Til hamingju brúðhjón

Þetta var yndislegur laugardagur. Ekki lýsingarorð sem ég nota oft. En ég veit ekki hvað það er við brúðkaup sem hreyfir svona við manni. En í gær var ég að samgleðjast með vinafólki mínu. Finnst það hafa verið happadagur þegar ég kynntist nýbökuðum brúðhjónum. Sem ég get reyndar þakkað minni fyrirverandi. Því þau hjónin eru svona fólk sem er gott í gegn. Sem mér finnst ég vera lánsamur að hafa kynnst. Kynntist þeim sem sagt fyrst í gegnum mína fyrrverandi sem stundaði nám með konunni sem gifti sig í gær. Þannig æxlaðist það að ég kynntist þeim báðum. Seinna átti hann eftir að starfa með mér. Þannig kynntumst við enn betur. Það hafa ekkert verið nema góð kynni. Enda held ég að þau séu ákaflega heppin hvort með annað. Þess vegna fannst mér afskaplega vænt um að vera boðið í brúðkaupið. Fá tækifæri til þess að fylgjast með athöfninni í kirkjunni.



Það lék líka við þau veðrið. Ég hafði vaknað frekar seint eftir miðnæturgönguna og við mér blasti bjartur og fagur dagur. Ég vissi svo sem ekki alveg hvort athöfnin sjálf yrði mjög hátíðleg. En ég hefði í rauninni ekki þurft að kvíða því. Því hún var full af gleði. Húmor og hamingju. Auðvitað með smá hátíðleika í bland, en allt var þetta í afskaplega góðum hlutföllum. Einhvern veginn setti þetta svolítið tóninn fyrir mig. Þau virtust nefnilega vera svo afskaplega ánægð með þennan áfanga. Skrítið hvernig maður finnur það þegar geislar svona af fólki.

Svo tók við hefðbundin bið eftir brúðhjónunum. Veislan fór fram nálægt mínu heimili svo ég kom við heima. Tók að mér að koma pakka til skila fyrir fólk sem ekki komst í veisluna. Þetta virtist vera dagur þar sem margir áttu í fleira en eitt hóf að sækja. Raunar var ég sá eini af vinnufélögunum sem komst til veislunnar. En mér var ljúft að sækja veisluna. Þó ég hafi nú ekki kannski þekkt neitt óskaplega marga. Svona fyrir utan brúðhjónin. Þetta var sannkölluð sælkeraveisla. Vel veit að sjálfsögðu og afskaplega vel til fundið að bjóða upp á sjávarréttaveislu. Enda brúðguminn menntaður í sjávarútvegsfræðum. Eitthvað villtist ég samt á sætum. Fann ekki það sem mér var merkt. Sem kom svo sem ekki að sök. Það var ekki eins og veisluréttirnir rynnu ekki jafn ljúflega niður fyrir því. Það var skálað. Oftar en ég hef tölu á. Ég greip til þess ráðs snemma í veislunni að innbyrða jafn mikið af vatni og áfengi. Það hefur reynst mér heilla ráð. Reyndist líka vel í þessari veislu. Svo það var skálað jöfnum höndum í vatni og víni.

Það var greinilegt að þessi brúðhjón eru vel stæð af góðum vinum og umhyggjusömum ættingjum. Því það urðu æði margir sem tóku til máls. Fengum líka skemmtilegt sýnishorn af steggjagleði brúðgumans. Ég tel mig orðið þekkja mun betur til brúðhjónanna eftir öll þessi ræðu höld. Það var margt sem rifjað var upp og margar óskir um gleði og lukku í hjónabandinu. Einstaka heilræði sem fengu að fljóta með. Þegar sjávarréttaveislunni lauk var að sjálfsögðu boðið upp á brúðartertu. Sem var í sama gæðaflokki og annað sem þarna var veitt. Ég veit svo sem ekki af hverju, en allt snart þetta mig. Á margvíslegan hátt. En ég er þó fyrst og fremst afskaplega glaður að hafa fengið tækifæri til þess að samgleðjast þessum ágætu nýbökuðu brúðhjónum. Þetta var gleðistund. Ég vona svo sannarlega að þau verði svo heppin að fá mörg tækifæri til þess að halda upp á hana saman. Svona gott fólk á það nefnilega svo skilið.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
mér vöknar alltaf um augu í brúðkaupum. en ekki alltaf í jarðarförum.

merkilegt. kannski af því að brúðkaup snúast um framtíð og von. jarðarfarir snúast um fortíðina.
Nafnlaus sagði…
ég fór líka í brúðkaup um helgina-ásatrúar brúðkaup sem var öðruvísi og gaman,en þar var ekki boðið uppá vín sem mér finnst frekar undarlegt í brúðkaupi-er það ekki?
Simmi sagði…
Baun - já, kannski það og mér finnst líka pínu merkilegt að konur séu þær sem gráta við brúðkaup - þekki engan karlmann sem það gerir - hvað veldur því?

Erna - það var sko engin skortur á víni í mínu brúðkaupi og hefði haldið að mjöður hefði runnið í stríðum straumum í ásatrúarbrúðkaupi - en hvað veit ég svo sem:-)
Nafnlaus sagði…
góð spurning Simmi...(sem þýðir að ég veit ekki svarið)
Simmi sagði…
Já, þegar stórt er spurt er spurt um svör:-)
Nafnlaus sagði…
lol - þessi var góður:)

Vinsælar færslur