Skemmtilegustu myndirnar mínar

Það er ein tegund kvikmynda sem eldist víst verr en flestar aðrar. Þetta eru myndirnar sem fá okkur til þess að brosa. Koma okkur til þess að hlægja upphátt í bíó. Mér skilst sem sagt að húmor sé eitthvað sem eldist frekar illa. Gamanmyndir eldast því verr en margar aðrar gerðir kvikmynda. Svo mér er nokkur vandi á höndum. Því ég hef séð margar skemmtilegar myndir. En ég er ekki viss um að ég geti með góðri samvisku mælt með því að horfa á þær í dag. Svo ólíkt þeim myndum sem ég hef nefnt hingað til, þá eru þetta ekki endilega myndir sem ég ætla að mæla með að þú sjáir. En þær munu kannski segja þér eitthvað smávegis um hvað mér hefur á einhverjum tíma fundist fyndið. Raunar eru myndir af þessu tagi margar hverjar alveg svakalega vondar myndir. Ég man ennþá eftir mynd sem ég tók á myndbandaleigu fyrir einhverjum árum og var svo vond að ég gafst upp eftir rúmlega hálftíma áhorf. Þess vegna forðast ég orðið að taka gamanmyndir nema ég sé alveg viss um að þær séu raunverulega skemmtilegar.

Það hefur varla heldur farið á milli mála að nú er ætlunin að fjalla um tvær kvikmyndir. Sú fyrri átti uppruna sinn að rekja til Saturday Night Live sjónvarpsþáttana sem hafa skilað okkur gríðarlegum fjölda af góðum gamanleikurum. Þessir sjónvarpsþættir hafa því svo sannarlega verið uppeldisstöð fjölmargra frábæra leikara, þrátt fyrir að þættirnir sjálfir séu misjafnir að gæðum. En þessi mynd er af mörgum talin sú besta sem þessir þættir hafa gefið af sér. Þetta er The Blues Brothers sem leikstýrt var af John Landis. Í aðalhlutverkum voru tveir frábærir leikarar, Dan Akroyd og John Belushi. Kvikmyndin var raunar framhald af atriðum sem höfðu birst í Saturday Night Live þar sem hljómsveit með þessu nafni og þessum tveimur leikurum hafði komið fram. Ég ætla ekkert að rekja söguþráðin nákvæmlega enda skiptir hann ekki öllu máli. Raunar fannst mér þetta ákaflega skemmtileg mynd og full af góðum húmor. En það var þó ekki það sem gerir það að verkum að hún lendir hér í umfjöllun. Því auk góðs húmor var nefnilega ferlega skemmtileg tónlist í þessari mynd. Tónlist sem ég átti eftir að kafa ofan í og raunar koma fram í myndinni fjölmargir frábærir tónlistarmenn. Það er einmitt þess vegna sem The Blues Brothers lenda hér í þessari umfjöllun. Því fáar kvikmyndir hafa haft meiri áhrif á þá tónlist sem ég hlusta á eins og The Blues Brothers. Hún opnaði mér innsýn inn í heim svartrar tónlistar sem ég hefði líklega ekki annars kafað ofan í. Svo þó ekki sé fyrir annað get ég mælt með The Blues Brothers við alla þá sem hafa gaman af góðri tónlist.

Síðari myndin er líklega sú mynd sem ég hef horft á oftar en nokkra aðra gamanmynd. Ástæðan er sú að svo full er þessi mynd af bröndurum að varla má blikka auga án þess að eitthvað hafi  birst á skjánum sem hægt væri að brosa að. Þetta var mynd þríeykisins ZAZ, David Zucker, Jim Abrahams og Jerry Zucker, Top Secret. Þessir þrír félagar bera reyndar ábyrgð á ógrynni mynda og sjónvarpsþátta sem öll bera ákveðin höfundareinkenni. Þótt þessi listi sé ekki tæmandi þá gefur hann ákveðna mynd af afrekum þeirra félaga og því nefni ég  The Kentucky Fried Movie, Airplane! og sjónvarpsþættina Police Squad! Þau ykkar sem hafa séð þessar myndir og seinni verk þeirra félaga vita að þau byggjast upp á stríðum straumi brandara þar sem oftar en ekki eru fleiri en einn í gangi í einu. Þetta er því mynd þar sem ég hef uppgötvað eitthvað nýtt í hvert skipti sem ég hef séð hana. Jafnframt inniheldur hún líklega þá þýsku setningu sem flestir Íslendingar virðast kunna, nefnilega “Die Sauerkraut ist in mein Lederhosen.”. Val Kilmer er þarna í aðalhlutverki rokksöngvarans Nick Rivers sem er á leið í tónleikaferð til Austur Þýskalands. Hann á eftir að lenda í miklum ævintýrum enda ýmislegt sem á eftir að koma á óvart. Eins og til dæmis sú staðreynd að franska andspyrnuhreyfingin virðist vera að störfum í Austur Þýskalandi. En það er ekki aðalatriðið. Heldur að þetta er sú mynd sem ég hef hlegið oftar að en nokkurri annarri.

Ummæli

Vinsælar færslur