Kominn heim

Þetta ferðalag tók auðvitað enda. Ég komst heim. Í ískalda norðanáttina, sem er óskaplega napurleg þegar maður stígur út um dyrnar á flugstöðinni í Keflavík. Ferðin heim gekk bara vel. Engar óvæntar tafir og farangur skilaði sér undanbragðalaust. En mér tókst samt að gera smávægileg mistök. Ég er nefnilega ekki ennþá búinn að láta húðflúra íslensku tollalöggjöfina á höndina á mér. En á pantaðan tíma eftir helgina.

Málið er nefnilega að hún er í sjálfu sér fremur einföld. Það er bannað að flytja allt inn. Nema að borga af því toll og vörugjöld. Sumt meira að segja alveg bannað. En svo er svona frívöruflokkur. Sem við ferðamenn höfum aðgang að. Það má sem sagt flytja inn 2 lítra af áfengi. En það verður að gerast í mjög vel skilgreindum skömmtum. 1 líter af sterku og einn líter af veiku. Ekki 2 lítrar af sterku víni. Sem voru auðvitað mín mistök. Málið er nefnilega að það má kaupa 3 flöskur af léttvíni. Sem ég geri yfirleit. Nema í þetta skipti. Það voru nefnilega 2 flöskur af sterku víni sem töluðu við mig í fríhöfninni í Boston. Annars vegar flaska af vanillu vodka og hins vegar flaska af Reposado Tequila.

Þetta eru áfengistegundir sem ekki fást á Íslandi. Veit ekki hvað veldur með vanillu vodka. Hér fást nefnilega flest allir vodka drykkir sem hafa verið settir saman. Reyndar ekki úkraínskt hunags og chilli vodka, en það er kannski auðskildara. En vanillu vodka er mun ljúfari drykkur. Fer afskaplega vel með Sprite Zero og lime. Svo ég hef borið þennan drykk með mér heim frá Bandaríkjunum. Þetta með tequila á sér aðeins flóknari sögu.

Þegar ég var við nám í Nottingham þá kynntist ég nefnilega stelpu frá Mexíkó. Ferlega skemmtileg stelpa og við urðum ágætis félagar. Hef reynt töluvert til þess að fá hana til þess að koma í heimsókn hingað á norðurslóðir en ekkert gengið. Fyrir nokkrum árum þá fór ég og mín fyrrverandi hins vegar til Mexíkó. Ferðin var svona bæði til þess að heimsækja þessa gömlu vinkonu og til þess að sjá Mexíkó. Sem tókst held ég bara bærilega. Í það minnsta breytust hugmyndir mínar um þetta ævintýralega land mikið. En það er önnur ferðasaga. Eitt af því sem okkur var boðið upp á var tequila reposado. Sem er mikil drykkur. Allt annað tequila en þetta glæra sem selt er hér. Tequila er nefnilega unnið úr kaktus. Í reposado er notað besti safinn og þetta er svona eðal framleiðsla. Í þetta glæra er síðan notað það sem eftir stendur. Svona rétt til að fá smá bragðkeim. Þykir ekki fínt. En þarna lærði ég sem sagt að meta tequila. Sem mexíkanar drekka með lime og tómatsafa sem hefur verið kryddaður með chilli. Drekka þetta hægt og rólega og kæla jafnvel niður. Ekki í skotum með salti og sítrónu. Ekki frá því að það hafi verið eitthvað sem mexíkanar laumuðu í illkvittni sinni að nágrönnum sínum í norðri.

