Kunnum við að kvarta?

Eg las um daginn að við Íslendingar værum merkilega latir við að kvarta. Held að það geti verið eitthvað til í því. Einhverjir vildu halda því fram að þetta væri vegna þess að við Íslendingar kynnum ekki að kvarta. Held svo sem að það sé eitthvað til í því. Þannig held ég að við séum afskaplega illa upplýst um þau réttindi sem við höfum sem neytendur. Ég held hins vegar að íslensk fyrirtæki séu ekkert endilega nægilega opin fyrir kvörtunum.

Núna um síðustu helgi las ég athyglisverða grein um baráttu neytenda í Bandaríkjunum fyrir því að ná sambandi við fólk þegar það hringir í fyrirtæki. Við þekkjum þetta eflaust öll. Þú hringir í eitthvað fyrirtæki og áður en þú getur náð í nokkurn til þess að tala við er þér gert að ýta á ýmsa hnappa á símtækinu þínu. Nú eða þú lendir í biðröð. Þessari þar sem þú færð með reglulegu millibili að heyra að “símtöl eru afgreidd í réttri röð”. Raunar veist þú ekkert um það. Þannig getur bara vel verið að símtöl séu alls ekki afgreidd í réttri röð. En við skulum nú samt trúa því að það sé ekkert verið að ljúga að okkur.

Síðan þegar þú loksins nærð sambandi við einhvern. Þá er leit þín að rétta aðilanum til þess að tala við oft bara rétt að byrja. Þú nærð kannski á skiptiborðið. Þar er þér vísað á einhvern aðila. Sá hefur litla þekkingu á þínu vandamáli og þú ert sendur á þann næsta. Í ljós kemur að sá er ekki við, eða kemst ekki í síma. Þú endar því á því að þurfa að hringja aftur. Endurtekningin getur svo staðið í smá tíma áður en þú færð lausn þinna mála.

En nú hefur sem sagt hópur fólks ákveðið að taka til sinna ráða. Það hefur að sjálfsögðu opnað vef. Get Human sem snýst um að segja frá reynslu þinni af þjónustu fyrirtækja. Hvort þau eru að svara kröfum okkar sem neytenda eða ekki. Mér finnst þetta athyglisvert framtak. Finnst þetta eitt dæmið um það sem ég sé sem vaxandi afl nýrrar kynslóðar vefja.

Á öllu léttari nótum er þessi afar athyglisverða útgáfa The Sugar Hill Gang á Apache – mikið lengra frá pólitískri rétthugsun verður vart komist.

Ummæli

Vinsælar færslur