Áfram Ísland

Í kvöld gerði ég eitthvað sem ég hef ekki gert í langan tíma. Fór á fótboltaleik. Landsleik Íslands og Spánverja. Ég er eiginlega nokkuð langt frá því að vera áhugamaður um fótbolta. Veit samt nokkurn veginn út á hvað þetta gengur. Myndi ekki kalla mig sérfræðing. En veit nóg til þess að geta fylgst með og klappað á réttum stöðum. Það stóð reyndar alls ekki til að eyða kvöldinu með þessum hætti.

Mér hafði meira að segja verið boðið í göngu. En náði því ekki. Hefði svo sannarlega viljað geta sagt frá því að ég hefði staðið upp á Akrafjalli í kvöld. En í staðinn þá fékk ég símtal frá félaga. Sem spurði hvort ég hefði áhuga á því að kíkja á leikinn. Fyrst ég var ekki lagður af stað í göngu, þá ákvað ég bara að slá til. Enda varla hægt að hugsa sér betri dag til þess að sitja og horfa á fótbolta. Svo ég ákvað að gefa gönguferðunum frí í kvöld og prófa þess í stað eitthvað nýtt.

Ég komst að því að það er ekki góð hugmynd að reyna að leggja rétt við Laugardalsvöllinn. Fannst ég eiginlega bara nokkuð skynsamur að leggja við Suðurlandsbrautina í staðinn. Varð svo samferða fullt af öðrum sem voru á sömu leið. Tók mig smá tíma að átta mig á því hvert ég átti að fara. Því það ég átti að hitta þann sem hélt á miðanum. Sökum þess að ég hef ekki komið inn á Laugardalsvöllinn í fleiri ár. Þá þurfti ég leiðbeiningar í gegnum síma til að rata. En allt gekk þetta upp og ég fann sætið mitt.

Ég verð nú að segja að eitthvað fannst mér vanta upp á stemmninguna. Skilst að það sé vaninn hjá okkur. Okkur vanti söngva og eitthvað fleira. Ólíkt því sem gerist á sumum öðrum stöðum. Í það minnsta ímynda ég mér að Spánverjunum hafi ekki fundist við rosalega öflugir áhorfendur. En það komu samt ein og ein alda. Sem náði að ganga í eina 5 hringi. Svo þetta var ekki alveg steindautt. Leikurinn fannst mér líka bara alveg ágætur. Samt alveg ljóst að Spánverjarnir voru ekkert að leggja of hart að sér. Bæði lið áttu ágætis tækifæri. En mörkin léttu á sér standa. En þetta var bara ágætis skemmtun fannst mér. Kannski það verði ekki alveg jafn langt þangað til ég fer aftur.

Ummæli

Vinsælar færslur