Grár dagur í útlöndum

Það var ekkert sérlega bjart yfir íþróttaborginni þegar ég vaknaði í morgunn. Það hjálpaði heldur ekki til að hafa verið aðeins of lengi vakandi í gærkvöldi. En ég hafði nú samt góða ástæðu til. Ferðafélagi minn var að halda upp á afmælisdaginn. Við félagarnir höfðum eytt deginum á fundum. Verið að vinna. Á meðan skein sólin. En eitthvað fór lítið fyrir því inn í fundarherberginu okkar. En það var allt í góðu. Eftir að vinnudeginum lauk þá var ákveðið að kíkja út. Félaginn yrði að fá góða steik.

Við áttum borð með þeim sem við höfðum setið fundina með yfir daginn. Samkvæmt venju þá var sest við barinn áður en okkur var vísað til borðs. Tekið tal og farið yfir viðburði dagsins. Ég slengdi fram hugmynd sem fékk frábærar viðtökur. Eiginlega miklu betri en ég átti von. Veit ekki betur en heldur en hafist hafi verið handa við að hrinda henni í framkvæmd strax í gærkvöldi. Það skemmtilega við hugmyndir er hversu ódýrar þær eru. Það verður nefnilega engin ríkur af því að fá góðar hugmyndir. En maður getur aflað sér vina með því að gefa frá sér góðar hugmyndir. Í ljósi þess hve sterkt ég trúi á karma, þá hlýt ég hafa unnið mér inn einhverja punkta í karmasöfnun í gærkvöldi.

En maturinn var góður. Sömuleiðis vínið. Þetta er eitthvað sem fólk í þessum heimshluta kann. Að elda góðan mat. Sumir segja að það sjáist í vaxtarlaginu á því líka. Ég er ekki frá því að það sé nokkuð til í því. Í kjölfarið var síðan haldið áfram að skála. Kannski aðeins of lengi fram eftir. Því ég var hálf grár í morgunn. Eins og himininn sem fór að senda okkur regndropa skömmu eftir að við yfirgáfum hótelið okkar. En það er önnur saga.

Það er búið að vera stormasamt í borginni. Heldur betur. Því eitt af háhýsum borgarinnar leit hreint ekki vel út. Hefði ekki viljað vera þar inni þegar veðrið gekk yfir.

Ummæli

Vinsælar færslur