Ofnæmisárstíðin

Það er komið vor. Ég fann það þegar ég fór út í morgunn. Í fyrsta skipti á þessu ári fann maður hvernig sólin náði að hita mann þegar maður labbaði niður tröppurnar fyrir utan heima. Mér finnst það skemmtilegt. Það táknar að nú get ég verið meira úti. Þegar ég var yngri þá var sumarið samt ekki endilega sérstakur tími gleði. Málið er nefnilega að ég þjáist af miklu og skæðu ofnæmi fyrir grasi (og reyndar köttum, birki, jólatrjám og einhverju fleiru).

Á þessum tíma. Kannski jafnvel ennþá. Var börnum gefið ofnæmislyf sem var sljógvandi. Reyndar var á þeim tíma ekkert annað til. Þetta þýddi að ég gat valið milli þess að vera sljór, sofandi eða viðþolslaus af kláða í augunum. Sem var alls ekki allt og sumt því öll slímhúðin á manni bólgnar við ofnæmisviðbrögðin. Skilst að ég sé ekkert sérlega glæsilegur þegar ofnæmið er komið á fullt skrið. Líður líka ekkert sérlega vel. Man ennþá eftir því að vakna í tjaldi og hafa grátið svo mikið um nóttina að ég gat ekki opnað augun fyrir salti.

Þess vegna kann einhverjum að finnast það undarlegt að ég skuli hafa gaman af því að dröslast um landið. Finnst það reyndar alveg frábært. Sem ég get þakkað nútímalegum lyfjum við ofnæmi. Man reyndar að fyrsta ofnæmislyfið sem ég tók og ekki var svæfandi, var síðar tekið út af markaðnum. Olli víst gangverkstruflunum. En þetta gat ollið ákveðnum vandkvæðum þegar ég var yngri. Maður lenti nefnilega í alveg ferlegum vandræðum með að halda sér gangandi eftir að hafa tekið þessi gömlu lyf. Öll voru þau kyrfilega merkt með rauðum þríhyrning. Ekki til töku ef ætlunin er að keyra. Ég man eftir því að maður bókstaflega valt útaf. Enda skilst mér að þessi sömu efni séu notuð í vægar svefntöflur sem maður kaupir í 7-11 í USA. En þetta gat haft fremur leiðinlegar afleiðingar þegar maður átti að vera vel vakandi. Eins og t.d. ef maður var í vinnuskólanum og átti að vera slá gras eða raka.

Slíkt var auðvitað eins og að henda alka inn á bar og athuga hvað gerist. Ég fékk að sjálfsögðu brjálað ofnæmi. Sem leiddi síðan til þess að ég þurfti að taka eitthvað við ofnæminu. Sem síðan leiddi til þess að ég átti í mestu vandræðum með að halda mér vakandi. Sem var oftar en ekki svona rétt um 10-11 á morgnana. Sem þykir víst ekki eðlilegur tími til þess að fá sér blund. Nema kannski á leikskólum. Þetta vakti takmarkaða lukku man ég eftir. Bæði fannst þeim sem maður vann með ekkert gaman að því að maður varð húðlatur og svo hitt að verkstjórunum fannst þetta frekar lélegt. Held að það hafi verið takmörkuð þekking á áhrifum ofnæmislyfja sem því réð. Í það minnsta átti ég eftir að fá skömm í hattinn oftar en einu sinni. Man ekki hvort það var bílprófið sem rak mig í að leita að nýjum aðferðum til þess að berjast við ofnæmið. En ég var í það minnsta afskaplega feginn að komast í ný lyf sem virkuðu gegn ofnæminu, án þess þó að ég lognaðist út af. Það var síðan ekki fyrr en ég fór til Bandaríkjana í nám að ég fór að fá nokkuð skýra mynd á það fyrir hverju ég væri með ofnæmi. Fannst skemmtilegt að fá ofnæmisspá með skýringum.

Ummæli

Blinda sagði…
Ég tók upp á því eftir að hafa unnið í gróðri til fjölda ára, fyrst sem unglingur, því næst sem ungmenni í kirkjugörðum Reykjavíkur, þá verkstjóri í unglingavinnunni og síðar sjálfstætt vinnandi garðyrkjumaður að ég fékk eitt sumarið heiftarlegt gróður og frjóofnæmi. Hélt fyrst að ég væri bara með svona mikið kvef allt sumarið.Ég fór því á ofnæmislyf á hverju vori.
Í USA rakst ég svo á hómópatalyf sem átti að lækna þetta ofnæmi. Ég tók inn lyfið og hef ekki kennt mér meins síðan. (???)Það er bara léttir.

Vinsælar færslur