Sjöundi áratugurinn

Þessa dagana er ég með sjöunda áratuginn á heilanum. Þetta byrjaði allt með því að ég rakst á Edie Sedgwick myndbandið sem ég setti inn hér fyrir neðan. Allt í einu var ég eina ferðina enn dottinn inn á sjöunda áratuginn. Sem hefur verið mér hugleikinn í gegnum tíðina. Byrjaði einhvern tíma þegar ég var óharðnaður unglingur. Hefur elt mig síðan.

Það er eitthvað við þetta tímabil. Hvernig það leysti úr læðingi breytingar. Sem við höfum fengið að njóta síðan. Ég er ekki nógu gamall til þess að hafa upplifað þennan tíma. Enda er ég ekkert viss um að það sé endilega skemmtilegt. Nóg fyrir mig að benda á að Edie, Jimi Hendrix, Janis Joplin, Brian Jones eða Jim Morrison náðu því aldrei að halda upp á þrítugsafmælið sitt. Það sem mér finnst hins vegar áhugaverðara er hversu mikil áhrif þessi áratugur, já eða öllu heldur það fólk sem lifði í gegnum hann (og jafnvel eitthvað lengur) hafði. Það er einhvern veginn þannig í mínum haus að það breytist allt á þessum tíma. Hvort sem okkur líkar betur eða verr við þær breytingar. Þarna komst til vits, já eða í það minnsta til nokkurs aldurs, stærsta kynslóð eftir seinni heimstyrjöld. Bara í krafti stærðar sinnar hefur hún haft mikil áhrif.

Af því að ég er með þetta á heilanum þá fáið þið að fylgjast með. Ég er til dæmis núna að reyna að skilja út á hvað Andy Warhol og Factory gengu. Hvað var eiginlega málið með Nico og Velvet Underground? Hvernig kom Bob Dylan inn í þetta allt saman? Afhverju virðist eins og næstum því allir sem komu nálægt þessu hafi annað hvort endað í taugaáfalli, meðferð eða dauðir? Ekki getur þetta allt saman hafa verið neikvætt.

Ummæli

Vinsælar færslur