Frekari ábendingar vegna hjólakaupa

Það hefur komið mér skemmtilega á óvart þau jákvæðu viðbrögð sem ég hef fengið við leit minn að reiðhjóli. Þetta er samt greinilega ekki einfalt verkefni. Að ýmsu er að hyggja. En þó eru nokkrir hlutir að koma í ljós.

Í fyrsta lagi þá skiptir ramminn mestu máli í þessu öllu. Það má sem sagt skipta um stýri, hjól, dempara, gírkassa, stýri osfrv, en ramminn er það sem þetta allt er fest við. Það er því mikilvægt að velja hann vel. Þetta hafði ég auðvitað ekki hugmynd um. En um leið og mér var sagt þetta, þá auðvitað sá ég að þetta var dagsljóst. En hvað efniviðinn varðar þá var þetta ekki spurning. Því það er ekkert nema ál sem kemur til greina. Veit ekki alveg hvað mér finnst um álframleiðslu á Íslandi, en ál er málið í hjólum.

Það næsta sem ég þurfti að gera mér grein fyrir var til hvers ég ætlaði að nota hjólið. Var ætlunin að ná sem mestum hraða? Eða átti ég frekar von á því að vilja fara ótroðnar slóðir. Já, eða í það minnsta malarvegi. Það hljómar nú skemmtilegra að geta komist út fyrir vegakerfið. Þetta malbikaða í það minnsta. Ég næ samt ekki að sjá mig fyrir mér upp á fjöllum. En ég efast ekki um að það eru vegaslóðar sem ég færi varla nema á jeppa eða hjólinu. Sumir jafnvel alls ekki nema á hjóli. Svo ég vil fá hjól sem þolir smá ósléttur, án þess að það þurfi að komast hvað sem er.

Svo nú veit ég að ég vil eitthvað sem heitir fjallahjól. Hitt heitir víst “road”hjól og eru svona eins og maður sér í Tour de France. Gerð til að komast sem hraðast á malbiki, en þola líklega ekki mikinn akstur á ósléttum troðningum. Með þetta í huga þá er búið að benda mér á frábærann vef með upplýsingum um fjallahjól. Hreint út sagt frábær upplýsingalind sem ég á eflaust eftir að skoða fram og til baka og heitir MTBR.com. Mér var líka bent á nýja tegund af hjólum. Gary Fisher. Sem halda úti fínum vef.

Þarna fannst mér allt vera á sínum stað. Ég fann umfjöllun um hjólin. Sem var ýtarleg og góð. En það sem skipti kannski meira máli fyrir mig. Ég fann hjólamiðlara. Svona “Matchmaker” sem kemur mér í tengsl við rétta hjólið fyrir mig. En eitt er þó ennþá óljóst. Það er hversu stór fjárfesting þetta verður. Því mér hefur verið bent á að það sé nokkuð sterkt samband milli verðs og gæða í þessu. Verðið hlaupi á tugum þúsunda.

Ég fékk til dæmis viðbrögð við einu hjóli sem ég hafði séð hjá Raleigh í Bretlandi. Það þótti ekki endilega vera góð hugmynd. Jafnframt er mér sagt að það skipti nokkru máli hverjir séu umboðsaðilar hjólanna hér á landi. Þjónustan sé ekki jafn góð hjá þeim öllum. Sem er svolítið eins og í bílunum hér heima. Sem er einmitt ástæðan fyrir því að ég er ánægður Toyota eigandi.

Svo er ég líka farinn að fá ábendingar um skynsamlega auka hluti. Það er víst gott að eiga hjólaskó. Held að það sé nokkuð til í því. Flest af útivistardótinu mínu ætti líka að geta komið sér vel við hjólreiðar. Svo sem eins og vatnsbelgurinn sem einmitt fer svo vel í dagspokanum mínum. En ætli það líði ekki einhver tími í að ég fari að hjóla í þar til gerðum hjólreiðagalla. Aldrei segja aldrei samt.

En ég er ekki bara búinn að hugsa um hjól þessa vikuna. Reyndar hef ég haft um nóg að hugsa. Bæði persónulega og í vinnu. Hef það samt fyrir reglu að tala sem minnst um vinnuna hér. Þetta er mitt persónulega svæði. Ætla að halda því þannig áfram. En persónulega þá á ég von á því að næstu vikur gætu orðið erfiðar. En svo kemur lífið mér á óvart og sendir mér stuðningsefni. Eins og til dæmis þessa frábæru heimildarmynd um London frá 1967. Sem er reyndar alveg fullt stór – Tonight Lets All Make Love er nefnilega 570 MB. Þetta er hins vegar svaka flott heimildarmynd. Fyrir þau ykkar sem hafa fylgst með Idol þá þykir mér nokkuð ljóst að þið ætlið ekki að missa af American Dream. Skyldum við sjá stjórnmálamenn í dómnefnd hér heima? Svo fannst mér lítil frétt af manni sem hafði fengið sekt fyrir að kaupa sér tæki sem breyti umferðarljósum úr rauðu í grænt alveg sú skemmtilegasta sem ég hef lesið í þessari viku. Tækið er auðvitað hægt að kaupa á Netinu. Ætli einhver geti sagt mér hvort þetta virkar á Íslandi?

Svo eru hér að lokum 2 vefir sem hafa glatt mitt hjarta, hvor á sinn hátt. Annars vegar er Ogle Earth sem er blogg tileinkað skemmtilegasta leikfanginu mínu. Google Earth. Hins vegar Skuggar – eða Shadows. Betri aðferð við að geyma favorites. Ég er búinn að færa öll frá delicious (sem mér fannst ekki slæm þjónusta) yfir á Shadows. Þar er nefnilega hægt að hafa sum opin og önnur lokuð. Svo er líka framsetningin á Shadows miklu flottari en á delicious. En dæmi hver fyrir sig.

Ummæli

Vinsælar færslur