Verslunarmannahelgarbrölt

Það sækir að mér púki um þessa helgi. Svona ferðapúki einhver. Því þó ég hafi í gegnum tíðina ekki verið nema svona í meðallagi duglegur við að heimsækja skipulagðar útihátíðir um Verslunarmannahelgina, þá hef ég oft og iðulega farið eitthvað. Skemmt mér misjafnlega vel eins og gengur. Í dag þegar sólin hefur skinið, þá langar mig til þess að kíkja út fyrir bæinn.

Einn er þó sá staður sem ég hef aldrei farið til um Verslunarmannahelgina. Það er á Þjóðhátíð í Eyjum. Sem mér skilst að hafa verið valin besta partý í heimi af lesendum Rough Guide. Það hefur aldrei verið neitt sem hefur knúið mig til þess að taka þátt í þessu. Fundist þetta verið eitthvað frekar ófreistandi. En kannski er það bara vitleysa. Í það minnsta virtist þessi írski blaðamaður sem heimsótti hátíðina skemmta sér ágætlega. En ég held samt að ég eigi ekki eftir að heimsækja þessa hátíð. Ekki nema ég komist í kynni við eitthvað fólk frá Vestmannaeyjum. Skilst að það sé skilda að mæta á þessa hátíð ef þú ert ættaður frá Vestmannaeyjum.  Sem hefur sinn kost. Því þá hefur þú aðgang að húsnæði hjá ættingjum. Þarft ekki að brölta við það að tjalda. Eða berjast við veðrið. Ég upplifi nefnilega schadenfreude þegar ég sé gesti þjóðhátíðar í ausandi rigningu og brjáluðu roki. Það er púkinn.

Ég er hins vegar búinn að ráðstafa komandi föstudagskvöldi í annað en ferðalög. Svo ekki leggst ég í akstur út á land á föstudaginn. Ég á líka von á því að það verði ausandi rigning á föstudaginn. Svo ferðahugurinn verður líklega í lágmarki þá. En ég fékk hins vegar í dag þá hugmynd að skella mér bara til Ísafjarðar á laugardaginn. Á ekki von á því að straumurinn liggi þangað og því væntanlega auðvelt með flug. Taka létta göngu upp á fjöll í næsta nágrenni og koma svo heim í bæinn á mánudaginn. Gæti verið hugmynd.

Ummæli

Syngibjörg sagði…
Endilega skelltu þér hingað vestur,
besti staður á jarðríki. Klikkar ekki.
Simmi sagði…
Já, það ekkert að hvetja mig neitt of mikið:-) Einu erfiðleikarnir eru að sannfæra einhverja ferðafélaga um snildina við hugmyndina. Meira stuð að brölta á fjöllum með göngufélögum. Var ekki einhver útlendingur einmitt að festast þarna fyrir ofan bæinn í vikunni á fjöllum?

Vinsælar færslur