Eru álver eina svarið?

Eins og ég sagði frá í síðustu færslu þá fór ég fyrstu göngu ársins um helgina. Um helgina bárust síðan fregnir af hugsanlegri lokun álversins í Straumsvík, nema því aðeins að það fengist leyfi til stækkunar. Þetta kemur í kjölfarið á fréttum um hugsanlegt álver við Húsavík. Ofan á það eru áætlanir uppi um að byggja fleiri slík. Ég verð að viðurkenna að ég á alveg afskaplega erfitt með að skilja þennan áhuga á álverum. Ef þetta eru svona ofboðslega arðvænlegar framkvæmdir, því eru það bara útlendingar sem vilja byggja slíkt hér á landi?

Raunar skil ég ekki afhverju við erum yfirleit að standa í uppbyggingu á þungaiðnaði hér á landi. Raunar hef ég heyrt einhverja halda því fram að álframleiðsla sé hátækni. Með svipuðum rökum má raunar halda því fram að fiskveiðar okkar, landbúnaðarframleiðsla og raunar flest störf í landinu séu í hátækni. En látum það liggja milli hluta. Þessi áhersla á uppbyggingu þungaiðnaðar minnir mig nefnilega á annars vegar Sovétríkin og hins vegar S-Kóreu.

Málið var nefnilega að þegar Lenín og félagar komust til valda í Rússlandi og breyttu því síðan í Sovétríkin þá bjugga þar eiginlega ekkert nema bændur. Sem var vandamál fyrir kommúnistana, því Marx og Engels höfðu klárlega gert ráð fyrir því að ekki væri unnt að koma á kommúnisma nema því aðeins að áður hefði átt sér stað iðnvæðing. Svo það var sett í gang risavaxið verkefni sem snérist um að byggja upp iðnað í Sovétríkjunum. Þar var þungaiðnaður í aðalhlutverki. Því ekkert er auðveldara fyrir hagfræðinga að mæla en framleidd tonn. Svipað gerðist í S-Kóreu í kjölfar stríðsins við N-Kóreu. Þar vildu stjórnvöld koma S-Kóreu á kortið. Gengið var í að byggja upp risavaxinn stáliðnað og framleiðslu á vörum sem byggðust á framleiðslu á stáli.

Þessar tvær fyrirmyndir vekja mér ugg í brjósti um framtíð Íslands sem náttúruparadísar. Fyrir mér eru þau gæði kannski þau mikilvægustu sem við eigum. Við erum í auknum mæli að sækjast eftir ferðamönnum til landsins. Þeir koma hingað einkum vegna tveggja hluta. Annars vegar vegna náttúru fegurðar sem er umtöluð. Hins vegar vegna sögusagna af því að hér sé gott að skemmta sér. Ég hef kynnst því sjálfur hversu gríðarleg gæði eru fólgin í því að geta gengið um tiltölulega óspillta náttúru landsins. Þau gæði minnka við hverja virkjun og álver. En segjum sem svo að við viljum nýta þau náttúrugæði sem við höfum. Skildi þá vera til framleiðslugrein önnur en álver sem myndu geta nýtt þá kosti sem landið býr yfir. Eitthvað annað en ferðamennska?

Svo undarlega vil til að sú framleiðslugrein er til. Hún tengist hátækni með nokkuð skýrari hætti en álframleiðsla og snýst um framleiðslu á örgjörvum. Málið er nefnilega að við framleiðslu á örgjörvum þarf tvennt. Annars vegar orku og hins vegar hreint vatn. Það vekur því furðu mína að ekkert hafi verið reynt til þess að byggja hér upp framleiðslu á örgjörvum. En ég heyrði einhvern tíma þá skýringu að það væri vegna þess að íslenskir embættismenn hefðu komið sér upp færni í því að selja Ísland sem ákjósanlegan stað fyrir álver. Þeir einfaldlega hefðu komið sér upp sérþekkingu á þessu sviði og það væri of mikil fyrirhöfn að setja sig inn í uppbyggingu á öðrum sviðum. Það er bara svo sorgleg tilhugsun að einhverjum sem er í aðstöðu til þess að láta skoða málið, ætti að láta það til sín taka. Í það minnsta væri áhugavert að heyra á hvaða öðrum sviðum hefur verið reynt að fá orkufreka framleiðslu til landsins.

Svo er sófinn ennþá til sölu. Endilega ef þið vitið um einhvern sem vantar sófa, þá tékkið á þessum.

Ummæli

Vinsælar færslur