Fullur af menningu

Ég gerðist menningarlegur í kvöld. Sem lá ekkert beint við. Það var bara svo mikið framboð af slíku um helgina að ég eiginlega átti ekkert val. Gat bara hreinlega ekki á mér setið. Fór á sýningu í Borgarleikhúsinu – Glæpir gegn Diskóinu. Sem mér fannst bara ágætt. En veit ekki hvort mér fannst það meira en það. Þetta var leikþáttur í þremur þáttum. Þar sem var bara einn leikari á sviðinu hverju sinni. Veit ekki hvort það var það, eða hvað það var. En þetta náði svona misjafnlega til mín. Fannst annar hlutinn bestur. En ég er svo sem engin leiklistargagnrýnandi. Fer allt of sjaldan í leikhús til þess að geta kallað mig gagnrýnanda. Mér fannst í það minnsta bara fínt í leikhúsinu. Læt þau orð bara nægja um það. Á morgunn get ég síðan farið á tónleika. Veit ekki ennþá hvort ég ætla að fara. Eða hvort ég ætla að sökkva mér ofan í verkefnið mitt.

Annars var þetta bara skemmtilegur dagur. Það er eitthvað við þennan árstíma sem á við mig. Fannst það bara dálítið magnað um 11 í gærkvöldi þegar ég tók eftir því að það er ekki lengur svarta myrkur. Sumarið er komið á Íslandi. Núna þarf ég til dæmis að fara strjúka rykið af tjaldinu mínu. Athuga hvort dótið mitt til útivistar sé ekki allt á sama stað og þar sem ég gekk frá því síðasta haust. Hafa nóg fyrir stafni. Það er málið næstu vikur.

Ummæli

Blinda sagði…
Hvort sem það hafði áhrif á þig eður ei, þá fékk það þig til að hugsa um það. Það eitt er góðs viti. Leikhús á alltaf að skilja eitthvað eftir sig.

Vinsælar færslur