Síðasta kvöldið okkar í Mexíkó var okkur boðið til mikillar drykkju af vinkonu minni. Ég hef oft og iðulega drukkið sterka drykki, en þarna var skálað nokkuð oft. Eiginlega nógu oft til þess að ég hætti að vita nákvæmlega hversu oft. Skálað í vönduðu tequila. Við þurftum að leggja snemma af stað daginn eftir til þess að ná fluginu í Mexíkóborg, en það var um klukkutíma akstur frá borginni þar sem vinkona mín bjó. En þrátt fyrir það sátum við nokkuð lengi að. Of lengi þegar ég vaknaði daginn eftir. Ég er nokkuð viss um að ég ef ég hefði átt að keyra þá hefði ég verið kolólöglegur. Var alveg vankaður eftir kvöldið á undan. Við vorum þar á nokkuð svipuðum slóðum. Leigubílinn sem við höfðum pantað kvöldið áður var mættur á réttum tíma og við komumst á rútubílastöðina. Ég man ekki hvort ég hef minnst á það áður hér, en í Mexíkó eru rútur frábær ferðamáti. Þær eru ódýrar og þar er hægt að finna sér virkilega flottar rútur. Sem bjóða upp á veruleg þægindi. Í þeirri sem kom okkur út á flugvöll var meira að segja þjónusta. Rútufreyja sem gekk og bauð upp á gosdrykki. Sætin voru líka alveg mögnuð í þessum rútum. Næstum því hægt að breyta þeim í rúm. Hef aldrei upplifað önnur eins þægindi í rútu. Eina vandamálið var að við vorum eiginlega alls ekki búin að jafna okkur á tequila drykkju kvöldsins á undan. Held að okkur hafi eiginlega verið hálfgerð vorkunn þennan morgunn. Það góða við Mexíkó er samt að þar er fólk allstaðar sem er tilbúið til þess að gera þessa smálegu hluti fyrir mann. Fyrir næstum því ekki neitt. Svo þegar á flugvöllinn var komið, þá fundum við okkur ágætan mann sem flutti fyrir okkur allan farangurinn í innritun. Ég er ekki viss um að þetta fólk hafi allt átt góða daga, en þennan morgunn þá var þetta engill. Það sem toppaði svo ástandið var þegar við röltum inn ganginn í átt að fríhöfninni. Okkur leið svona eins og gólfið væri ekki alveg slétt. Nema það var mismunandi hvert það hallaði. En það var ekki það versta. Við okkur blöstu stæður af Tequila. Sem var svona álíka freistandi og henda sér nakinn út í skafl. Sem virkar fínt eftir heit sauna, en þetta var ekki sauna stund gagnvart tequila. Það kemur líklega ekki á óvart að við fjárfestum ekki í tequila.

Sem ég hef síðan séð dálítið eftir. Því þetta reposado tequila er harla erfitt að komast yfir. En í flugstöðinni í Boston stendur þetta til boða. Ég var þess fullviss að til Íslands mæti taka með sér 2 lítra af áfengi og var því ekki lengi að kippa með mér 1 lítra af vanillu vodka og 750 ml. flösku af tequila. Þetta væri meira að segja vel innan leyfilegra marka. Fannst eiginlega bara slæmt að ekki væri hægt að fá lítra af tequila. En það var kannski bara ágætt. Því þó maður geti sameinað léttvín og tekið með sér 3 léttvínsflöskur (2.250 ml.) þá gildir ekki hið sama um sterkt vín. Svo þó ég væri ekki með neitt léttvín í pokanum þegar tollvörðurinn stöðvaði mig, þá fannst honum það ekki góð hugmynd að ég væri með 2 sterkar flöskur. Það er nefnilega bannað. Ég yrði að halda í rauðahliðið og greiða mína skatta og skyldur af þessari auka flösku. Sem er hreint ekki góð hugmynd ef ekki er um að ræða þeim mun dýrari vín. Því fyrir þessa auka flösku þurfti ég að greiða tæplega 2.500 krónur. En í ljósi þess að það gæti liðið nokkuð langur tími þar til ég fæ næst tækifæri til þess að kaupa Tequila reposado þá var þetta ekki mjög sárt. Nú er bara að finna tækifæri til þess að halda Mexíkóveislu.  

Ummæli

Blinda sagði…
Ósköp hefurðu verið krimmalegur á svipinn fyrst þú varst stoppaður!! Þú sem ert ávallt eins og lamb að vori ;)

Samviska? Hmmmmmm...

Næst hefurðu vaðið fyrir neðan þig og stingur þessu í nærbuxnahrúguna eins og allar séðar "konur". Enginn gramsar þar. Ert svo temmilega þreyttur og búinn á því á svipinn og siglir hjá. :-)

Alltaf hægt að finna ástæðu til að halda gott partý. Næst þegar þú átt kveflausan dag t.d. :-)
Simmi sagði…
Held þeim finnist ég eitthvað líklegur til þess að bera ólöglegan varning milli landa. Annar held ég að þeim leiðist mest þarna fyrst á morgnana - ekki í fyrsta skipti sem þeir hafa séð ástæðu til þess að gera mér lífið leitt á leiðinni heim frá USA. Ætli það sé suður ameríska lúkkið? Eða "protected by the mob" miðinn á töskunum mínum? :-)

Já, ég hef meira að segja heyrt að hóflega drykkja geti hjálpað við kvefi.
Blinda sagði…
Var alltaf látin í friði enda alltaf á svipinn eins og kona sem var búin að ganga í gegnum helvíti í 24 tíma plús.

Þetta er örugglega "The Latin Look" - fátt annað kemur til greina...... :-)

Tequila er ávísun á kveflaus ÁR!


ps. er að hlusta og bara gaman ..jeiiiii
Simmi sagði…
Hey, prófaðu Deep House Mafia tenglinn hérna - hann er fullur af góðri tónlist.
Blinda sagði…
Aðeins OF gaman hjá minni núna!!
Hver kennir í fyrramálið!!!!!?????
Simmi sagði…
Það kemur dagur eftir þennan dag :-)

Vinsælar færslur