Ertu nörd?

Ég er búinn að vera sjá þetta orð út um allt undanfarið. Það hefur svona hæfilega neikvæða merkingu. Eða kannski hafði svona hæfilega neikvæða merkingu. Það virðist nefnilega vera að breytast eitthvað. Síminn auglýsir t.d. nýja þjónustu þannig að það er ekki hægt að skilja það öðruvísi en hún sé ætluð nördum. Eða á maður frekar að nota nörður? Og hvernig er kvennkynsútgafan af þessu orði? Nörda? Narda? Naðra? Nei þetta síðasta virkar ekki.

En nördar hafa verið að sækja á undanfarin ár. Sýnist að þetta sé tíska sem kemur frá Bretlandi. Eins og margt annað ágætt sem hingað hefur borist á undanförnum árum. Þar er alveg mikil og löng hefð fyrir þessum þjóðflokki. Stundum kenndir við lestar. Eða úlpur. En þessi nýjasta útgáfa á sér hetju. Sem er auðvitað ríkasti maður í heimi. Ofurnördið Bill Gates. Eða ef þú hatar Microsoft og allt sem því viðkemur þá er það Steve Jobs. Báðir nördar.

Þetta eru ekki menn sem lögðu sig fram í ræktinni á unglingsárunum. Eða myndu nokkurn tíma vera kallaðir eitthvað annað en treflar af hnökkum landsins. En staðreynd málsins er hins vegar að líklega eru þessir tveir betur settir en flestir þeirra sem skreyta síður Séð og Heyrt. En það er kannski ekki alveg sanngjarnt að bera þetta saman. En ég er samt sem áður sannfærður um að nördar eru á uppleið.

En það eru ekki allir jafn sáttir við það að láta kalla sig nörd. Ég var t.d. um daginn að tala fyrir framan hóp af fólki sem allt ætti að flokkast í þennan hóp. Eða það fannst mér í það minnsta. Enda tel ég mig algjörlega falla í þennan flokk. Segi það óhræddur. Og sagði það óspart. Fólki til ánægju. Alveg þar til ég fór að tala um nörda í fleirtölu. Því það fólk sem þarna sat í hóp fyrir framan mig, var greinilega ekki alveg á því að láta kalla sig nörd. Var ekkert að fíla það.

Svo spurning er auðvitað. Er hægt að vera nörd og hnakki, eða fer þetta aldrei saman?

Ummæli

Blinda sagði…
Er ég sú eina sem les bloggið þitt Simmi minn, eða eru lesendur þínir ekki skoðanaglaðir?? :-)

Ég hef mikið verið að velta þessu fyrir mér undanfarið.
Í upphaflegri merkingu þessa orðs náði ég ekki að samsvara mér, en undanfarið hef ég séð að ég á svo margt sameiginlegt með nördum samtímans. Þótt ég hafi alltaf verið fyrir hreyfingu, verið í vinsæla hópnum og hafi verið diskópía á yngri árum, nota ég samt gleraugu, les óhemju mikið, og finnst og hefur aldrei fundist ég passa inn í hópinn. Ég kann samt lítið sem ekkert á tölvur, er ömurleg í stærðfræði, en læri blaðsíður utanað í sögu og tungumál án þess að hugsa.

Ég er með húmor sem fáir skilja, en núna undanfarið hef ég "kynnst" fólki sem deilir honum með mér ásamt hugðarefnum ofl. Það fólk kallar sig nörda - eða a.m.k.langflestir þeirra.

Ég er því pínu lost í því hvað er nörd og hvort að ég er nörd?!

En ég held að hnakki verði seint nörd, en kannski diskópía?
Nafnlaus sagði…
nördar rúla, hnakkar eiga sér afar stutt líf - sérðu fyrir þér áttræðan hnakka? oj

sérðu fyrir þér áttræðan nörd í vetnisknúinni göngugrind, blikka nördakellur þegar þeir þjóta hjá?

o, já
Simmi sagði…
Linda til allrar hamingju ertu ekki sú eina sem les bloggið mitt. Ég var einmitt að velta þessu fyrir mér um tíma. Komst síðan að því að það er bara töluvert af föstum lesendum. Þeir eru bara flestir of feimnir til þess að setja eitthvað inn. Eða mér finnst það betri skýring en sú að þeir þjáist af svo gífurlegri minnimáttarkennd þegar þeir sjá ritsnilld mína:-)

Sko nörd dæmið er í mínum huga alls ekki bundið við tölvur. Hefur eiginlega hreint ekkert endilega eitthvað með það að gera. Hefur miklu frekar með hæfileika til þess að nýta sér þyngsta og öflugasta líffærið. Þannig að þú verður bara að sætta þig við þetta - þrátt fyrir að hafa bara aldrei vitað af því fyrr en núna - þú ert nörd:-)
Simmi sagði…
Og já við rúlum! :-)
Blinda sagði…
Yndislegt! :D

Vinsælar færslur