Í ævintýraheimum

Ég hef ferlega gaman af ævintýrum. Man eftir því sem barn að hafa lesið mig í gegnum hvert ævintýrið á fætur öðru. Hef haldið þeim sið. Hef hreinlega ferlega gaman af þessari tegund bókmennta. Sem því miður er ferlega full af frekar illa skrifuðu drasli. Svona í hnotskurn þá snúast þær um hetju, konungsdæmi og oftar en ekki þá eru einhverjir drekar að þvælast í þessum sögum. Þess vegna hef ég ekki endilega hlaupið á eftir öllu sem kemur út á þessu sviði. Enda verður maður fljótlega frekar þreyttur á þessum fjöldaframleiddu sögum.

En það eru einstaka höfundar og bækur sem ennþá vekja með mér áhuga á þessu sviði. Clive Barker er einn af þeim sem tekist hefur að búa til nútímaleg ævintýri. Bæði fyrir börn og fullorðna. Raunar má segja að hrollvekjan sé oft æði nærri ævintýrunum. Raunar eru þeir til sem halda því fram að hrollvekjan sé síðasta form alþýðusögunnar. En það er önnur saga og kannski efni í aðra færslu síðar. Ég er samt ekkert endilega að gera of mikið úr þessum áhuga mínum. Það þykir nefnilega ekkert sérlega fínt að hafa gaman af ævintýrum.

Veit ekki hvað það er sem heldur þessum áhuga gangandi hjá mér. Finnst eitthvað sérstaklega skemmtilegt við þessa ævintýraheima. Hef reyndar líka hlegið upphátt að Terry Pratchett. Sem dregið hefur þessa klassísku ævintýrasögur sundur og saman í háði. En þó skilið eftir brodd sem bendir á okkar eigin samfélag. Sem ævinlega hefur verið tilgangur þessara sagna. Í það minnsta þeirra sem vel eru skrifaðar. Þannig skilst mér að sögurnar af fátæka bóndasyninum sem vinnur konungsríkið af fremur heimskum aðalsmönnum séu sögur bændafólks frá miðöldum sem ekki mátti segja vont orð um sín eigin yfirvöld.

Reyndar hefur þetta með afstöðu fólks til ævintýra kannski eitthvað verið að breytast. Vinsældir Harry Potter og Hringadróttinssögu virðast benda til þess. Ég ætla að halda mig á ævintýraslóðunum um páskana. Hef ákveðið að þetta verði ævintýrapáskar. Enda búinn að horfa bæði á Harry Potter og Narnia það sem af er páskafríinu mínu. Fannst þær ágætis skemmtun. Nú er að sjá hvort ég finni mér eitthvað fleira skemmtilegt til að horfa á um helgina.

Ummæli

Blinda sagði…
Ætla rétt að vona að þú sért búinn að sjá "Princess Bride" og "Willow" - ef orðið langt síðan - taka þær aftur.
Myndin um Baron Munchousen, lygalaupinn stórkostlega var líka ekki leiðinleg, sem og Big Fish.
Gaman að það eru til fleiri fullorðin börn :-) ....Hvernig fór með Tom Robbins?
Simmi sagði…
Tom Robbins er í lestri - svona hálfnaður með fyrstu bókina - Still Live With Woodpecker. Ég á við svakalegan einbeitingarskort að etja í lestri á köflum. Finnst það samt skemmtilegt sem komið er..

Vinsælar færslur