Mig dreymir um gönguferðir

Í dag er mig farið að hlakka meira og meira til þess að heimsækja Vestfirðina. Sá lítið brot í seinni sjónvarpsfréttum þar sem kvikmyndatökumaður hafði farið á Hornstrandir og yrðlingarnir voru svo gæfir að við lá að þeir kæmu og sleiktu kvikmyndatökuvélina. Listinn yfir göngufélagana hefur þó eitthvað styðst. Nú lítur út fyrir að við verðum 5 félagar sem eigum eftir að fara í þetta ævintýri. Hitastigið hefur líka hækkað með hverjum deginum. Kvíði minn fyrir því að ég ætti eftir að lenda í snjókomu hefur því minnkað töluvert. En þetta ævintýri krefst töluverðs undirbúnings. Held ég hafi þó náð að koma mér upp öllum þeim búnaði sem til þarf. Nú er bara að láta sig hlakka til.

En snúum okkur þá að kvikmynd dagsins. Það eru eiginlega tengsl á milli hennar og tilhlökkunar minnar, þó ekki sé það nema nafnið. Því í þetta skipti langar mig til þess að nefna til sögunnar myndina North By Northwest í leikstjórn Alfred Hitchcock. Reyndar er svolítið gaman að segja frá því að í síðustu heimsókn minni til Parísar þá var ég svo heppinn að það var í gangi sýning um líf og starf Hitchcock í Pompidou safninu. Virkilega áhugverð sýning sem veitti skemmtilega innsýn inn í verk Hitchcock. Ég hafði til dæmis ekki gert mér grein fyrir því að hann var afskaplega hrifinn af ljóshærðum leikkonum. Enda aðalleikkona North By Nortwest hin ljóshærða Eva Marie Saint. Þetta átti Íslandsvinurinn Quentin Tarantino eftir að taka upp eftir Hitchcock.

North By Northwest kom út árið 1959 og er sannarlega barn síns tíma. Þetta er þó kvikmynd sem að mínu viti hefur elst ákaflega vel. Handrit Ernest Lehman er fanta gott og sagan raunar talin hafa verið tilraun Ernest til þess að gera bestu Hitchcock mynd allra tíma. Ekki fráleit að álíta að sagan sé sú besta af sögum um sakleysingja sem lendir á flótta, en önnur dæmi um slíkar sögur eru 39 Steps og Saboteur. Því þótt Hitchcock sé gjarnan settur í flokk með hryllingsmyndaleikstjórum vegna Psycho og The Birds, þá var hann í raun spennumyndaleikstjóri og frábær sem slíkur. North By Northwest er hins vegar að mínu mati eitt besta dæmið um að kvikmyndir geti haldið gildi sínu þrátt fyrir að langur tími sé liðin frá gerð þeirra. Sagan sem þarna er á ferðinni er einfaldlega það góð að ég datt inn í hana og gleymdi því alveg að áratugir eru liðnir frá þeim tíma sem hún gerist á.

Þarna má líka sjá nokkur atrið sem fyrir löngu síðan eru orðin að klassík í kvikmyndaheiminum. Ég ætla samt ekki að gera upp á milli, en flugvél og akur koma við sögu í einu af betri atriðum sem ég hef nokkurn tíma séð í kvikmynd. Ef þig vantar góða klassík, þá láttu ekki þessa mynd framhjá þér fara.

Ummæli

Vinsælar færslur