Ég spara 2,5 milljónir

Ég er búinn að finna leið til þess að spara mér 2,5 milljónir. Mér líður ekkert smá vel með þessa uppgötvun mína. Segi ykkur betur frá henni á eftir.

Í morgunn þegar ég var á leið í vinnuna þá varð mér allt í einu hugsað til þess hvað mér finnst æðislegt að eiga heima á Íslandi. Hvað þetta er raunar afskaplega fallegt land sem við búum á. Veit ekki hvað það var sem kveikti þessa þjóðernistilfinningu í brjósti mínu. Kannski sólin og hálf hvít Esjan. Það var eitthvað svo mikilfenglegt allt saman. Kosturinn við það að búa á stór Hafnarfjarðarsvæðinu er nefnilega sá að ég horfi á Esjuna í hvert skipti sem ég sæki vinnu niður í 101. Þetta fjall sem Reykvíkingar vilja kalla fjallið sitt. En fæstir þeirra sjá. Ég sá í það minnsta lítið af því meðan ég bjó í Reykjavík. Sé það miklu betur núna. Í morgunn var þetta ferlega flott fjall. Svona með snjó niður að mitti. Hálfa leiðina. Fjöllin verða eitthvað svo skörp og falleg svona með smá hvítri kollu.

Annars er ég enginn sérstakur þjóðernissinni. Finnst reyndar alltaf betra og betra að eiga heima á Íslandi. Held það hafi eitthvað með aldurinn að gera. Því mér fannst ægilega vont að búa hérna þegar ég var yngri. Langaði alveg ofboðslega mikið eitthvað til þess að eiga heima úti í hinum stóra heimi. Svo prófaði ég það. Komst að því að það er ósköp svipað og eiga heima á Íslandi. Nema maður þarf að bíða lengur í biðröðum. Er lengri tíma að gera allt. Það er fjölmennið. Fámennið hefur sína kosti. Sem virðast færri þegar þú ert yngri. Í það minnsta fannst mér það.

Í dag finnst mér skemmtilegt að búa á svona stað þar sem allir eru frekar þægilegir í umgengni. Við erum ekki nógu mörg til þess að hér verði til of stórt bil á milli okkar. Þetta var orðað svo skemmtilega við mig einhvern tíma. Við erum svo fá að meira að segja þvottakonurnar skipta máli. Ég er sammála þessari hugsun. Finnst eitthvað svo fallegt við hana. Að við skiptum öll máli. Séum ekki bara tölur. Held að okkur flestum finnist það óhugnanlegt að við séum bara hluti af einhverri tölfræði. Finnst það líka mjög jákvætt hvað menningin okkar er sterk. Að ég sé hluti af einhverju sem bara 300 þúsund aðrir skilja til fullnustu. Já, eða kannski eitthvað aðeins fleiri ef maður segir að þessir brottfluttu Íslendingar séu líka hluti af þessu.

Finnst það líka æðislegt að við skulum þekkja styrk okkar. Að við séum óhrædd við hið óþekkta og nýja. Leyfum öðrum straumum að leika um okkur. Án þess að fá risavaxna minnimáttarkennd. Held að það sé ofboðslegt styrkleikamerki. Í dag er ég glaður með að vera Íslendingur.

En hvernig ætla ég að spara mér 2,5 milljónir? Ég veit að það er ástæðan fyrir því að þú ert að lesa þig í gegnum þetta. Jú, það er einfalt. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ekki væri sniðugt að fara í MBA nám. Hefur samt alltaf fundist að það væri dýrt. Kostaði mig tíma. Sem ég á ekkert of mikið af. Svo þegar ég fann þessa tilvísun í The Personal MBA þá sá ég í hendi mér hvernig ég fer að því að spara 2,5 milljónir.

Svo er ég líka búinn að komast að því hvað býður mín ef ég endurfæðist.

Ummæli

Blinda sagði…
Ísland farsældar frón og hagsældar hrímhvíta móðir. Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?

Jú, fögur er hlíðin - en ég verð líka að viðurkenna að þessi morgunn var einstaklega fagur. Gott að vera einn á vappi um fimm leytið og eiga það alein um stund.
:-)

Ég verð ljón - einungis 18% ná lengra en ég - hehe

Ég hef ekki skoðun á hinu. Athyglisbresturinn skall á.

Vinsælar færslur