Lítil saga tengd ferðalögum

Ég var að lesa litla ferðasögu. Hún er skemmtileg. Endilega kíkið á hana, þegar þið eruð búin með þessa. Það rifjaðist nefnilega upp fyrir mér svipað atvik. En þó ekki. Sem kom fyrir mig þegar ég heimsótti Florida í eitt skiptið. Málið var sem sagt að ég hafði verið í fríi á Florida. Að sjálfsögðu með bílaleigubíl. Maður kemst nefnilega ekki lönd frá strönd nema vera á bíl í USA. Eða svona næstum því ekki. Eina undantekningin er ef þú ákveðurð að gista hjá Disney. Þar er allt og rútur sem ferja þig á milli alls innan Disney. En þessi saga snýst ekki um bíla. Nema óbeint.

Málið var sem sagt að ég hafði tekið bílaleigubíl hjá Alamo og þegar ég hafði skilað bílnum þá hafði mér tekist að skilja myndavélina mína eftir í bílnum. Þetta uppgötvaði ég áður en ég var kominn í loftið. Svo ég hringdi í Alamo. Fékk samband og talaði þar við afskaplega þægilega konu sem lofaði mér því að hún myndi láta grenslast eftir myndavélinni. Hún spurði hvort ég vildi koma aftur á afgreiðsluna og bíða. Ég hélt ekki, því það var ekkert of langt þangað til flugið mitt átti að fara í loftið. Hún lofaði mér því að ef myndavélin myndi finnast, þá myndu þeir senda hana til mín. Ég var hinn ánægðasti með þessi svör. Flaug heim.

Svo fóru dagarnir að líða. Ég hef nokkra reynslu af því að það getur tekið nokkurn tíma fyrir póstsendingar að skila sér frá Bandaríkjunum. Á tímabili fóru öll bréf til Íslands t.d. fyrst til Írlands. Ekki langt á milli nafna og hvort tveggja eru þetta jú eyjar. Kannski starfsfólkið hjá USPS hafi bara haldið að þetta væri svona illa skrifað. Reyndar held ég að þetta hafi verið hugbúnaðarvilla. En sem sagt, ég var frekar rólegur yfir þessu. Bjóst við að það myndi taka 3-4 vikur áður en vélin myndi skila sér. En þegar sá tími var liðinn fór ég að verða svartsýn á framhaldið.

Kannski einhverjum starfmanni Alamo hefði langað í myndavél. Kannski hún hefði aldrei fundist. Kannski hefði hún týnst í pósti. Verið send til Ísrael í misgripum og sæti á rykugu pósthúsi við Rauðahafið. Þar sem engi vissi hvað ætti að gera við pakka til Íslands. Eða hvað veit maður. Svo ég fór bara að velta fyrir mér fjárfestingu í nýrri myndavél. Þetta var á þeim tíma þegar stafrænar myndavélar kostuðu ennþá hálfa leið í hundrað þúsund. Svona ef þú vildir ná sæmilegum gæðum. En ég byrjaði að skoða. Hugmyndin var sú að nýta næstu utanlandsferð. Ég hafði verið í Florida að hausti til og ég vildi því tryggja mér myndavél fyrir jólin. September, október, nóvember og nú gliti í desember. Ég var þess full viss að myndavélin væri týnd. Bölvaði Alamo. Örlögunum.

En þá gerðist hið furðulega. Ég fékk bréf í pósti. Merkt FedEx. Íslenskur umboðsaðili FedEx vildi sem sagt koma til mín pakka. Á bréfinu stóð að íslenskur umboðsaðili FedEx hefði reynt að hringja í mig. Heim til mín. Á tímabilinu 9 til 5. Þetta hafði gengið eitthvað illa. Sem hafði greinilega komið þeim verulega á óvart. Ég átti ekki von á neinum pakka og hringdi því til að forvitnast um hvaða pakki þetta væri. Þetta var þá myndavélin mín. Ég velti því fyrir mér hvernær pakkinn hefði komið.

FedEx er sniðugt fyrirtæki. Þeir vilja að pakkarnir sínir komist til skila. Eru með svakalega sniðugt eftirlits og afhendingarkerfi. Sem þeir nota til þess að þjónustumæla alla hluti. Þeir voru fyrsta fyrirtækið sem gerði viðskiptavinum sínum kleyft að fylgjast með framvindu pakka. Svo ég fór á FedEx vefinn. Fletti upp pakkanum mínum. Hann hafði verið sendur frá Alamo daginn eftir að ég fór frá Florida. Daginn þar á eftir kom hann til Íslands. Þar sem starfsmaður íslenska umboðsaðila FedEx ákvað að best væri að athuga hvort ég væri heima milli 9 og 5. Fyrir pakka sem merktur var urgent overnight delivery. Alamo hafði sem sagt staðið sig eins og hetjur. FedEx líka. En svo kom pakkinn til Íslands. Skýringin á afhverju hann komst ekki til skila. Var skortur á opinberum skjölum. Samkvæmt umboðsaðila FedEx á Íslandi. Svo tók það þá 3 mánuði að senda mér bréf. Sem kostar undir 50krónum. Eins gott að þetta var ekki eitthvað rosalega áríðandi.

Ummæli

Blinda sagði…
Gaman að þessu!

Aldrei skilið þennan endalausa seinagang með pappír. Held að skýringin sé oftar er ekki þessi: Allt of margir hafa ekki hugmynd um hvert hlutverk þeirra er á þeirra vinnustað og því lenda verkefni oft á kantinum, því enginn veit hver á að sinna þeim.

Vinsælar færslur