Þjóðhátíðardagurinn

Þetta var fyrir margra hluta sakir svolítið skrítinn þjóðhátíðardagur. Alveg gjörólíkur þessum í fyrra, þegar það var glampandi sól og ég gekk Leggjabrjót. Í þetta skipti var ég ekki í neinu göngustuði. Því í þessum júní hefur varla sést til sólar. Svo ég hafði sett allar hugmyndir um göngu á hilluna. En það hefði svo sem ekki skipt öllu máli. Því mig dreymdi undarlega og vaknaði hálf slappur. Var bara hreint ekkert eins og ég að mér að vera. Sem hefur bara verið með besta móti undanfarið.

Því hafi maí verið svolítið erfiður. Þá hefur mér fundist eins og ég næði ákveðnu jafnvægi í júní. Kannski eins og ég þyrfti þetta ár til þess að gera upp fortíðina. Sem hefur verið misjafnlega skemmtilegt á köflum, en þessa dagana finnst mér eins og fortíðin sé fortíðin og ekkert annað á dagskrá en að horfa til framtíðar. Hafi komist þennan hring sem ég þurfti að fara. Eða í það minnsta þannig líður mér. Sem mér finnst afskaplega gott. En Þjóðhátíðardagurinn var svolítið skrítinn.

Ég veit ekki hvort þetta er sálrænt eða líkamlegt. En ég var ekki í miklu stuði. Hafði samt alveg ástæðu til. Mér var boðið í grillveislu til góðvinar sem var að koma heim úr sumarfríi. En dagurinn varð allur eitthvað undarlegur. Eins og allur vindur væri úr mér. Vona nú samt að það sé ekki fyrirboði einhvers. En ég lét mig nú samt hafa það að fara í grillveisluna. Varð ekki fyrir neinum vonbrigðum þar. Dauð öfundaði vinafólk mitt af fríinu. Þau höfðu greinilega fundið sér góðan stað og höfðu haft það virkilega gott. Slóvenía er greinilega land sem ég þarf að heimsækja og er farið á listann langa yfir áhugaverða ferðamöguleika. Góður matur, gott vín, góður félagsskapur. Þetta var allt eins og best verður á kosið. Nema hvað ég var ekki alveg í mínu besta stuði. Vona bara að þetta hafi verið veðrið.

Ummæli

Vinsælar færslur