Göngum, göngum

Í morgunn gekk ég á Stapatind með gönguhópnum góða. Þessar laugardagsgöngur í íslenska vorveðrinu eru ekkert annað en snilld. Fékk meira að segja nýjan göngufélaga. Sem er alltaf skemmtilegt. Eins og ég hef minnst á áður þá er hugmyndin sú að ganga á Hornströndum í sumar. Hópurinn er eitthvað að stækka þó hægt gangi. Ef þú lesandi góður hefur áhuga á því að koma í ævintýri með okkur, þá sendu mér endilega kveðju. Allir velkomnir og því fleiri sem bætast í hópinn því skemmtilegra verður þetta. Við erum komin með áætlun.

5. júlí – Farið til Ísafjarðar
6. júlí – Farið frá Ísafirði til Hornvíkur
7. júlí – Hornvík til Hælavíkur – göngulýsing
8. júlí – Hælavík til Hesteyrar
9. júlí – Hesteyri til Aðalvíkur - göngulýsing
10. júlí - Aðalvík
11. júlí – Aðalvík til Ísafjarðar
12. júlí – Farið frá Ísafirði

Ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé ferð fyrir óvana, en fyrir vant fólk í sæmilegu formi ætti þetta að verða ævintýri. Það verða einhverjir útlendingar með okkur og þess vegna hefur verið settur saman útbúnaðarlisti fyrir þá sem langar að kíkja með en eru ekki alveg vissir um hvað þyrfti að taka með.

Eitt af nauðsynlegum tækjum í göngum á Hornströndum er GPS tæki. Svo jólasveininn kom með eitt slíkt handa mér. Sem ég hef verið að reyna að læra á síðan. Svona svo ég viti nú hvað ég er að gera á Hornströndum. Notendahandbókin hefur verið dregin fram og nú verður tekið til við að lesa og læra. Merkilegt annars þetta með notendahandbækur. Einhvern veginn finnst manni maður aldrei þurfa að lesa þær. En líklega sniðugra að lenda ekki í vandræðum upp á heiði.

Þetta verður annars skipulagt með það fyrir augum að fá sem mest út úr þessu. Ég er byrjaður að fórna til veðurguðana. Kannski þess vegna sem routerinn minn er andsetinn. Búálfurinn hefur ekki verið nógu ánægður með athyglisleysið. Skilst að þeir geti verið erfiðir hérna í Hafnarfirðinum.

Ummæli

Simmi sagði…
Ég vissi það. Rækjur og rjómi það var það sem búálfurinn þurfti. Allt komið í himnalag aftur. Ég get bloggað og blaðrar eins og hugurinn girnist heima hjá mér:-)
Blinda sagði…
Hahaha! Slettirðu vænni gusu á hann blessaðan?

Til hamingju með andsetjuleysið og gleðina :-)......ja og leiðbeiningahandbókarbæklinga ..
hehe
Simmi sagði…
Nei, nei, þeir vilja fá rækjurnar í þeyttum rjóma. Já, ég veit að þetta hljómar skringilega, en það sagði mér þetta gömul konu sem veit lengra en nef hennar nær. Ogg frænka ef ég man rétt;-)
Blinda sagði…
Nanny Ogg hefur aldrei klikkað ;)
Nafnlaus sagði…
Þessi ganga hljómar ekki lítið vel- veistu hvað þetta er c.a. löng ganga á hverjum degi í kílómetrum?
Simmi sagði…
Ekki alveg með það upp á metra. En sýnist að þetta séu ca. 7 km fyrsta daginn, 14 km þann næsta og 13 km þann síðasta. Dagur 1 er sagður hæfileg dagleið enda töluvert bratt. Dagur 2 er með mestu hækkun upp á 430 m, en hún ætti að vera jöfn og þétt og því ekki verða mjög átakamikil. Síðasti dagurinn erum við síðan með tiltölulega þægilega göngu yfir í Aðalvík með um 250m hækkun. Ertu að spá í að skella þér með?
Simmi sagði…
Smá leiðrétting - dagur 1 er víst 10 km og dagur 3 14km - ætli dagur 2 sé þá ekki 15-16 km. Ég kíkti á göngulýsinguna sem er vísað í hérna fyrir ofan:-)
Nafnlaus sagði…
Hmmm, ég er hér um bil "sold". Ég var búinn að ákveða að taka göngu einhversstaðar á Vestfjörðunum í sumar og þessi lítur vel út.
Simmi sagði…
Ég bæti þér inn á göngulistahópinn minn svo þú getir fylgst með. Þetta verður ævintýri:-)

Vinsælar færslur