Útdauð upplýsingatækni

Ég lofaði smá færslu um “Dead Media” vefinn. Sem er eiginlega hugarfóstur eins af mínum uppáhalds rithöfundum – Bruce Sterling. Eiginlega er þessi vefur kominn í hóp með umfjöllunarefninu, því það virðist vera afskaplega lítið í gangi. En hins vegar er hugmyndin áhugaverð. Því ef það er eitthvað sem við erum stanslaust að fá fréttir af, þá eru það nýjungar á sviði upplýsingatækni. Þú ert varla búinn að fjárfesta í nýjasta tækinu þínu, þegar þú lest um að nú sé eitthvað nýtt og spennandi á leiðinni. En hvað með hitt sem ekki hefur haldið lífi?

Nasa sendi t.d. tvö gervihnetti til Mars á miðjum áttunda áratugnum. Víkingur 1 og 2 fóru til Mars og sendu ókjör af gögnum til baka. Sem í dag eru á góðri leið með að verða ónýtt og ónothæf. Því þau voru geymd á segulböndum sem hreinlega standast ekki tímans tönn. Þó ég telji mig ekki vera kominn í hóp eldri borgara (ekki ennþá) þá hef ég veit því athygli að eitt og annað sem maður gekk að sem vísu er horfið á braut. Ég man t.d. eftir fyrirbæri sem hét 8 rása segulband. Já, reyndar man ég líka eftir segulböndum. Sem ég er ekki viss um að margir noti lengur. Ekki nema þá helst þeir sem stunda upptökur í hljóðverum. Það er líka skemmtilegt að velta fyrir sér þeim tegundum af stafrænum miðlum sem ég hef notað.

Eitthvað notaði maður segulbönd. Svo komu floppy diskar sem voru í alvöru floppy. Svo minni floppy diskar sem voru harðir (sem ennþá þekkjast). Ég hef átt zip drif, sem ég veit ekki hvort nokkur notar lengur. En gataspjöld voru fyrir mína tíð, þó ég þekki fólk sem lærði að forrita slík fyrirbæri í árdaga tölvuvæðingar á Íslandi. Ég lærði fingrasetningu á yndislegum IBM kúluritvélum. Þess vegna hamra ég á lyklaborð. Þessar ritvélar voru svona málmhlunkar. Með lyklaborði þar sem maður þurfti að ýta lyklunum niður til þess að eitthvað gerðist. Þetta voru hörkutæki. Líklega það besta sem fundið hefur verið upp í ritvélum.

Það leiðinlega við það að þessar geymsluaðferðir þekkjast ekki lengur, er að gögnin sem maður geymdi á þeim eru líklega glötuð. Engin tæki til lengur sem geta lesið þetta. Alls ekki víst að upplýsingarnar séu þarna enn. Þess vegna geymi ég núna gögnin mín á netþjónum. Þar sem þau eru geymd í stafrænu formi. Vonast til þess að sú aðferð gagnist mér betur. En pappírsútprentanir af ritgerðum get ég ennþá lesið. Skemmtilegt að hafa fundið sér svona íhaldsþema fyrir vikuna. Kannski það sé hugmynd að hafa svona þemavikur?

Ummæli

Blinda sagði…
Mmmmmm floppy...the good old days.

Þemavikur rúla! :-)
Nafnlaus sagði…
Do not fear women who blog silly things, they do it for the comic affect.

Vinsælar færslur