Spáð í byggingum

Í gærkvöldi var ég í þrítugsafmæli. Ferlega flott afmæli. Ofboðslega góður pinnamatur, sushi og ávextir. Meira að segja veigar í boði húsins. Þarna var einn besti plötusnúður landsins og fullt af fólki sem ég kannast við. Líka hópur af fólki sem ég þekkti minni, eða bara hreint ekki neitt. En ég ætla samt ekki að tala mikið um afmælið. Sem var fínt og ég þakka fyrir boðið. Nei, það sem mér fannst skemmtilegt var að ég átti alvöru umræður við hugsandi fólk í þessu boði.

Ekki eins og það geti ekki komið fyrir. En ég er alveg viss um að ég er ekki sá eini sem lendi oftar en ekki í því að eiga skelfilegar samræður á svona samkomum. Það sem er þó verst af öllu eru svona “kiss ass” samkomur í Bandaríkjunum. Kannski ég skrifi einhvern tíma um upplifun mína af því. Sá tími er ekki núna. Því mér fannst svo skemmtilegt að rekast á einhvern í boðinu sem var að hugsa eitthvað. Nú má ekki skilja þetta þannig að ég geri mér far um að sækja boð þar sem fólk hugsar ekki. Við hugsum öll. Það er bara spurning um hvað.

Þess vegna finnst mér skemmtilegt þegar ég á samræður við fólk sem er að hugsa um eitthvað annað en þetta venjulega. Sem hefur skoðanir á hlutunum. Þetta er auðvitað ekkert annað en hrein hroki. En svona er ég bara gerður. Ég hef gaman af fólki sem leyfir sér að hafa skoðanir á hlutunum. Í þetta skipti var rætt um hús. Hvernig við göngum um gömul hús. Rökin voru eitthvað á þá leið að ef við eigum bíl, þá hugsum við vel um hann. Við förum með hann á verkstæði ef hann bilar. Skiptum reglulega um olíu. Smyrjum og bónum til þess að halda verðmæti bílsins. En það sama virðist ekki gilda um fasteignirnar okkar. Við höldum þeim illa við. Byggjum þau illa. Notum ódýrar aðferðir og hráefni sem endast illa. Væntanlega til þess að byggingarverktakar hagnist sem mest. Við horfum lítið sem ekkert til þess hvernig byggingar falla að umhverfi sínu. Hvernig ein bygging kallast á við þá næstu. Mér fannst þetta skemmtileg umræða.

Það rifjaðist síðan upp fyrir mér í dag að ég spurði vinafólk mitt í London út í afhverju heilu göturnar í London líta eins út. Mér fannst svarið áhugavert. Málið var sem sagt að í London voru hverfi og götur byggðar fyrir stéttir. Þannig bjuggu þeir sem störfuðu í ákveðinni stétt saman. Byggðar voru byggingar fyrir þetta fólk sem voru allar eins. Þess vegna eru heilu göturnar í London steyptar í sama mót. Ekki endilega að ég sé að kalla eftir einhverju svipuðu hér á landi. En mér finnst samt sem áður ákveðin skynsemi í rökum þeirra sem segja að við þyrftum að huga meira að útliti þeirra nýju bygginga og hverfa sem við búum í. Í það minnsta finnast mér sum þeirra nýju hverfa sem risið hafa á höfuðborgarsvæðinu ekkert sérstakt augnayndi. Eða er þetta bara íhaldsemi hjá mér?

Ummæli

Vinsælar færslur