Andsetinn router - skrifað á sunnudegi

Það er ekki pennaletin sem hefur komið í veg fyrir að ég hafi getið sett einhverjar línur inn hér um helgina. Heldur er routerinn minn andsetinn. Eða ég get ekki útskýrt þetta með neinum öðrum hætti. Það virkar allt nema blogger. Ég hreinlega get ekki sett neitt inn heima hjá mér. Skil þetta bara hreint ekki. Búinn að reyna bæði þráðlaust og ekki þráðlaust og allt kemur fyrir ekki. Í hvert skipti sem ég reyni að setja inn efni, þá er eins og ég missi samband við blogger. Veit ekki hvort einhver annar en ég hefur lent í þessu, en ef þú hefur einhverja hugmynd. Hjálp!

Mér finnst nefnilega orðið svo skemmtilegt að setja einhverjar línur hérna inn. Veit að þó ekki séu allir duglegir við að senda mér skilaboð, þá er þetta lesið. Heyrði það til dæmis um helgina. Sem mér fannst auðvitað skemmtilegt. Svo þó þetta sé svo sem bara mín leið til að fá útrás fyrir ritgleðina, þá veit ég að það er skemmtilegra að hér sé reglulega eitthvað að lesa. Svo ef ritgleðin virðist lítil um helgar, þá er það ekki vegna þess að ég hafi ekki frá einhverju að segja. Gæti meira að segja orðið þannig að á mánudögum virðist ég hafi meiri tíma til skrifta en hina dagana. Vona samt að ég finni einhverja lausn á þessu.

Í gær (laugardag) var ég annars í afmæli. Hjá góðum vini mínum. Færði honum galdradúkku og ostabakka í félagi við sameiginlegan vin okkar. Held að gjöfin hafi bara hitt í mark. Í það minnsta hefði ég alveg verið til í að fá svona gjöf. Afmælið var annars hið glæsilegasta. Það var farið á Grillið. Þar sem við félagarnir nutum góðs matar og drykkjar. Staðurinn er klassískur. Það skemmdi heldur ekki fyrir stemmningunni að okkur var komið fyrir á háborði. Okkur leið eins og kóngum. Staðurinn eitthvað svo yndislega gamaldags. Þjónarnir góðir. Maturinn frábær. Ég get ekki annað en mælt með heimsókn á Grillið. Í kjölfarið var haldið í heimahús þar sem fjörið hélt áfram. Ég kíkti samt aðeins út.

Ekki langt samt, því ég var hreint ekki nægilega vel klæddur fyrir mikla útiveru í frostinu. Svo ég endaði bara inn á Rex. Sem var bara fínt. Hitti skemmtilegt fólk. Sá líka fullt af fólki. En eins og oft áður þá er samt fjölbreytur hópur þarna inni. En ég hafði samt á tilfiningunni að það væri ekkert ofboðslega mikið af fólki í bænum. En vegna kuldans þá varð þetta eini staðurinn sem ég heimsótti þetta kvöldið.

Í dag var hins vegar svo flott veður að ég fór út. Gat einhvern veginn ekki skilið í öðru en það væri bara flott veður úti. Fyndið hvað maður gleymir því á hverju ári hvernig glugga veðrið virkar á Íslandi. Því það var bara hroll kalt úti. Fallegt en kalt. En sólin hitaði manni samt. Um leið og ég gekk í skugganum þá fann ég hversu kalt var. En þetta táknar samt greinilega að vorið er á leiðinni. Það finnast mér góð tíðindi.

Ummæli

Blinda sagði…
Grillið minnir mig alltaf á "Englar alheimsins" og þegar þú sagðir að þið félagarnir hefðuð setið við háborð sprakk ég úr hlátri. Sá fyrir mér atriðið þar sem þeir lauma miðanum til þjónsins eftir að hafa étið og drukkið fyrir ALLAN peninginn, sem á stóð:"Við erum geðsjúklingar af Kleppi, vinsamlegast hringdu á lögregluna" Hahahaha!
Nafnlaus sagði…
hurðu, þetta sama kom fyrir hjá mér með bloggerinn og það gekk yfir á viku eða svo. fékk aldrei útskýringu á þessu, bölvaði bara mikið og hátt. kannski það hafi hjálpað?

reyndar þurfti ég líka eitthvað að breyta stillingum á tölvunni, enable java og eitthv. svoleiðis tæknibull
Simmi sagði…
Já, við vorum algjörlega á sama stað og þeir félagarnir í Englunum - nema við borguðum:-)

Hmm...já mig vantar eitthvað ofurnörd til þess að skoða þetta fyrir mig. Meira að segja hæstlaunuðustu sérfræðingar í upplýsingatækni sem ég þekki hafa ekki átt neina góða skýringu. Held að málið sé að prófa að senda Blogger fólkinu póst að sjá hvort þeir kannist við vandmál við þennan router. Eða kannski bara að skipta um blogkerfi.

Vinsælar færslur