Sumarsólstöður kalla á sumarmynd

Með glampandi sól og varla ský á himni. Þá finnst mér eiginlega dálítið fyndið að vera að skrifa um kvikmyndir. En raunar er sumarið tími stórmyndana. Þessara sem hafa fengið meira í framleiðslu en góðu hófu gegnir. En stundum leynast inn á milli í sumarmyndaflóðinu myndir sem leyna á sér. Meira að segja stórmyndir sem verða manni kærar. Það var akkúrat það sem gerðist sumarið sem ég sá Raiders of the Lost Ark.

Þessi mynd sem kom út 1981 var samvinnuverkefni George Lucas sem framleiddi og Steven Spielberg sem leikstýrði. Raunar var Steven Spielberg í töluverðum vandræðum á þessum tíma. Sem kann að hljóma undarlega í ljósi stöðu hans í dag. En í kjölfarið á 2 gríðarlega vinsælum kvikmyndum, Jaws og Close Encounters of the Third Kind, þá hafði Spielberg gert afar dýr mistök. Myndin 1941 höfðaði hvorki til áhorfenda né gagnrýnenda og floppaði. Svo Spielberg vantaði gott verkefni til þess að koma sér aftur á kortið. Hann og George Lucas höfðu því komið sér saman um að gera ævintýramynd með Tom Selleck í aðalhlutverki, en þar sem hann var upptekinn, þá fengu þeir Harrison Ford í aðalhlutverkið.

Nú gætu einhverjir haldið að þetta hafi verið rándýr mynd. Sannkölluð stórmynd. En svo var hreint ekki. Þetta var raunar frekar einföld mynd. Gerð á 75 dögum og kostaði ekki nema 20 milljón dollara í framleiðslu. En að sjá þessa mynd í fyrsta skipti var upplifun. Það er vert að rifja það upp að áttundi áratugurinn var tími félagslegs raunsæis í kvikmyndum. Þessi kvikmynd sem virkaði frekar eins og teiknimyndasaga var því eins og ferskur andblær. Við máttum aftur gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og halda á vit ævintýranna í myrkvuðum bíóhúsunum.

Sem raunar er orðin að ákveðinni klisju í dag. Svo margar kvikmyndir hafa verið gerðar síðan byggðar á svipuðum hugmyndum. Ævintýrin hafa orðið stærri og meiri.  Brellurnar dýrari og mikilfenglegri. En eins og einhver snillingur sagði einhvern tíma við mig. Orginal er alltaf best.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
mér fannst þessi mynd frábær og eftirminnileg, enda alltaf verið höll undir ævintýri:)

Vinsælar færslur