Vorferð fjórði hluti

Svo undarlega sem það kann að hljóma þá datt ég út af Netinu á föstudaginn. Þá yfirgaf ég suður Evrópu og hélt norður. Til einar af mínum uppáhalds heimsborgum. Sem mér líður alltaf dálítið eins og ég sé að koma heim til í hvert skipti sem ég stoppa þar við. Þar býr líka sumt af mínum bestu vinum. Svona frábært fólk sem fær mig til að finnast ég hafa gert eitthvað rétt um mína daga að vera svo heppinn að þekkja það. Því í hvert skipti sem ég heimsæki það, þá fæ ég alltaf svo frábærar móttökur.

En áður en ég datt út af Netinu þá hafði vinnuferðin endað með miklum fögnuði. Ég get verið virkilega stoltur af þeim árangri sem fyrirtækið sem ég vinn hjá hefur náð. Það var staðfest þarna. Svo er líka óskaplega gefandi að hitta aðra sem vinna í svipuðum verkefnum og maður sjálfur. Komast að því að flestir eru að berjast í ósköp svipuðum vandamálum. Finna hversu mikil virðing er borin fyrir okkur frá þessu íslenska fyrirtæki. Líka hversu skemmtileg við þykkjum. Ég veit ekki hvort það er algilt. Ég veit það hins vegar að það hefur oft og iðulega verið á það minnst af þeim sem ég hef kynnst í ferðum mínum í útlöndum hversu skemmtilegt það sé að gera sér dagamun með Íslendingum.

Þarna var okkur haldið afskaplega fínt hóf á einum af betri hótelum bæjarins. Rosa flott veisla (engar dúfur) og það verður að segjast alveg eins og er að ég hefði ekkert haft á móti því að vera moldríkur og eyða fríinu mínu þarna. Fyndnast fannst mér þó að heimsækja lítið spilavíti sem var í kjallaranum á hótelinu. Ekki af því að það væri svo lítið (sem það var) eða af því að öryggisverður voru fleiri en gestirnir (þeir voru mun fjölmennari) heldur af því að það var ekkert hlaupið að komast þarna inn. Ég þurfti sem sagt að sýna bæði skilríki og svo var tekinn af mér mynd. Þetta var svona næstum eins og landamæravarsla. Í kjölfarið endaði ég svo í mikilli gleði m.a. með Áströlunum, sem líkt og við finnst ferlega gaman að skemmta sér. Kæmi ekki endilega á óvart þó ég fari að gera mér ferð þangað. Það er held ég alveg þess virði að leggja á sig 25 tíma ferðalag ef allir Ástralir eru svona skemmtilegir.

En svo lá leiðin aðeins norðar. Þar sem ég gisti á þessu fína hóteli. Ætla að leyfa mér að mæla með gistingu á Somerset Bayswater Hotel. Reyndar var einhver ferlega fúll maður að kvarta þegar ég var að innrita mig. Svo ég var ekki viss um að ég hefði valið vel. En það var öðru nær. Reyndar má vara fólk sem á erfitt með að sofa saman í rúmum sem eru minni en King stærð við því að fá sér herbergi þarna. Eða svo heyrðist mér á manninum. En mér fannst þetta fínt. Hótelið er á flottum stað í Notting Hill, rétt við neðanjarðarlestarstöð og ekki nema eitt stopp á Paddington (sem er mikilvægt að vita fyrir þá sem nota Heathrow Express). Þetta er sem sagt íbúðarhótel, vel staðsett, ég fékk besta útsýni sem ég hef fengið lengi og mér leið eins og kóngi þarna.

Ekki spillti fyrir að núna um helgina ákvað sumarið að koma til London. Eftir notalegan kvöldverð á frábærum Thai stað stutt frá Covent Garden með vinkonu minni í London (kíkið í nýjustu Vikuna – hún er þar víst í opnu) var haldið heim á leið og hvílst, enda langur dagur framundan á laugardeginum. Ég hef lítið gert af því að segja frá veðri, en laugardagurinn var einhver sá flottasti sem ég hef séð í London. Glampandi sól, heiðskírt og 24 stiga hiti. Við hittumst síðan í Chinatown þar sem ég prófaði Dim Sum í fyrsta skipti og hafði þar mér til halds og traust tilvonandi göngufélaga sem er ættuð frá Hong Kong og því ekki í vandræðum með að velja af matseðlinum. Eftir það röltum við okkur niður að Thames, þar sem við tókum siglingu frá Westminster til Tate Modern. Þar var í gangi sýningin Albers and Moholy-Nagy: From the Bauhaus to the New World. Æðislegt að sjá svona flottar sýningar. Hreint ekki á hverjum degi sem það gerist. London er svo flott hvað þetta varðar og raunar hefði ég alveg verið til í að skoða nokkrar aðrar sýningar sem voru þarna í gangi, en því miður vannst ekki tími til þess. En í staðinn þá fékk ég ráðgjöf í innkaupum. Ég er nefnilega þannig gerður að suma hluti á ég erfitt með að velja mér sjálfur. Mér einfaldlega fallast hendur. Svo mér þykir ákaflega notalegt að hafa einhvern með mér. Svo mér tókst svo sannarlega að nota greiðslukortið í ferðinni.

Í kjölfarið á innkaupaferðinni var komið við til að ná í nokkra pakka sem ég hafði lofað að koma til landsins. Mjög mikilvægar gjafir. Hafði líka nýtt mér tækifærið til þess að láta Amazon senda mér nokkrar skemmtilegar bækur. Lestarefni fyrir sumarið. Eftir kvöldmat og stutt stopp til að hressa okkur við á hótelinu, þá var haldið Burlesque afmælisboð. Eitthvað sem ég hef heldur aldrei áður prófað. Þetta var svona 30’s/40’s þema. Margir klæddir í stílnum og skemmtiatriðin voru eins og þau hefðu verið klippt út úr partí frá þessum tíma. Þarna gekk sem sagt inn í salinn söngkona sem leit út eins og hún hefði verið send þangað í tímavél. Veit um að minnsta kosti eina vinkonu mína sem hefði heldur betur viljað vera á staðnum. Því þessi kona sem þarna kom fram hefði sómt sér vel sem femme fatele í kvikmynd frá þessum tíma. Þetta var flott veislu og ég sofnaði sáttur. Dagurinn í dag fór síðan í ferðalög. En þetta var bara virkilega skemmtileg vorferð.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
hljómar vel-hitta gott fólk,sól og gott veður,góður matur -gerist varla betra
Simmi sagði…
Nei, Erna þú ert sko ekkert að ljúga því. Ég eiginlega trúi því varla ennþá hvað þetta var vel heppnuð ferð:-)
Blinda sagði…
Ég er alveg búin að sjá hvað ég þarf að gera - ég þarf að myrða þig og stela djobbinu þínu.

Ertu ekki bara á netinu allan daginn hvort eð er ?? :D

Vinsælar færslur