Spegil, spegil herm þú mér

“Getur appelsína verið fallegri en epli?”

Þessari spurningu var varpað fram á bloggi sem ég les reglulega. Mér finnst hún svara verð. Ekki vegna þess augljósa. Sem er auðvitað já, að appelsínur eru fallegri en epli. Eða af því að það sé ósanngjarnt að bera saman appelsínur og epli. Heldur vegna þess sem hafði farið á undan. Sem snérist um spurninguna um fegurð og hæfileika. Getuna til þess að skapa. Því fegurð er ekki eitthvað sem við getum búið til mælistiku á. Því fegurðin er svo ofboðslega bundin við þann sem hana sér.

Ég veit til dæmis fátt leiðinlegra en hóp af fólki sem er sannfært um fegurð sína. Það er nefnilega eitthvað svo sorglegt við þetta fólk. Fegurðin getur verið svo skammvinn og fallvölt. Fallega fólkið því virkað eitthvað svo einfalt og innantómt. Eða svo ótrúlega fullt af sjálfu sér. Sem er kannski ekki nema furða. En fegurðin er ekki einföld. Hún er fjölföld. Misjöfn.

Það sem einum finnst ljót, finnst nefnilega öðrum oft á tíðum fallegt. Stór hluti af þróun lista 20 aldarinnar gekk einmitt út á það að endurspegla ljótleika tilverunnar. Súrrealisminn bókstaflega veltir sér upp úr martröðum okkar. Ævintýrin okkar eru full af ljótleika. Pönkið var andsvar við ofuráherslu á fallega fólkið. Ég er samt ekki að halda því fram að ljótleiki sé fallegur. Það væri eiginlega jafn vitlaust eins og hitt. Þetta er miklu fremur uppreisn gegn ríkjandi fegurðargildum. Sem voru reyndar orðin æði föst í skorðum við upphaf síðustu aldar. En ég ætla samt ekki að skrifa einhverja langloku um viðmið listfræðinga.

Það rifjaðist upp fyrir mér samtal sem ég átti við ensku kennara í háskólanum mínum í Richmond. Þetta var svona undir lok níunda áratugsins. Svona rétt um það leiti sem endurvinnsla (sampling) var að ná sér á strik í tónlist. Það var að lifna yfir danstónlistinni. Hip hop var að hefja sig til flugs. Ekkert af þessu var á þeim tíma talið sérlega fallegt. Kom meira að segja út diskur í Bretlandi sem hét, ef ég man það rétt, “Music with bleeps”. Sem átti bara nokkuð vel við. Um þetta fyrirbæri skrifaði ég einhverjar línur. Þar sem ég hélt því blákalt fram að í þessu fælist fegurð. Man eftir því að kennaranum fannst ég komast nokkuð vel frá umfjöllun minni, en spurði samt hvort ég væri í alvöru að halda því fram að þetta væri fallegt. Sem mér auðvitað fannst. Og finnst enn þann dag í dag.

Því ég er sannfærður um að hvöt okkar til þess að skapa sé nokkuð skipulega drepin í skólakerfinu. Í það minnsta í því sem ég gekk í gegnum. Ekki fráleit að halda því fram að skólakerfið séu sterkustu leifar iðnbyltingarinnar. Þar sem það skipti öllu máli að við mótuðumst í sama mótið. Á meðan heimurinn í dag einkennist af fólki sem nær árangri vegna þess að það er einstakt. Öðru vísi. Leyfir sér að henda sér fram af hengifluginu og skapa eitthvað nýtt og spennandi. Ég er að sjá þetta allt í kringum mig. Upplifun er orð dagsins.

Svo svarið við spurningunni er auðvitað “bæði betra”.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
þarna var góður pistill Simmi, heilmikið til í þessu. þess vegna finnst mér t.d. svo undarlegt að keppa í fegurð. hvað er fallegast? er fallegra að vera dökkhærður en rauðhærður? er fallegra að vera með blá augu en brún? mér finnst einfaldlega gott og hjartahlýtt fólk fallegt...
Nafnlaus sagði…
Þetta er hluti af lengri pælingu, a.m.k. af minni hálfu. Mér finnst oft eitthvað fallegt sem sumum finnst ekkert fallegt.

Mér finnst bara stundum merkilegt hvað maður er að bera sig saman við hluti sem eru allt annars eðlis en það sem maður er að gera sjálfur - og dæma mann til dauða útfrá því.

Sumt er ekkert hægt að bera saman.

-Anna
Simmi sagði…
Já, svona eins og bera sig saman við Nóbelsverðlaunahafa og finnast maður ömurlegur. Gera Kate Moss að mælistiku fyrir allar konur (mínus dópið auðvitað). Gera endalausar kröfur til sjálf sín, en skilja svo ekkert í því afhverju fólk sér ekki stjörnuna í sjálfu sér. Ekki það að ég sjái mína, en ég sé ykkar...þetta er weird en satt:-)
Nafnlaus sagði…
sannir listamenn sjá eitthvað fallegt og athyglisvert út úr hversagslegustu hlutum...held að okkur væri hollt að breyta því hvernig við hugsum um "hversdagslega hluti" - hversdagurinn er fullur af ævintýrum

ég er t.d. ekki raunsæismanneskja - ég get svissað yfir í töfraraunsæi og unað mér þar vel;)

Vinsælar færslur