Sæla í sveitinni

Eins og til stóð þá fór ég í sveitina. Því þótt upprunalega ástæðan fyrir ferðinni í sveitina hefði flutt sig á Nasa, þá langaði mig bara svo miklu meira í sveitina. Svo ég lét það ekki hafa nein áhrif á áætlun mín. Reyndar gerði ég ákveðin mistök á föstudagskvöldið. Það er nefnilega ekkert sérlega góð hugmynd að hella upp á kaffi upp úr miðnætti. Ég er heldur ekki vanur því að hella upp á neitt annað en alvöru kaffi. Stundum kallað hásetakaffi af félögunum. Það sem sagt sér til þess að halda manni velvakandi. Sem var fínt svona til að byrja með, en heldur verra þegar ég áttaði mig á því að rúmlega 4 tímar höfðu liðið og kaffikannan var orðin tóm. Svo svefninn varð hvorki vær né langur.

Ég hafði þó stillt vekjaraklukkuna mína þannig að hún kom mér á fætur löngu fyrir hádegið. Verð líka að viðurkenna að mér leist ekkert alltof vel á fyrirætlun mína þegar ég leit út um gluggann. Það var dungumslegt að sjá. Virtist vera leiðinda veður. Svo ég leitaði frétta af veðrinu í sveitinni. Var sagt að þar væri ekkert að veðri svo ég ræsti út ferðafélagann.

Eftir að hafa yfirgefið höfuðborgarsvæðið rúmlega klukkustund eftir hádegið var stefnan tekin á Selfoss. Það reyndist vera svartaþoka á Hellisheiðinni. Sem þýðir að fólk sem ekki er þeim mun sterkara í akstrinum telur að hæfilegur hámarkshraði sé rétt um 45 km. Ég þakkaði fyrir að það eru 2 akreinar á hluta af leiðinni og notaði tækifærið til þess að komast framúr þessum rólegheita akstri. Sem minnir mig meira á akstur á Bústaðaveginum, en þjóðvegi nr. 1. Þokunni létti þegar við vorum komin að Kömbunum. Fundum á Selfossi hversu notalegt veðrið var. Hitamælirinn í bílnum sagði mér að það væri kominn 14 stiga hiti. Eftir að hafa klárað matarinnkaupinn var haldið upp í Þjórsárdal.



Hitastigið hélt áfram að hækka og þegar við höfðum náð áfangastað var kominn 17 stiga hiti. Áfangastaðurinn heldur ekki af verri endanum. Þarna vorum við með gistingu á einum fallegasta stað landsins. Búrfell og Hekla blöstu við og næsta nágrenni skógi vaxið. Gististaðurinn var sumarhús sem leigt er út af einkaaðilum (bændagisting) og  eftir að hafa komið farangrinum fyrir var haldið upp á fjöll í nágrenninu. Við vorum ekki alveg nógu vel búinn fyrir rigningardembuna sem heltist yfir okkur, svo gangan varð styttri en upprunalega stóð til. En þetta varð eiginlega eina rigningin sem við fundum fyrir þann daginn.

Eftir göngulok var tekið til við að gera grillið klárt fyrir matreiðsluna. Heiti potturinn skrúbbaður til þess að undirbúa kvöldið. Mér tókst að koma kolunum í gang. Eftir hefðbundna bið hófst matreiðslan og ég get vitnað um það að matreiðslubækurnar hafa skilað einhverjum. Góður matur, gott rauðvín, góður félagsskapur og frábært veður. Þetta þýddi auðvitað að við nýttum okkur að það dimmir ekki orðið á næturnar og fórum í göngum um svæðið. Sannkallað ævintýraland þar sem skógrækt hefur gert það að verkum að manni líður eins og maður hafi yfirgefið landið. Heiti potturinn var fylltur eftir rúmlega klukkutíma gönguferð. Þar var setið langt fram yfir miðnætti og ég fór soðinn í draumalandið.

Rigningin var mætt í dag. Buldi á þakinu þegar ég vaknaði. Rauðvínið frá kvöldinu áður sat aðeins í manni. En það var ánægjulegt að vakna í sveitinni. Það er eitthvað við það að vera í sveitinni sem höfðar til mín. Held á stundum að ég gæti flutt í sveitina. Það var rigning og aftur svarta þoka á Hellisheiðinni. En mér fannst rosalega gott að eyða þessum tíma í sveitinni. Svakalega ánægður með að hafa látið slag standa og drífa mig. Vonandi kemst ég aftur á þessar slóðir í sumar.

Ummæli

Vinsælar færslur