stærri, eldri og reyndari. En ennþá finnst mér fullt vanta. Upplifi hreinlega örbirgð á ákveðnum sviðum. Finnst ég bara hreint ekkert vera með plottið á hreinu. Það sem mér finnst síðan ennþá merkilegra er að það er eins erfiðleikarnir og ósigrarnir eigi meiri ítök í manni en hitt. Ekki svo að skilja að ég gangi í gegnum dimmann dal þunglyndis og erfiðleika. Eiginlega öðru nær. Ég tel mig bara yfirleit vera á nokkuð góðri leið. Hef ekki neina sérstaka ástæðu til þess að kvarta. Finnst ég bara hafa það nokkuð gott, svona í heildina. Einmitt þess vegna hef ég velt þessu með sjálföryggið fyrir mér. Hvers vegna það smitast ekki svo auðveldlega milli sviða. Afhverju árangur á einu sviði skapi manni ekki aukið öryggi á öðru? Ekki það að ég hafi fundið svarið. En ég er þó í það minnsta búinn að sjá að ég er ekki einn með þessa fötlun.

Skrítið hvað þoka fær mann til þess að velta fyrir sér svona hlutum.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Hó hó hó! Takk æðislega fyrir frábæran mat í gær, ekkert smá notalegt =) Eftir skotið sem ég fékk við matarborðið í gær þá ákvað ég að kvitta fyrir komu mína í dag. Það er próflestur í gangi hérna megin og heldurðu að ég hafi ekki hrist fram úr erminni mína þriðju bloggfærslu á síðunni minni. Og meira, ég svaraði klukkinu þínu síðan í september, hahahahaha :)
Hlakka til næsta hittings, er ekki frá því að það sé kominn tími á Suðurgötuna í það skiptið ;)
Jæja Simmi minn, hafðu það gott þangað til næst!

kveðja, Marta Rós
Blinda sagði…
Mikið til í þessu. En sjálfstraust og sjálfsöryggi er eitthvað sem að maður þarf að vinna í. Það segir sig sjálft að það sem þú gerir vel og kannt, er eitthvað sem þú hefur sjálfsöryggi í. Þetta er allt þjálfun. Einnig spurning um að hvetja sjálfan sig. Trúa því að maður geti þetta allt. Trúa á sjálfan sig. En, svo verður maður að æfa sig. Það sem manni finnst erfitt, eða er óöruggur í, gera það aftur og aftur, verða þá betri og betri, sem aftur styrkir sjálfið.

Við erum allt lífið að læra og plottið er í raun að fatta aldrei plottið - því þá hættir að vera gaman og spennandi að lifa.

Stundum festumst við í ósigrum okkar og gleymum sigrunum. Við þurfum þá bara að minna okkur á - en það er ósköp eðlilegt samt, því að gleði og velgengni búa ekki til sár sem verða ætíð til staðar. En við getum æft okkur í að þegar að þetta erfiða kemur - þá einbeitum við okkur að því að hugsa um eitthvað jákvætt í staðinn.

En - enginn er fullkominn og ég ætla aldrei að verða stór :-)

Vinsælar færslur