Raki, bleyta, vökvi, regn, súld....

Ég er orðinn ægilega leiður yfir því hvað það hefur verið mikið blautt í sumar. Í vor hafði ég nefnilega ákveðið að vera á fjöllum og í tjaldi um flestar helgar í sumar. En mér finnst bara allt of langt að keyra á Egilsstaði til þess að eiga von um sól. Já, eða bara ekki rigningu. Það er nefnilega ekkert endilega best í heimi að vera í glampandi sól. Sérstaklega ekki þegar lagt er í göngur. Hins vegar er óskemmtilegt að vera með blautt tjald og allt hálf rakt. Verður allt of mikið vesen eitthvað. Sem hefur orðið til þess að minna hefur verið um fjallaferðir en ég hafði vonast til. Ég neita samt að leggjast í umræður um haust alveg strax. Ágúst skal fá að enda fyrst.

Þess vegna ákvað ég að halda mig í Reykjavík um Verslunarmannahelgina. Langaði reyndar mikið til þess að fara á Ísafjörð. En fann mér ekki ferðafélaga. Miðað við rigninguna sem var um helgina þá var það kannski bara fínt. Ég ætla samt að stefna aftur þangað um næstu helgi. Vonast til þess að veðrið verði betra. Eða kannski ég ætti bara að skella mér á morgunn. Sýnist að það gæti verið dagurinn. Um helgina var hins vegar rigning um allt land. Mér fannst til dæmis sorglegt að sjá viðtalið við heimilisföðurinn sem hafði endað á Þingvöllum. Flúið úr rigningunni á Norðurlandi. Þegar hann var spurður um upplifun sína á helgina þá var því svarað í einu orði. Blaut.

Það er annars hálf skrítið að vera í Reykjavík á þessari helgi. Ekki leiðinlegt samt. Umferðin minnkar um allan helming. Ég komst hratt og örugglega milli allra staða. Þurfti heldur ekki að hafa áhyggjur af umferðareftirliti. Allar umferðarlöggur landsins voru úti á landi. Þannig er það alltaf um þessa helgi. Útlendingar áberandi í verslunum. Bæði nýbúarnir sem ekki kunna inn á þessa íslensku Verslunarmannahelgargeggjun. Líka hefðbundnir ferðamenn sem kannski furða sig á því hvað það sé allt rólegt hér. Alveg nóg um að vera líka. Svo ég hafði það bara furðu gott um helgina. Þó ég hefði helst viljað eyða henni í sól og sveitasælu. Svo fékk ég líka skemmtilega hugmynd að efni sem ég ætla að skrifa um. Áhrifavaldar. Er að safna saman í lista.

Ummæli

Vinsælar færslur