Til hamingju með daginn pabbi!

Dagurinn í dag er alveg stórmerkilegur dagur fyrir mig og mína fjölskyldu. Því í dag á pabbi minn nefnilega stórafmæli og vegna þess að hann er fæddur á oddatölu þá er þetta eitt af fáum árum sem við eigum sameiginlega stórafmæli. Pabbi minn er sem sagt að ná mjög virðulegum aldri í dag. Mér þykir líka afskaplega vænt um hann pabba minn og held ég hafi bara gegnum sneytt verið heppinn með foreldri þar sem hann er. Svo í tilefni dagsins þá verð ég að skrifa honum kveðju.

Pabbi minn er af þeirri kynslóð Íslendinga sem fæddist í kreppu. Ísland var lítið og einangrað land sem ennþá var hluti af danska konungsríkinu. Raunar var amma mín ættuð frá því ágæta konungsríki svo ég held að pabbi hafi fundið ákveðna alþjóðlega strauma strax í byrjun. En það getur varla hafa verið neitt sérlega bjart yfir þarna á þessum árum þegar kreppa stóð. Úti í hinum stóra heimi töldu jafnvel margir að lýðræðið hefði beðið skipbrot. Í þess stað stóðu tvær ákaflega öflugar blokkir sem aðhylltust aðrar hugmyndir. Önnur kennd við alræði öreigana og hin við þjóðernisjafnaðarstefnu. Sem raunar voru hvorugar neitt annað en kvalræði fjölda þeirra sem við þær máttu búa. En af því að þetta var í raun fyrir mesta vaxtarskeið okkar og svona eiginlega áður en við tókum stóra stökkið inn í nútímann þá kynntist pabbi minn menningu liðina tíma.

Einkum og sér í lagi hefur það brotist út í óskum eftir mat sem í mínum huga tilheyrir grárri forneskju. En það kannski sýnir einfaldlega hversu mikið hlutirnir hafa breyst á lífstíð hans pabba. Eins og ég sjálfur (og reyndar pabbi hans á undan honum) þá fór pabbi til útlanda í nám. Hann sótti sína framhaldsmenntun að loknu námi við Verzlunarskólann  til Þýskalands og kannski það skýri að hluta þann áhuga sem ég hef löngum haft á Þýskalandi. Í það minnsta hef ég löngum fundið að það eru taugar hjá foreldrunum til Þýskalands, enda kannski ekki nema að furða, því það var jú þar sem þau kynntust.

Annars er mér sagt að ég sæki ákveðna hluti til pabba. Kannski meira hvað varðar skapið en margt annað. Svo er mér sagt í það minnsta. Finnst það ekki leiðum að líkjast. Hefði gjarnan viljað hafa þessar línur fleiri, en nú er komið að því að skála með pabba fyrir öllum árunum. Innilega til hamingju með stórafmælið pabbi!

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Til hamingju með pabba þinn Simmi:o)
Blinda sagði…
Til lukku með pabbaling og húrra pabbi Simma að hafa náð þessum áfanga!! :-)

Vinsælar færslur