Árið 2006 varð ár nýrra kynna

Það tilheyrir áramótum að rifja upp. Staldra við og horfa til baka. Ég gerði það í fyrra og ætla að koma mér upp þessum sið. Þetta ár var fyrir margra hluta sakir athyglisvert. En það fer samt ekkert á milli mála hvað var hápunktur ársins. Það var gangan um Hornstrandir. Sem að öllum öðrum gönguferðum mínum ólöstuðum, var mesta ævintýri sem ég hef komist í hingað til. Þess ferð sem ég varla lagði í reyndist svo mikið ævintýri. Hornvík, Hlöðuvík, Hesteyri og Aðalvík. Veður sem var allt frá hríð til glampandi sólar. Þetta er það sem býr til ógleymanlegar stundir. Það að rölta þetta með vinkonu minni sem var í sinni fyrstu göngu. Býr í útlöndum en stóð sig eins og hetja. Það sýndi mér hversu langt í land ég á með að komast nálægt henni í krafti og úthaldi. Með tveimur öðrum gönguhetjum þá vorum við ósigrandi hópur. Annars var þetta viðburðarríkt ár. Þó á margan hátt öðruvísi en ég hafði gert ráð fyrir í upphafi þess.

Ég safnaði til dæmis fleiri starfsheitum en nokkru sinni fyrr á þessum tíma. Tók þátt í nýju fyrirtæki, sem síðan reyndist ekki verða langlíft. Öðlaðist þar innsýn inn í heim fjármála og fjárfestinga sem ég hafði ekki áður kynnst jafn vel. Í kjölfarið söðlaði ég aðeins um. Fór inn á nýjan starfsvettvang, sem þó tengist því sem ég hef bæði lært og þekki úr fyrri störfum. Finnst raunar að ég hefði náð dýpri og betri tökum á því sem ég starfa við. Sótti til dæmis bestu ráðstefnu sem ég hef setið hér á landi. Uppgötvaði þá hversu djúpa þekkingu ég hef og hversu marga ég þekki sem starfa við svipuð störf. Hef stýrt Vildarbörnum sem ég vonast til að eigi eftir að vaxa og dafna sem sjóður til styrktar börnum sem eiga við erfiðleika að etja. Gera þeim kleyft að eiga ánægjuleg ævintýri. Sem er ekki eina góða málefnið sem ég hef komið nálægt á árinu. Ég kynntist til dæmis Kiva.org og svo í haust hóf ég þjálfun í björgunarsveitunum. Þar hef ég ýmislegt lært sem á eftir að koma sér vel á komandi gönguferðum. Kannski ég eigi eftir að taka beinan þátt í starfi sveitanna. En það kemur í ljós.

Raunar varð útivistin að nokkru leiti vonbrigði ársins. Því þrátt fyrir að ein slík ferð væri hápunktur ársins. Þá urðu gönguferðirnar ekki eins margar eins og ég hafði vonast til. En ég gekk nú samt lengra og meira en nokkru sinni fyrr. Ég kleyf Botnsúlur með nýjum og gömlum göngufélögum, fór upp á Móskarðshnúka, fór í vorgöngur með gönguhópnum góða og afar eftirminnilega miðnæturgöngu upp á Bláfell við Kjöl. Fór auk þess í dagsferð í nágrenni Ísafjarðar þegar gerði gott veður í sumar. Staðfesti þar að á Ísafirði er besta bakarí landsins. Fór svo í styttri ferðir í nágrenni Reykjavíkur og heimsótti ónefnd fjöll þegar ég átti sumarbústaðahelgi í félagi fráskyldra. Sumra þá mjög nýfráskyldra. En samt finnst mér eins og þetta hafi ekki verið jafn mikið útivistarár og ég hafði vonast til. Kannski það verði eitt af áramótaheitunum. Að komast ennþá lengra og meira á nýju ári. Hornstrandir eru á dagskrá. Jafnvel gönguferðir utan Íslands. En það er á nýju ári og núna ætla ég að halda mér við þetta sem er að renna á enda.

