Okkur er ekki vorkun

Eitt af því sem hefur komið mér á óvart sem einbýling af karlkyni er umræða um vesöld sumra af sama kyni. Með öðrum orðum, þjáning þeirra kynbræðra minna sem lenda í því að standa uppi einir. Sem er svo sannarlega ekkert sérlega skemmtilegt. En ekkert endilega neitt stórslys. Eða hræðilegur hlutur. En mér skilst sem sagt að í augum einhverra sé það miklu mun verra ef karlmaður lendir í því að þurfa hugsa um sig sjálfur, heldur en ef kona lendir í því sama.

Nú verð ég að viðurkenna að ég tel mig vita flest best. Raunar harla fátt sem ég veit ekki betur en flestir. Er auk þess lítillátur og óframfærinn. En þetta á ég fremur erfitt með að skilja. Rétt eins og söguna um að ef konan þín yfirgefur þig án þess að það sé karlmaður í spilinu, þá bara hljóti hún að vera lesbía. Sem mér skilst að sé líka útbreidd þjóðsaga. Hef það frá fyrstu hendi, þó ég hafi ekki reynt það á eigin skinni. Enda er ég ekki kona. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki ákveðinn skilning á þessu. Sumum greinilega svíður bara svo ofboðslega á eigin skinni að þeir geta ekki horfst í augu við sjálfa sig. Ég skil bara ekki hvernig er hægt að komast að þessari niðurstöðu.

Í fyrri færslu þar sem ég hélt upp á ársafmæli einbýlis míns þá rakti ég nokkur atriði sem ég hef fundið á eigin skinni að eru nokkuð öðruvísi en í sambúð. Að nokkrum manni (eða konu – svona svo það sé á hreinu) sé vorkunn að búa við einbýli. Það finnst mér hins vegar vera rugl. RUGL segi ég. Tökum bara nokkur dæmi.

Hér áður og fyrr þá þótti (og þykir reyndar en) mér afskaplega vænt um að sofa sem lengst fram eftir. Við sambýlingarnir áttum þetta sameiginlegt. Sama gilti um bílinn sem var einn og því notaður til sameiginlegs aksturs. Það þýddi að ég þurfti oft og iðulega að vakna nokkru fyrr en ef ég hefði búið við einbýli. Það kom líka fyrir að ég var seinna á ferðinni en ef ég hefði verið einn á ferðinni. Núna er það engum nema mér sjálfum að kenna ef ég er seinn og ég sef eins lengi og mér þóknast. Sem reyndar er ekki alltaf mjög lengi fram eftir, því það er lítið mál fyrir mig að hoppa í leikfimi á morgnana. Alveg án þess að það hafi áhrif á svefnfrið sambýlinga.

Raunar gildir síðan hið sama um notkun á bifreiðinni yfirleit. Í dag sit ég alveg einn að henni. Þetta hefur mjög gilda kosti. Sérstaklega fyrir fólk eins og mig sem ferðast dálítið út úr landinu. Það er nefnilega mun þægilegra að vera á sínum eigin bíl þegar maður lendir upp úr miðnætti eða eldsnemma um morgunn. Ég get meira að segja látið bílageymslufólkið í Keflavík sjá um að þvo og bóna bílinn fyrir mig. Ekkert mál ef þú býrð í fjölskyldu með marga bíla, en ég hef ekki ennþá búið í svoleiðis fjölskyldum. Finnst þetta því mikil kostur við einbýlið. Kannski ég hafi það sem skilyrði í næsta sambandi að það séu tvö ökutæki á heimilinu. Auðvelt að segja það svona meðan ég bý í einbýli.

Ferðir á myndbandaleigur og val á sjónvarpsstöðvum hafa líka einfaldast til muna. Fyrir karlmenn með testósterón framleiðsluna í sæmilegu lagi, þá eru ákveðnar tegundir kvikmynda ekki endilega nein rosalega skemmtun. Eg tel það til að mynda afar ólíklegt að ég eigi eftir að sjá kvennamynd á borð við Sisterhood Of The Traveling Pants eða Must Love Dogs á meðan ég bý ennþá við einbýli.
Sem er mikil kostur. Raunar er ég ekki í þeim flokki karlmanna sem hef mikla íþróttaástríðu. Veit oftast ekkert hvaða leikur er í gangi. Lendi í vandræðum með íþróttaspurningarnar í Trival Pursuit. Ekki svo að skilja að ég sé alveg laus við áhuga á þessu, en þetta er bara engin ástríða hjá mér. Svo það er ekki að ég hafi tekið upp tólið og pantað áskriftina að Sýn og sitji nú sveitur á hlýrabol með volgan bjór og hvetji mina menn. Ekki alveg. Í staðinn get ég eytt tíma í að horfa á rússneskar hryllingsspennumyndir eða heila seríu af Little Britain á tölvunni minni. Þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af því að ég sé að trufla áhorf á Dr Phil á meðan. Raunar hef ég meira að segja lúmskt gaman að Dr Phil. Sé hann stundum þegar ég er að hita upp í leikfimi. Finnst bæði hann og fólkið sem situr hjá honum frekar fyndið. En ástæðan fyrir því að ég horfi er sú að þetta er eina textaða efnið á sjónvarpinu sem ég hef fyrir framan mig. Ekki af því að ég valdi það sjálfur.

Svo ég segi bara – okkur er engin vorkun.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
ég fíla það þrælvel að búa ein - reyndar er ég aðra hverja viku með börnin og því kannski ekki alveg að marka.

en undurgott er að ráða sér sjálfur;)
Nafnlaus sagði…
sæll-ég er rétt að byrja að lesa pistilinn er ekki komin lengra en þetta,"Raunar harla fátt sem ég veit ekki betur en flestir"
ég spyr hvað er það langt síðan þú vissir þetta líka? haha haha
Simmi sagði…
Erna - við þessu er bara eitt svar "It's hard to be humble when you're as...." ;-)
Blinda sagði…
Allt er þetta gott og blessað.....þar til við berum saman launatölur hjá konum og körlum.....

Það er tvennt sem mér finnst erfitt við einlífið, eitt er að stundum er maður einmana í því.....en annað og öllu verra og það eru helv.... blankheitin.

Ég átti að hlýða foreldrum mínum og verða læknir. Þá væri ég lílegast MJÖG sátt við einlífið.

Gott að vera vitur eftir á.
Nafnlaus sagði…
oh Lord, it´s hard to be humble, when you´re perfect in every way...

flott lag;)

Vinsælar færslur