Heimur versnandi fer

Í það minnsta ef ég ætti að trúa því sem ég er að lesa í viðskiptadálkum blaðana þessa dagana. Reyndar víðar í blöðunum. Það virðist vera mikil hætta á því að við séum að sigla inn í erfitt tímabil í efnahagslífinu. Tímabil verðbólgu, óstöðugleika og versnandi lífskjara. Ég bara nenni samt ekki að verða svona svartsýn. Það er vor. Ég er rétt að byrja finna fyrir léttleikanum sem fylgir því að alþingi er hætt störfum. Þetta er einfaldlega ekki rétti tíminn til þess að velta sér upp úr þunglyndisfréttum af þessu tagi.

Ég held að ég sé alls ekki einn um þessa afstöðu. Flestir í kringum mig eru á leið í sumarfrí. Það er ekki tímapunkturinn sem fólk velur sér til þess að velta sér upp úr þunglyndi. Þvert á móti. Eiginlega það eina sem ég hef ástæðu til þess að vera fúllyndur yfir er að mig langar til útlanda. En þá kemur einn af göllum þess að búa í einbýli í ljós. Það er nefnilega ekki jafn spennandi að þvælast einn á sólarströnd. Eða heimsækja einhverjar af stórborgunum upp á eigin spýtur. Það minnir mig of mikið á vinnuna. Þess vegna ætla ég mér til dæmis að fara í miklu lengra ferðalag upp á eigin spýtur. Kannski málið sé að stofna ferðahóp einbýlinga. Þá gætum við sameinast á ferðalögunum.

Ég þekki nefnilega fólk sem finnst afskaplega þægilegt að vera eitt í útlöndum. Nema kannski svona stundum. Getur verið ágætt að hafa einhvern til þess að borða með á kvöldin. Eða þvælast með sér í búðir. En fá að vera í friði þess á milli. Þetta finnst mér ekki vitlaust. Þá er maður með svona ígildi ferðafélaga. Annars er ég ekki í stórkostlegum vandræðum. Á orðið nokkuð stóran hóp félaga sem eru búsettir erlendis og finnst skemmtilegt að fá heimsókn frá Íslandi. Svo það er ekkert mál að skreppa í stuttar heimsóknir. En miðað við hugmyndina mína um langferðina, þá er kannski bara besta hugmyndin að taka því rólega í sumar og hlakka bara þess meira til í janúar. Svona ef allt verður ekki komið á vonarvöl.

Ummæli

Vinsælar færslur