Jóga og júróvisjón

Ég var að koma úr jóga áðan. Sem mér finnst alveg magnað fyrirbæri. Þarna er maður í hóp af fólki að teygja sig. En gleymir einhvern veginn gjörsamlega að maður sé innan um annað fólk. Mér líður alltaf eins og nýfæddum þegar ég er búinn í þessu. Eða kannski frekar nývöknuðum. Þetta nefnilega virkar bæði fyrir líkamann og hausinn á manni. Svo furðulegt sem það kann að hljóma fyrir þá sem aldrei hafa reynt þetta. Ég er sem sagt á jóga námskeiði í jógastöðinni minni. Mæli eindregið með þessu.

Það er samt eitt sem mér finnst fyndið við þessa iðju. Sú staðreynd að þarna eru eiginlega yfirleit aldrei mjög margir karlmenn. Stundum enginn nema ég. Samt er þetta jóga kerfi sem ég er í, Ashtanga, þræl erfitt. Raunar alveg upplagt fyrir karlmenn að stunda þetta. Ég fer þangað oftast í hádeginu. Finnst það einhver besta leið til þess að vera með allt á hreinu í vinnunni. Hjálpar manni við að róa hugann. Stressið lekur í burtu og maður nær að stilla sig inn á verkefni á alveg nýjan hátt. Svo er þetta víst líka voða holt.

Annars er búið að vera ferlega gaman í dag. Enginn skortur á umræðuefnum. Ófarir Silvíu hafa auðvitað verið sjálfvalið umræðuefni. Þar með tel ég að markmiðinu hafi verið náð. Fannst í sjálfu sér ekkert afskaplega furðulegt að hún skildi ekki ná áfram. Öllu furðulegra fannst mér að sum önnur af þeim lögum sem þarna voru skildu ekki ná áfram. Finnst það raunar nokkuð augljóst að áhrif austur Evrópu eru einfaldlega slík að það muni líða nokkur ár áður en við eigum nokkurn séns. Sést best á því að framlag Belga, sem var bara með því skárra í keppninni í gærkvöldi komst ekki áfram. Það má nefnilega leiða að því nokkuð gild rök að tónlistarsmekkur þeirra sem búa í þessum hluta álfunnar sé einfaldlega ekki betri enn þetta. En ég hvet lesendur mína til þess að fagna vel og lengi í kringum keppnina á morgunn. Atkvæði ættu að fara til Finnlands, fyrir skemmtilegasta lagið og Litháen fyrir að hafa komið hópi af endurskoðendum áfram á ótrúlega vondu lagi.

Svo vil ég benda áhugafólki um Júróvisjón á mjög vel heppnaðan vef BBC. Sem meðal annars bíður upp á sérlega skemmtileg eyðublöð til að halda utan um stigagjöfina.

Ummæli

Vinsælar færslur