Undarleg innrás

Eitt af því sem hefur gert þessar sögur skemmtilegri í mínum huga er sú staðreynd að þær reyna ofurlítið á okkur. Setja okkur í samhengi sem er nýtt að einhverju leiti. Þó grunn sagan sé kannski ekki svo óskaplega ný. Þá erum kringumstæðurnar á einhvern hátt nýjar. Oftar en ekki þá snýst þetta um viðhorf okkar til raunveruleikans. Hvort að eitthvað sem við teljum okkur sjá og upplifa, sé raunverulegt. Þetta er alveg klassískt vísindaskáldsögu viðfangsefni. Sjáum þetta bæði í eldri sögum eins Martian Chronicles og nýjum sjónvarpsþáttum á borð við Lost. Þessi saga fæst við þetta viðfangsefni. Raunar eru yfirleit tvær nálganir á þessu. Annars vegar sú að söguhetjunum er byrlað eitur. Þeir verða fyrir einhverjum þeim áhrifum sem breyta sýn þeirra á raunveruleikann. Stundum án þess að þeir viti af því að um er að ræða einhverja eitrun. Það kemur síðan í ljós og verkefnið er þá að finna móteitur eða draga úr áhrifunum. Hin er sú að um er að ræða yfirtöku á hugum okkar. Við sjáum eitthvað sem við tengjum við annan raunveruleika. Oftar en ekki tengist þetta endurfundum við einhverja sem ekki eru á lífi. Maka eða foreldra með öllum þeim tilfinningum sem því tengjast. Þetta eru því oft sterkar sögur.

Annað viðfangsefni hennar sem á sér langa sögu er þessi ótti við innrás. Þetta hefur líklega verið fylgifiskur kaldastríðsins. Eða kannski bara hreinlega tveggja heimstyrjalda. En eitt af blómaskeiðum vísindaskáldsögunnar var sannarlega á þeim tíma þegar þegar óttinn við kjarnorkusprengjuna var hvað mestur. Raunar hefur því löngum verið haldið fram að sumar af sterkustu ímyndum vísindaskáldsögunnar séu hreinar vísanir í Sovétríkin og kommúnismann. Nægir þar að nefna hina ægilegu Borg sem herjuðu á félaga okkar í Star Trek. En ævinlega er það óttinn við hið óþekkta. Það sem er öðruvísi. Alveg dagsljóst í mínum huga að vísindaskáldskapur með þessu umfjöllunarefni mun aftur verða áberandi, núna þegar við upplifum þennan ótta við hið óþekkta. Raunar er það vel þess virði að finna þessar sögur. Svona til þess að átta sig á því hvernig farið getur þegar ólík sjónarmið eigast við.

Í Strange Invasioneftir Michael Kandel er þessu tvennu síðan blandað saman. Hefur líka skírskotun í minn raunveruleika sem gerir hana ennþá skemmtilegri. Ætla ekki að nefna hver hún er, enda þá búinn að segja of mikið frá. Aðal söguhetjan er geðsjúklingur. Sem er því alls ekki óvanur því að ískápurinn sinn tali við sig. En þegar í ljós kemur að það eru í alvöru einhverjar óþekktar verur að tala við hann. Þá eiginlega vandast málið. Hvernig getur sá sem er viðurkenndur vitleysingur látið taka sig alvarlega. Raunar reynist geðsýkin ákveðin vörn gegn innrásarliðinu. Þetta er raunar ekki það eina sem gerir innrásina skrítna. Það er nefnilega það skemmtilegasta við söguna. Sem hefur gert hana svona eftirminnilega fyrir mig. Þetta er annars ekki löng saga. Hún var gefin út 1989 og þá sem hluti af ritröð sem ég datt niðurá. Það eru nokkrar frábærar sögur í þessum flokki. Ástæðan fyrir því að ég valdi þessa er sú að þetta er flott saga. Ég er nefnilega ekkert endilega hrifinn af óskaplega löngum sögum. Finnst raunar oft að smásöguformið sé skemmtilegra en skáldsagan. Sérstaklega þegar höfundar taka upp á því að teygja sögurnar í Bandarísku stærðirnar. Þar sem þær virðast stundum mældar á vigt, fremur en gæðum. Því miður hefur hún ekki verið endurútgefin síðan 1989. Þykir kannski einmitt of þunn. En þá er bara að leita á eBay.

Ummæli

Vinsælar færslur