Á leiðinni heim

Helgin í stórborginni er eiginlega liðin. Nema hvað ég er óvænt lentur á Heathrow. Ekki samt vegna þess að mér finnist svona rosalega skemmtilegt að eyða heilu dögunum í ferðalög. Heldur vegna þess að Lufthansa vélin mín frá Berlín til Frankfurt var klukkutíma of sein frá Berlín og þar með var orðið útilokað ég gæti náð Icelandair fluginu frá Frankfurt. Þannig að í staðinn fyrir að vera kominn heim og sitja í nýja sófanum mínum. Já, þá er ég staddur á Heathrow þar sem ég keypti mér klukktíma í BT Openzone WiFi (8 pund fyrir 1 klukkutíma).

En hin stórborgin var köld. Það er búið að vera ískalt í Berlín í vetur. Reyndar í öllu Þýskalandi var mér sagt. Í Bæjaralandi er víst rúmlega 4 metra þykkt snjólag. En mér fannst samt bara alveg nógu kalt í Berlín. Það gekk á með kafaldsbyl eins og maður hefði kallað það á Íslandi. Nei, það er nú reyndar ofsagt. Skafrenningur og snjókoma er betri lýsing. Óþarfi að gera eitthvað of mikið úr þessu. Það var alveg nógu leiðinlegt veður samt. Þau ykkar sem halda að ég hafi þrátt fyrir þetta skoðað helstu minjar í Berlín. Þá þykir mér leiðinlegt að fræða ykkur um að ég sleppti því. Fannst kvefið mitt bara alveg nógu slæmt, þó ég færi ekki út í frost og snjókomu.

Veit ekki hvað það er sem veldur því að ég má ekki ferðast úr landi án þess að ná mér í kvef. Kannski er þetta bara alltaf sama kvefið. Veit ekki alveg hvað er málið, en ég er orðinn ferlega þreyttur á því að hósta. Almennt búinn að fá alveg nóg af öllu sem heitir kvef. Þessi vetur búinn að vera alveg undarlega kvefsækinn. Kannski ég sé bara kominn með fuglaflensuna?

Sem er ofarlega í hugum Evrópubúa. Það kom sem sagt í ljós í Þýskalandi að þegar farið var að athuga fuglana, þá var þessi flensa komin út um allt. Kannski búin að vera í landinu miklu lengur en menn hafði grunað. Það var bara ekkert verið að athuga málið. Eða svo segir sagan í það minnsta. Annars tókst mér að lenda í smá ævintýrum í stórborginni. Málið var sem sagt að ég þurfti að ferðast milli bæjarhluta. Einfaldast að taka lestina var mér sagt og ég fékk greinargóðar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að fara þetta. Frekar einfalt, þurfti reyndar að skipta um lest á leiðinni, en þetta var ekki mikið mál. Svo þegar ég var á leiðinni til baka upp á hótel þá klúðraði ég þessu aðeins. Fór eini stöð of langt og þurfti að fara til baka um eina stöð. Sem tók svona u.þ.b. 90 sekúndur. Svona 30 sekúndum eftir að við lögðum af stað gengur upp að mér ungur maður.

“Vinsamlega sýndu mér miðann þinn” sagði hann og dró upp spjald sem sýndi að hann var starfsmaður fyrirtækisins. Eða það held ég í það minnsta.
“Ekki málið” sagði ég og rétti honum miðann sem ég hafði keypt. Hann var greinilega ekki einn á ferð. Einhver kunningi hans stóð þarna með honum.
“Þessi miði er ekki í gildi” sagði starfsmaðurinn. Fyrst á þýsku sem ég skildi ekki og þegar ég hristi bara höfuðið og sagðist ekkert skilja þýsku (ekki þá sem hann talaði í það minnsta) þá á frekar slæmri ensku “Ticket not valid”.
“Hvað í ósköpunum áttu við?” spurði ég. “Ég var að kaupa þennan miða áðan og hann hlýtur að vera í gildi”. “Nei, not a valid ticket” Og nú kom að gleðifréttunum. “Þú þarft að borga 40 Evrur fyrst þú ert ekki með miða í lagi.”

Nú vorum við komnir á lestarstöðina þar sem ég ætlaði út og þeir fylgdu mér eftir félagarnir. Í ljós kom að á miðanum (sem ég hafði að sjálfsögðu ekki einu sinni litið á, bara keypt og stungið í vasann) stóð “Not valid unless ticket has been validated”. Mér var bent á það af félögunum að þarna væru sem sagt vélar sem ég þyrfti að setja miðan í og fá stimpil. Fyrst ég hefði ekki gert það, yrði ég að greiða 40 evrur.

Mér fannst þetta frekar súrt. Búinn að kaupa miða, en af því að ég hafði ekki stimplað hann, þá átti ég von á sekt. Mundi samt eftir því að Þjóðverjar eru frægir reglumenn. Þeir félagarnir voru líka greinilega ekkert á því að láta þennan útlending komast upp með eitthvað múður. Spurning var eflaust hversu mikið vesen ég nennti að leggja á mig til þess að komast hjá því að þurfa að greiða þeim þessar 40 evrur. Hvort það myndi yfirleit hafa nokkuð upp á sig. Líklega ekki. Ekki frekar en það hefði þýtt mikið að mótmæla félögunum í síðustu viku. Svo ég lét leiða mig í næsta hraðbanka og fann 40 Evrur. En ég velti þess samt mikið fyrir mér. Berlín var nefnilega full af útlendingum um helgina. Ég get ekki ímyndað mér að ég sé sá fyrsti sem gerir þessi mistök. Held meira að segja að ég hafi ekki alveg fallið í staðalinn. Geri ráð fyrir að þessir félagar hafi auðveldlega getað séð að ég hafði keypt miða. Hefðu jafn auðveldlega getað séð að ég var ekki frá Berlín. Hefðu væntanlega alveg getað sagt mér að kaupa nýjan miða og stimpla hann. Það hefði kostað mig rúmlega 2 evrur. Nei, þýska aðferðin var sú að ég var leiddur í hraðbanka og hefði vísast verið tekinn í yfirheyrslu ef ég hefði ekki getað greitt sektina. Já, ég verð að viðurkenna að það dró aðeins úr löngun minni til þess að mæla með heimsókn til Berlínar í kjölfarið á þessu. En ég ætla gera það áfram. En þó með fyrirvara. Það er eins gott að kunna vel á reglurnar áður en þangað kemur. Þú færð nefnilega ekki neinar undanþágur þó þú sért vart mælandi útlendingur.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
sæll-ég óska hér með eftir færslu frá útlöndum án þess að það sé minnst á kvef,slappleika etc
Simmi sagði…
Já, ég óska líka eftir því að komast til útlanda án þess að fá kvef einu sinni.

Vinsælar færslur