Álfarnir aftur komnir á kreik

Það gengur aftur orðið illa að blogga heima. Þetta var skrifað í gær.




Þetta eru viðburðaríkir dagar. Í nógu að snúast og núna styttist óðfluga í ævintýrið á Hornströndum. Eitthvað eru göngufélagarnir að detta úr skaftinu, en ég veit að sama hversu mörg við verðum á endanum, þá verður þetta ævintýri. Ef þig langar að slást í hópinn, þá endilega sendu mér línu – þetta verður skemmtileg ganga um eitt flottasta göngusvæði landsins.




Um helgina er ég að spá í að kíkja út fyrir bæinn. Veit ekki alveg ennþá hvert, en hef um nokkra valkosti að velja. Það er til dæmis mjög áhugaverð raftónlistarhátíð í gangi um helgina í Árnesi. Bright Nights sem er með einhverju flottasta safni raftónlistarmanna sem ég hef séð. Sérstaklega langar mig að heyra í Ellen Allien frá Berlín. Held það gæti verið skemmtileg hugmynd að kíkja þarna austur, þó ekki væri nema annað hvort kvöldið.




Ef ekki verður af heimsókn á hátíðina, þá er ég samt sem áður að velta fyrir mér ferð út fyrir bæinn. Reyndar er veðurspáin misjöfn, en ég eiginlega bara verð að taka smá reynslu keyrslu á gönguútbúnaðinn. Á orðið gott úrval af búnaði og það er ekkert skemmtilegt að láta þetta bara safna ryki. Eins gott líka að hafa kannski tekið svo sem eins og eina góða helgi undir beru lofti áður en haldið er á Hornstrandir. Þó það sé ekki nema til þess að vera í sæmilegri æfingu í að tjalda. Hvernig sem þetta fer allt saman, þá verður fjör um helgina.



Ummæli

Nafnlaus sagði…
hef heyrt að það geti verið hrikalega kalt og misviðrasamt á Hornströndum, vona að þið fáið gott veður...
Simmi sagði…
Aldrei kalt ef maður er rétt búinn;-) Það er reyndar alveg rétt að þetta er ekki búsældarlegasta svæði landsins og snýr í norður. En hins vegar er ofsalega fallegt þarna og við erum auðvitað búin að panta blíðviðri fyrir hópinn...!

Vinsælar færslur