Óvenjulegur föstudagur

Þetta var svolítið öðruvísi föstudagur en venjulega í gær. Stóð fyrir heljarmikilli hátíð í Nauthólsvík á vegum vinnunnar. Svo ég yfirgaf skrifborðið mitt rétt upp úr hádegi. Við tók burður á öllu því sem nauðsynlegt er til þess að halda svona hátíð. Sem er hefur verið í undirbúningi í allt sumar. Það er svo sannarlega í mörg horn að líta. Það þarf að sjá fólki fyrir skemmtan. Sem ég held að hafi bara tekist vel upp. Svo var auðvitað kynnt upp í grilli. Pulsur á alla sem vildu. Drykkir eins og þurfti með. Eitthvað hafði fólkið haft áhyggjur af því að veðrið myndi ekki leika við okkur. En ég hafði auðvitað tekið þann pólinn í hæðina að þetta væri bara spurning um viljastyrk. Auðvitað yrði bongó. Sem að sjálfsögðu varð raunin. Því það birti yfir öllu svæðinu um það bil sem þetta fór í gang. Svo þegar listflugið renndi sér yfir höfðum okkar, þá var glampandi sól.

Veit ekki annað en þetta hafi allt gengið eins og smurð vél. Enda sænsk menntaður verkfræðingur (eða svona tilvonandi verkfræðingur) sem stóð í þessu með okkur. Svo tók við hreinsun á svæðinu. Allt sett í þessa klassísku svörtu og svæðinu skilað eins og við komum að því. Svo er að sjá hvernig mér gengur í dag. Þá ætla ég að reyna eitthvað nýtt. Skráði mig í maraþon. Við fengum áskorun frá vinnuveitandanum um að taka þátt og styrkir hann gott málefni á móti hverjum kílómetra sem við leggjum að velli. Ég ætla nú ekki að byrja of stórt. Læt mér nægja að reyna við 3 km. En vonast nú samt til að ég gefi ekki upp öndina. En þetta verður spennandi að prófa. Svo er líka menningarnótt framundan. Verð að hafa einhverja orku í að skoða allt úrvalið sem stendur til boða. En það stefnir í góða helgi.

Ummæli

Vinsælar færslur