Viðburðir helgarinnar

Það var nóg að gera um helgina. Í það minnsta leiddist mér ekki. Laugardagurinn var algjörlega undirlagður af undirbúningi fyrir matarboð sem ég hélt um kvöldið. Ég hef nefnilega komist að því að þegar maður býr einn og heldur matarboð, þá er það töluvert meiri vinna en þegar maður hefur sambúðarfólk til þess að hjálpa sér. Það hjálpaði heldur ekki til að ég svaf miklu lengur en ég ætlaði mér. En laugardagurinn minn fór sem sagt í.

Að lesa uppskriftir og ákveða hvað ætti að vera í matinn.
Skrifa innkaupalista og kaupa inn það sem átti að vera í matinn
Ferð í nýlenduvöruverslunina
Taka til og strjúka af
Ferð í sorpu
Halda áfram að taka til
Kæla hvítvínið
Vera viss um að það væru klakar í frystinum
Finna tónlist til að hlusta á um kvöldið
Búa til eftirrétt sem þurfti að kæla
Hoppa í sturtu og eiga eitthvað til að fara í

Sem sagt bara fullt að gera. En þetta slapp allt saman. Íbúðin mín leit bara ljómandi vel út þó ég segi sjálfur frá. En það var í kjölfarið á sturtunni sem súrasta augnablik helgarinnar átti sér stað.

Ég var sem sagt að raka mig. Nýkominn úr sturtu. Óklæddur. Svona eins og maður gerir. Löðrandi í raksápu í framann. Alveg 30 mín þar til fyrstu gestir ættu að detta í húsið. Þegar dyrabjallan fer í gang. Ég átti ekki von á neinum. Leit fram. Ennþá löðrandi í raksápu. Þetta gat ekki verið neinn af gestunum svo ég svaraði ekki. En viðkomandi hafði greinilega séð að einhver var heimavið. Það var ekki hætt. Haldið áfram að hringja. Bókstaflega legið á bjöllunni. Ég gat ekki verið viss um að þetta væri ekki eitthvað áríðandi. Sérstaklega fyrst viðkomandi lá svona á bjöllunni. Ég þekkti ekki þann sem stóð fyrir utan. Hef væntanlega verið sérlega glæsilegur. Hálft andlitið ennþá löðrandi í raksápu, með blautt hárið og í baðslopp.

“Geturðu nokkuð hleypt mér inn, ég þarf að komast inn uppi?”

Var það sem fíflið sem stóð fyrir utan spurði mig. Ekki afsakaðu fyrir að liggja á bjöllunni. Ekki fyrirgefðu að ég skuli trufla svona. Ef ég hefði verið í einhverju öðru en baðsloppnum og löðrandi framan í raksápu þá hefði ég skelt hurðinni framan í viðkomandi.

“Bíddu hver ert þú og afhverju ætti ég að hleypa þér inn?”
“Sko fyrrverandi konan mín býr hérna uppi. Hún er sofandi og ég vil ekki vekja hana. Er þér mjög illa við að hleypa mér inn?”

Sem ég held að sé lygi. Ég held nefnilega að það hafi ekki verið nokkur maður þarna uppi. En ég gæti haft rangt fyrir mér. En hvað er eiginlega að fólki. Ef ég svara ekki þegar þú hefur ýtt einu sinni á bjölluna, þá langar mig ekki til þess að svara. Maðurinn var greinilega fífl og ég skildi konuna hans vel að hafa skilið við hann. Mér var strax orðið nógu illa við bæði hann og hana til þess að hleypa honum inn. Ég þarf annars að endurnýja rafhlöðurnar í sjálfsvarnartækinu sem ég smyglaði frá USA. Sá næsti sem leggst svona á bjölluna fær óvænta ánægju. Mér skilst að 3 sekúndur sé nóg til að rota fíl.

Kvöld tókst annars vel. Maturinn var góður. Í það minnsta var hann kláraður. Eftirrétturinn féll ekki eins vel í kramið. Hefði getað búið til mun minna af honum. Man það næst. Veit ekki hvort það var vegna þess að fólkinu líkaði ekki Tiramisu eftirrétturinn minn, eða hvort það var búið að borða svona mikið. Kannski beggja blands. En ég bý til minna af honum næst. Prófa að hafa minna magn og sjá hvað gerist. Samkvæmt venju var endað í 101 og verið lengi úti. Ekki eins gaman á sunnudeginum.

Ummæli

Blinda sagði…
Hefði verið skemmtilegt ef þú hefðir þorað að opna á raksápunni einni saman :-)

En gaman að eiga góða stund með góðu fólki og vænum mat - eða öfugt.
Nafnlaus sagði…
vona að þú hafir ekki hleypt manninum inn í húsið - það vantar í söguna

af hverju þarf maður alltaf að fara í augnpróf á kommentum á sumum síðum? (fylla út þennan stafareit)
Simmi sagði…
Málið með stafreitinn er að þetta kemur í veg fyrir spam - sjálfvirkar blogfærslur með einhverju rusli. Lenti í því um tíma og setti þetta í gang þá og hef ekki fengið spam hérna inn síðan.

Ég læt því alveg ósvarað hvort hann komst einhvern tíma inn í húsið - þessi partur af sögunni var lang skemmtilegastur:-)

Vinsælar færslur