Í góðu stuði

Eftir að Silvía Nótt kom mér í stuð í gær, þá var það Ísland sem kom mér í stuð í dag. Fyrsta gangan með gönguhópnum góða var nefnilega í morgunn. Það var pínulítið erfitt að koma sér fram úr á laugardagsmorgni. Ég er ekki alveg vanur því að vakna svona snemma á þessum degi. En ég hef svo sem verið að stunda ræktina á laugardagsmorgnum svo þetta var ekkert ægilegt. En mikið rosalega var ég fljótur að taka við mér, þegar ég leit út um gluggann. Stilla og sól. Þó það hafi reyndar verið 4 stiga frost.

Ég náði mér í ávaxtaskammt dagsins og skyr. Helti þessu í mig á meðan ég horfði á forsíðuna á Morgunblaðinu. Síðan dró ég fram göngudótið, hitaði vatn og var bara tilbúinn á styttri tíma en ég átti von á. Gleymdi auðvitað einhverju smálegu, en engu svo rosalega mikilvægu. Rúllaði og sótti göngufélagan þennan morguninn og svo var hittingur á hefðbundnum stað. Leiðin lág upp í Grafning. Því þar er Stóri Meitil.

Fyrsta áskorunin var að leggja bílnum. Ég er ekki í hópi þeirra útivistarmanna sem hef fjárfest í fjórhjóladrifnum jeppa. Kannski kominn tími til. En þangað til fer maður allt á ofurbílnum frá Toyota. Merkilegt hvað maður hefur komist á þessum bíl. Eftir að hafa losað og læst bílnum var haldið í brekkuna. Eins og alltaf í þessum ferðum þá eru fyrstu 5-10 mín frekar erfiðar.

“Hvað í ósköpunum er ég að spá? Afhverju finnst mér þetta eitthvað spennandi? Hvaða bull er þetta?”

Er svona meðal þess sem ég hugsaði þessar fyrstu mínútur. En svo fór þetta að koma. Ég hitnaði. Svitnaði. Var feginn því að hafa ekki dúðað mig meira. Málið er að vera heit á höndunum og á höfðinu. Þá er manni heit. Um leið og það klikkar eitthvað, þá er manni kalt. Reyndar svakalega fljótur að kólna um leið og við stoppuðum. Það var nefnilega hreint ekki heit. Eiginlega bara kalt. En sólin og útsýnið var stórkostlegt. Ég er búinn að henda inn myndunum sem ég tók inn í myndasafnið. Þær voru ekki margar, því mér var bara of kalt á höndunum. En svakalega líður manni alltaf vel þegar maður hefur náð að ljúka ætlunarverkinu.

Eins og einhverjir vita þá erum við nokkur að spá í að fara á Hornstrandir í sumar. Hugmyndin er að fara í byrjun júlí. Láta sigla með okkur frá Ísafirði í Hornvík. Ganga þaðan yfir í Hælavík. Frá Hælavík yfir á Hesteyri. Ljúka ferðinni á göngu yfir í Aðalvík. Allt á bakinu að sjálfsögðu. Ef þetta hljómar spennandi þá finnst okkur svakalega gaman að fá hressagöngufélaga. Sendu mér kveðju og ég set þig á póstlistann okkar.

Svo er ég farinn í skattaskýrsluna. Úff, púff.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
hvílíkur dugnaður! flott ganga og svo ganga í leiðinlegasta verk ársins fyrir stóra bróður.

Hornstrandir eru eftir í göngusafnið mitt, væri til í að vera á póstlistanum þótt planið sé nú ekki ljóst fyrir sumarið...

er ágætlega gönguþjálfuð og kassavanin

elisabetar@simnet.is
Blinda sagði…
Hvenær verður manni boðið með? ;)

Annars væri gamlan meira en til í svona RISA göngutúr, en hún fær víst ekkert sumarfrí, þannig að hún fylgist með úr fjarlægð.
Svo er ég ekki kassavanin...(shame)

Segðu svo þessum vinum þínum að koma úr skápnum - hægt að skrá sig sem anonymous, maður er orðinn hálf feiminn við að kommenta.
Simmi sagði…
Ég veit ekki hvort ég þori að bjóða þér með - það gæti skyggt of mikið á mann:-)

Þessir vinir mínir eru bara feimnir - ég er búin að reyna fullt af ráðum til að lokka þá fram. Búinn að lofa góðum vínum, bjór, skemmtun og allskonar - en ekkert virkaði. En ég veit að þeir kíkja - svo kannski læðist úr felum núna þegar þeir sjá að maður er ekki bitinn fyrir að skrifa eitthvað hérna:-)
Blinda sagði…
Aaaaaa, vilt fá að skína í friði.
Hahahahaha!

Vinsælar færslur