Fyrsta ganga ársins

Ég fór í fyrstu göngu ársins á laugardaginn. Í alveg yndislegu veðri gekk ég upp á bæjarfjallið mitt, Helgafellið. Hef aldrei byrjað svona snemma á árinu að ganga, en dagurinn bókstaflega bauð upp á göngu. Með hækkandi sól hefur maður fundið hvernig löngunin til þess að byrja að ganga hefur magnast. Ég held ég verði bara að viðurkenna að ég hef alveg tekið ástfóstri við gönguferðirnar. Það er eitthvað svo magnað við það að komast í svona beina snertingu við landið. Þetta var líka ótrúlega vel valinn dagur fyrir fyrstu gönguna. Því þó að hitastigið hafi ekki verið hátt, þá klæðir maður það bara af sér og þennan dag var líka frábært gönguveður. Svona næstum því logn og glampandi sól. Ég hef líka aðeins verið að bæta við útbúnaðinn í vetur og þetta var því kærkomið tækifæri til þess að prófa. Get ekki sagt annað en mér finnist ég hafa gert góð kaup. Ég fann hvernig bæði fötin og sólin héldu mér funheitum, þó hitastigið væri bara rétt um frostmark.

Svo er það líka svo skrítið að þó ég hafi marg oft gengið upp á Helgafellið, þá sér maður alltaf eitthvað nýtt í hvert skipti. Núna var hrímað þar sem sólin hafði ekki náð að skína. Það gaf gönguleiðinni alveg nýjan svip. Svo eru líka fleiri en ein leið upp. Nú á ég bara eftir að prófa að ganga alveg yfir. Það verður gert í sumar. En svona ganga er ótrúlega hressandi bæði fyrir líkama og sál. Göngufélaga mínum í þetta skiptið finnst þetta hreinlega best í heimi. Við erum einmitt að skipuleggja Hornstrandarferðina okkar í sumar. Lögðumst yfir kort eftir að við komum af fjalli og tókum ákvörðun um hvernig við ætlum að fara þetta í sumar. Við ætlum sem sagt að fara Hornvík til Aðalvíkur. Hlakka mikið til að takast á við þá leið. En mikið svakalega var þetta góð byrjun á gönguárinu.

Svo er sófinn ennþá til sölu. Endilega ef þið vitið um einhvern sem vantar sófa, þá tékkið á þessum.

Ummæli

Vinsælar færslur