Þetta er lögreglumál

Ég hreinsaði út ruslpóstinn um helgina. Í því felst að ég les mig í gegnum blaðabunka vikunnar. Það er svona mismunandi hvað grípur augað. Það er til dæmis orðið mjög áberandi að það eru kosningar á næsta leiti. Ég hef svolítið gaman af pólitík. Svo ég gríp stundum niður í innsendar greinar. Eina vandamálið við sveitarstjórnarmál er hvað þetta eru leiðinleg stjórnmál. Það hlýtur að vera eitthvað að fólki sem fyllist eldmóði yfir sundabraut. Eða hvort leikskólar eigi að vera gjaldfrjálsir eða bara lækka í áföngum. Til allrar hamingju virðist þó sem umræðu um fjármál einstakra sveitarfélaga vera lokið. Sú umræða hefði getað gengið af okkur flestum dauðum.



Ekki vegna þess að þetta skipti okkur ekki máli. Sveitarfélag sem skuldar meira en það aflar þarf nefnilega að innheimta hærri skatta til að eiga fyrir afborgunum á lánum. Þetta skil ég alveg. En hvort sundabraut sé tví eða fjórbreið. Ég bý í Hansabænum og hef bara af því engar áhyggjur. Sama máli gildir um fjöldann allan af öðrum málum. Sem virðast eiginlega ekki koma öðrum við en þeim sem búa í 101 eða 107. Þess vegna hef ég ekkert voða mikinn áhuga á þessum málum.



Svo ég er í öðrum fréttum. Ekki eins merkilegum. Las til dæmis af miklum áhuga greinarstúf eftir fastan penna eins dagblaðsins. Sem er ung kona. Sem heitir Borghildur Gunnarsdóttir. Hún hefur það fyrir reglu að keyra ekki nema 10 kílómetra yfir hámarkshraða. Sem mér finnst bara sniðug regla hjá henni. Það kemur í veg fyrir óþarfa hraðasektir og punktasöfnun. Yfirleit þegar ég ek á þjóðvegi eitt finnst mér þetta líka fín regla. Gefa sér bara tíma í þetta. En það var annað í þessari grein hennar sem ég var fullkomlega ósamála.



Málið var nefnilega að þessi ágæti bílstjóri vildi meina að þar sem hún hefði ákveðið að keyra hraðar en hámarkshraði sagði til um, þá væri bara allt í góðu að halda umferð fyrir aftan sig á vinstri akrein. Sem virðist vera miskilningur sem mjög margir í umferðinni virðast vera haldnir. Ég rek mig á þetta í umferðinni á leið frá Hansabænum og til vinnu í 101. Svo í tilefni þessa þá rifja ég upp ákvæði í umferðarlögum.



Hvar aka skal á vegi.

14. gr.

Ökumaður skal vera með ökutæki sitt eins langt til hægri og unnt er með tilliti til annarrar umferðar og aðstæðna að öðru leyti.



Framúrakstur.

20. gr.

Aka skal vinstra megin fram úr ökutæki.



21. gr.
Þegar ökumaður verður þess var, að ökumaður, sem á eftir kemur, ætlar að aka fram úr vinstra megin, skal hann vera með ökutæki sitt eins langt til hægri og unnt er. Má hann ekki auka hraðann eða torvelda framúraksturinn á annan hátt.



Nú er alveg klárt samkvæmt frásögn þessarar konu að hún braut í það minnsta þessi 3 ofangreindu ákvæði umferðarlaga. Hefur viðurkennt það opinberlega. Nú býð ég spenntur eftir að lesa um kæruna á hendur henni Borghildi fyrir brot á umferðarlögum. Verst að DV skuli verið hætt. Annars væri þetta væntanlega á forsíðunni þar. Enda vart hægt að hugsa sér skýrari játningu. Og það var ekki eins og hún óskaði sínu samferðafólki í umferðinni nokkurs annars. Eða svo ég vitni beint í Fréttablaðið “Ó hvað ég vona líka að löggimennirnir nái í rassgötin á ykkur og hirði af ykkur ef ekki væri nema hálfmánaðarlaun og kannski eitt stykki ökuskírteini. Mmmm.já”



Já, þetta er greinilega lögreglumál.

Ummæli

Vinsælar færslur