Kominn í páskafrí

Mér finnst alveg frábært að vera í páskafríi. Byrjaði það með stæl í gærkvöldi þegar ég hlustaði og dillaði mér við alveg hreint frábæran plötusnúð frá Bandaríkjunum. Sem er reyndar er Írani að uppruna. En það var góð skemmtun. Svo furðulega sem það kann að hljóma fyrir mann á mínum aldri. Held reyndar að þeim fari að fækka heimsóknum mínum á skemmtistaði bæjarins til þess að dilla mér við plötusnúða. Held ég sé bókstaflega búinn að heyra í þeim flestum ef ekki öllum, sem mig hefur nokkurn tíma langað til þess að heyra í. Reyndar hef ég fundið jákvæðu áhrifin af hreyfingunni á virku dögunum á þessum skemmtunum. Maður er óneitanlega bæði hressari og úthaldið mun betra en fyrir nokkrum árum. Svona fyrir þá daga sem ég tók upp hollari lífshætti. Ekki alveg jafn viss um taktvísina.

Ég hef nefnilega tekið þátt í svona námskeiðum í heilsuátakinu mínu þar sem okkur köllunum hefur verið boðið upp á dans. Eða öllu heldur taktfastar æfingar við tónlist. Held að það hljóti að vera erfitt að halda andlitinu fyrir þá þjálfara sem taka þetta að sér. Því það er ekki of sögum sagt að við erum hver öðrum taktlausari. Eða í það minnsta hefur mér gengið virkilega erfiðlega að fá útlimina til þess að hreyfast í takt við æfingarnar og tónlistina. Maður svona danglar skönkunum eitthvað. Með spegil fyrir framan sig og þjálfara sem er með þetta allt á hreinu. Árangurinn hefur hingað til verið frekar sorglegur og eiginlega ótrúlega fyndin. Þetta hefur dregið úr trú minni á taktvísi mína.

Við þetta bætist að þessar skemmtanir draga úr manni kraft. Maður er gegnsósa af reyk, búinn að innbyrða áfengi og yfirleit frekar myglaður dagana á eftir. Þetta hefur mér fundist taka lengri tíma að jafna sig eftir því sem kertunum á afmæliskökunni minni fjölgar. Jafnframt tek ég eftir að þetta hefur neikvæð áhrif á getu mína í æfingunum sem ég stunda. Svo í því ljósi hef ég sett mér það markmið að reyna að halda þessum heimsóknum í lágmarki. Sem ég reikna ekki með að eigi eftir að reynast mér mjög erfitt í sumar. Því ofan á hefðbundnar æfinga ætla ég mér að takast á við landið á tveimur jafnfljótum.

En í páskafríinu hef ég annars hugsað mér að gera sem minnst og sá ekki betur en veðurguðirnir ætli að koma alveg í veg fyrir að ég taki göngur í sólskini og blíðu. Sjáum hvað setur.

Ummæli

Blinda sagði…
Þú'rt bara djammari gamli minn :-)
Nafnlaus sagði…
ég verð að segja að ég gæti bara ekki verið meira sammála þér,eins flott og mér finnst ég vera þegar ég er að dilla mér á dansgólfinu gengr mér ekki jafn vel með einhverja dansrútinu og hvað þá fyrir framan spegils nei nei nei ekki fallegt.
Og eins gaman það er að hlusta á góðan dj,sem allt gengur upp hjá svona dj sem stjórnar manni,þekkir það? þá er bara allt eftir það svo rosalega erfitt tekur mann marga mánuði(smá ýkt) að koma sólahringnum á sinn stað kannski væri hægt að fá þá til að spila oftar að degi til og í reyklausu umhverfi!?!?!
Nafnlaus sagði…
... eins og ungur maður sagði eitt sinn. !

"það er fátt um fína drætti að degi til, í reyklausri stofu, einn, hvað þá á hjóli."

...Einnig bætti hann svo við áður en hann dó fyrir aldur fram

"væla er bara fyrir þá sem skæla"

kveðja,
Krullóttur Hugulsamur Vinur.

Vinsælar færslur