Framtíð dimm og grá

Þetta þema hefur mér fundist skemmtilegt. Nógu skemmtilegt til þess að ég hef ákveðið að halda því áfram eftir þessa viku. Kannski með einhverju öðru í bland. En listinn af kvikmyndunum sem mig langar til þess að skrifa nokkrar línur um er einfaldlega of langur. Kannski ég geri umfjöllun um kvikmyndir að föstum lið. En í það minnsta eru nokkrar myndir sem ég verð að koma hér að áður.

Það er orðið langt um liðið frá því að ég fékk áhuga á vísindaskáldskap. Man ekki lengur hvernig sá áhugi kviknaði, en hann hefur fylgt mér síðan. Þessi áhugi hefur líka smitast yfir á kvikmyndir um þetta efni. Sem ég skal fyrstur viðurkenna að geta verið ákaflega misjafnar að gæðum. En þó inn á milli séu vondar myndir þá er mér raunar vandi á höndum við að velja þær myndir í þessum flokki sem mér þykir mest varið í (eða kannski mest vænt um). Þær verða því óhjákvæmilega fleiri en einn. Þetta því enn ein ástæðan fyrir því að halda áfram þessari umfjöllun, þó þema vikan taki enda.

Ein þessara mynda ber þó höfuð og herðar yfir þær sem ég hef séð. Þetta er hin frábæra mynd Ridley Scott, Blade Runner. Það er líka alveg óhætt að segja að engin vísindaskáldsögumynd hafi haft jafn víðtæk áhrif og Blade Runner. Því þótt Star Wars sé líklega sú mynd sem flestir hafi séð, þá voru menningarleg áhrif Blade Runner miklu mun meiri. Raunar eru svo margra hliðar á þessari mynd að ég mun ekki nefna nema örfá þætti til sögunar. Myndin kom út árið 1982 og vakti misjöfn viðbrögð. Hún var ekki allra, enda þótti sumum gagnrýnendum sem atburðarrásin væri í hægara lægi, en öðrum fannst mikið til koma.

Sagan er lauslega byggð á sögu Philip K Dick, Do Androids Dream of Electric Sheep? þó nafnið væri raunar fengið frá sögu Alan E Nourse The Bladerunner. Þetta var raunar fyrsta myndin sem byggð er á sögu eftir Philip K Dick, en sögur hans hafa síðan orðið innblásturinn að myndum á borð við The Terminator, Total Recall, Paycheck og Minority Report svo einhverjar séu nefndar. Það var mögnuð reynsla að sjá þessa mynd í fyrsta skipti. Þarna hafði verið fest á filmu framtíð sem ekki aðeins virtist ný, heldur virtist þarna vera á ferðinni kvikmynd sem hugsanlega var að sýna okkur mögulega framtíð.

Það sem skýrir að nokkru þau miklu áhrif sem myndin hefur haft er sú staðreynd að þar var tekið á hlutum sem þá þegar voru farnir að gerjast eins og loftslagsbreytingar, fjölmenningu, heimsvæðingu, einræktun og stofnfrumurannsóknum. Öllu var þessu komið fyrir í umgjörð þar sem blandað var saman hinu þekkta og óþekkta. Kvikmyndin er greinilega undir miklum áhrifum noir myndana, enda er hún talin eitt besta dæmið um neo-noir og cyberpunk sem fest hefur verið á filmu. Jafnframt voru í henni ótal vísanir í fyrri verk eins og til dæmis Metropolis. Blade Runner varð því kvikmynd sem hafði áhrif á fjölmarga listamenn og hugsuði. Blade Runner er því kvikmynd sem ég mæli óhikað með.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
á undan Bladerunner hafði Star Trek (fyrsta serían) haft áhrif, alla vega hvað varðar heimsvæðingu, fjölmenningu, tækni(of)trú o.fl.

mig langar annars að sjá Bladerunner aftur, man allt of lítið eftir henni
Nafnlaus sagði…
Ég man þegar ég fór að sjá Blade Runner þegar hún kom hingað. Það var í Austurbæjarbíói árið 1983 eða 1984. Þetta var síðasta sýning, fyrstu sýningarviku og það voru kannski svona 10-15 manns í salnum og svo einkennilega vildi til að ég þekkti þá alla.
Simmi sagði…
Já, það var auðvitað fullt af myndum og sjónvarpsefni búið að hafa áhrif fyrir daga Blade Runner. Star Trek, Star Wars og raunar fleiri myndir gerðust í geimnum. Sögðu okkur þannig séð lítið um ástandið í okkar líklegustu framtíð hér á jörðu niðri. Auk þess sem ofurtrú á tæknivæðingu var búin að bíða skipbrot á þessum árum. Svo Blade Runner kom á réttum tíma og birti heimsmynd þar sem við vorum að sjá afleiðingar af tækniþróun og loftslagsbreytingum á jörðinni. Ég er t.d. ennþá að bíða eftir að geta keypt mér svona augu úr hraðfrysti eins og þeir buðu upp á þarna:-)
Nafnlaus sagði…
vantar þig augu, Simmi?
Simmi sagði…
Já, 3 augað:-) Nei, annars fyndist mér kúl að geta látið rækta fyrir mig augu úr sjálfum mér - auk annara nauðsynlegra líffæra. En ég held að það gæti alveg verið kúl að fá sér t.d. nýjan augnlit.

Vinsælar færslur