Þetta finnst mér skemmtilegt

Eitt af því skemmtilegasta sem ég geri er að borða góðan mat í góðum hópi. Fyrr í sumar hélt ég einmitt matarboð með hópi fólks sem ég hef kynnst í gegnum þessar hugrenningar mínar hér. Eitthvað sem ég hafði svo sem ekki séð fyrir. En greinilegt að það getur verið fín leið til að kynnast góðu fólki að skrifa hér niður einhverjar línur. Þó svo yfirlýstur tilgangur þessa sé ekki annar en sá að segja frá því sem mér liggur á hjarta. Skrifa þetta eiginlega bara til þess að fá útrás fyrir eitthvað sem ég hef verið að spá í. Benda á eitthvað sniðugt og skemmtilegt sem ég rekst á. Eða til þess að eiga svona hálfgerða sögu af sjálfum mér. Sem hefur bara orðið skemmtilegra eftir því sem tíminn hefur liðið og meira bæst í. Ég hef líka komist að því að ég er alls ekki einn um að finnast þetta skemmtilegt. Það er raunar bara nokkuð stór hópur sem sér ástæðu til þess að halda úti svipuðum svæðum. Sum þeirra listilega vel skrifuð. Enda bendi ég á nokkra af mínum uppáhalds pennum hér.

Það er nefnilega einhvern veginn þannig að þegar maður fer að lesa það sem aðrir skrifa. Finnur sér skemmtilega staði. Þá hefur maður nefnilega tækifæri til þess að setja inn kveðju. Tjá sig um það sem aðrir hafa séð ástæðu til þess að fjalla um. Alveg eins og mér finnst skemmtilegt að fá kveðjur og innlegg inn í það sem ég skrifa, þá er það greinilega alveg eins hjá flestum öðrum. Skiptir þá engu máli hvort ég þekki annars viðkomandi bara hreint ekki neitt. Svo ég hef lært að vera ófeiminn við að senda kveðjur inn hjá öðrum. Sumu af þessu fólki hef ég síðan kynnst. Komist að því að þar eru á ferðinni ákaflega áhugavert og skemmtilegt fólk. Auðvitað misjafnt eins og það er margt. En ég sé þetta eiginlega svolítið eins og að hitta fólk og spjalla. Því efnið segir manni oft mikið um þann sem skrifar. Ekki endilega að það sé allt saman sannleikanum samkvæmt. Því auðvitað er þetta líka útrás fyrir penna sem vilja skálda. Nota þetta sem stað til þess að leyfa ímyndunaraflinu að leika lausum hala. Gera það jafnvel í bland við staðreyndir. Svo sumum reynist jafnvel erfitt að skilja á milli þess sem er satt og logið. Sem getur oft orðið mjög skemmtilegt. Hér leynast nefnilega frábærir pennar. Sem nýta sér frjálsræðið hér til þess að skrifa leiftrandi texta sem er einfaldlega með því besta sem ég les.

Svo mér fannst skemmtilegt að vera boðið til veislu í gærkvöldi með svona hópi. Hópur sem ég hefði líklega ekki kynnst með þessum hætti nema í gegnum þessar línur mínar og lestur á öðrum svæðum. Ég var heldur ekki lengi að þiggja boðið þegar það kom. Enda varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Það var tekið höfðinglega á móti mér strax og ég steig inn um dyrnar. Matarundirbúningur á loka stigi og ég fylgdist með réttunum verða til á meðan við skemmtum okkur með sögum og slúðri. Sem ég hef að sjálfsögðu ekki eftir hér. En ég skemmti mér ákaflega vel. Fékk frábæran mat. Geggjaða súpu, heimatilbúið nanbrauð, Jógúrt maríneraðan kjúkling sem fór á grillið. Endað á pönnukökum og kaffi. Með öllu þessu fylgdu viðeigandi drykkir sem ég hefði ekki getað valið betur sjálfur. Allt þetta með fólki sem var aldrei í vandræðum með umræðuefni, né í vandræðum með að sjá skemmtilegu hliðarnar á tilverunni. Þetta allt vegna þess að ég ákvað á fá smá útrás fyrir skriftarþörfina með því að setja eitthvað hér niður. Það var greinilega gæfuspor.  

Ummæli

Nafnlaus sagði…
bloggið er nýr heimur fyrir mig og það hefur komið mér skemmtilega á óvart að uppgötva að á bak við þær síður sem vekja áhuga minn leynast yfirleitt áhugaverðar manneskjur:)
Barbie Clinton sagði…
Það alveg skín í gegn hamingjan hjá þér. Það var greinilega mjög gaman í gær. Er mjög sammála þér. En eftir allt saman þá er nú maður manns gaman.

Vinsælar færslur