Á þessu ári missti ég kæra vinkonu úr landi. Flutti alla leið til Brasilíu. En á móti kom að ég kynntist líka nýju og áhugaverðu fólki. Sérstaklega ritglöðu fólki sem heldur úti blogsíðum líkt og ég sjálfur. Sem ég átti ánægjulegar stundir með, bæði hér á netinu og eins í góðum matarboðum og skemmtilegum gönguferðum. Þau kynni halda vonandi áfram á nýja árinu. Þakka ykkur öllum kæru lesendur fyrir samfylgdina á árinu. Þið eruð ekki bara persónur ársins hjá Time, heldur mér líka. Ég endurnýjaði líka kynni mín við sumt af samferðafólki mínu. Sá nýjar hliðar á öðrum. Átti afar skemmtilegar stundir með samferðafólki mínu. Einn af hápunktum ársins var að vera viðstaddur giftingu vinafólks míns og samstarfsfélaga. En ég átti sannarlega frábærar stundir með vinum mínum. Eins og til dæmis frábæra helgi í fádæma hita í lok sumars í sumarbústað skammt frá Laugarvatni. Kynnti mér ævi konu sem náði aldrei að eldast. Kynntist líka öðrum. Margskonar fólki sem hefur náð misjafnlega langt. Fann mér meira að segja aðferð til þess að endurnýja og halda kynnum við fólk sem ég hef kynnst í gegnum tíðina. En hefur flutt og þráðurinn tapast. Eins og gengur. En social networking (sár vantar góða íslenska þýðingu á þessu) var sannarlega ein af mínum uppgötvunum á árinu. Náði því loksins. Þar sem ég uppgötvaði að þar er vettvangur skapandi fólks. Sá líka meira af afrekum fólks sem vinnur við skapandi störf. Það gaf mér meira en ég átti von á. Ætla mér að gera meira af því á næsta ári. Því listir voru kannski það sem ég uppgötvaði mest af á árinu.

Eins og venjulega þá heyrði ég ókjör af góðri tónlist. Raunar var ein af uppgötvunum mínum á árinu sú staðreynd að þessi vettvangur. Netið. Er líklega orðin að mestu uppsprettu af tónlist sem nokkru sinni hefur verið til. Í gegnum það hef ég heyrt afrakstur tónlistarfólks um allan heim. Sem ég sá meira af á þessu ári. Átti eftir að heyra tónlist sem snerti mig. Heyrði hana líka flutta lifandi og á skemmtistöðum með frábærum plötusnúðum. Bæði íslenskum og erlendum. Meira að segja af Desyn Masiello sem stóð undir væntingum og gott betur. Kannski er samt eitt af eftirminnilegustu tónlistaratriðunum söngur konu í óvæntu afmæli í litlum klúbbi í London. Ég heimsótti líka frábær listasöfn og stórborgir. Af öðrum sýningarstöðum ólöstuðum var heimsóknin í Tate Modern í London sú eftirminnilegasta. Bæði fyrir sýninguna sem ég sá og líka hreinlega safnið sjálft. Ég las líka nokkrar bækur. Reyndar hlustaði ég mjög mikið á talmál á árinu. Því ég uppgötvaði podcasting (hér vantar líka gott íslenskt orð) fyrir alvöru. Podcasting hefur ekkert með iPod að gera. Heldur er þetta hljóð og myndefni dreift á Netinu í áskrift. En ætli ég sé nokkuð orðinn of djúpur hérna? Wikipedia getur svarað því hvað þessir hlutir eru. En skemmtilegasta lesning ársins var sú sem ég uppgötvaði í gegnum BBC 7. Bill Bryson ferðasögurnar. The Life and Times of the Thunderbolt Kid var eina af jólagjöfunum mínum í ár. Ég las einmitt Bill á ferðalögum mínum á árinu. Svo augljóslega voru ferðalög hluti af árinu, líkt og á fyrri árum.

Flaug lengra en ég hef nokkru sinni gert. Í eftirminnilega sólarhringsheimsókn til Tokyo. Heimsótti London í frábæra heimsókn til kærar vinkonu sem ég veit að á eftir að vinna stóra sigra. Fór til suður Evrópu þar sem ég spilaði á alvöru spilavíti. Tapaði engu og átti eftir að enda kvöldið á miklu skemmtilegra spili við starfsfélaga frá Ástralíu. En staðurinn var jafn ljúfur og maturinn jafn ljúffengur og alltaf. Snemma á árinu fór ég til Berlínar þar sem ég átti kaldar stundir í góðum hópi og mun ekki klikka aftur á því að stimpla farmiðana í neðanjarðarlestirnar. Fór nú síðla árs til New York í feðgaferð. Eitthvað sem ég hef ekki áður gert. En mér fannst það skemmtileg ferð og gott að hafa farið í hana. Í henni smakkaði ég til dæmis besta eftirrétt sem ég man eftir. Langaði að fara í svo miklu fleiri ferðir. En það eru ákveðnir hlutir sem mig vantar. Svo þrátt fyrir að hafa haldið upp á stórafmæli. Get aldrei framar haldið því fram að ég sé of ungur. Þá vantar mig enn margt. Ætli það breytist nokkurn tíma. Vonandi ekki.

Ummæli

Blinda sagði…
Gleðilegt ár og takk fyrir hið liðna.
Valtyr sagði…
Gleðilegt ár félagi.
Nafnlaus sagði…
meinarðu ekki árið 2006?

gleðilegt ár og takk fyrir gamla:)

Vinsælar færslur