Bílaval

Í haust þarf ég að endurnýja bílinn minn. Samningurinn sem ég gerði um leigu á Toyota Corolla á orðið lítið eftir. Svo nú stend ég frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun. Sem mér finnst alltaf skemmtilegt. En líka svolítið óþægilegt. Svona þetta með kvölina og völina og allt það. En ég er búinn að vera að hugsa málið. Sýnist að ég hafi eftirfarandi valkosti í stöðunni.

Í fyrsta lagi að endurnýja leigu samninginn og fá mér nýjan bíl af sömu tegund. Það er svona hið auðvelda val. Með því forðast ég hið óþekkta. Enda hefur mér líkað vel við bílinn minn. Hef átt Toyota Corolla núna í nokkur ár og komist bæði lönd og strönd án erfiðleika. Svo íhaldsama valið er að halda mig við Toyota.

Í öðru lagi kæmi til greina að fá mér aðra tegund. Þar hef ég horft til annars vegar Honda Civic eða Peugeot 307. Líkar vel við báða bíla. Hef keyrt Peugeot 307 í Frakklandi og fannst það bara fínt. Skemmtilegur bíl. Sem gæti alveg hentað mér. Ég sé nefnilega enga sérstaka kosti við það að eiga stóra bíla. Ég hef aldrei verið sérstakur áhugamaður um jeppa til dæmis. Get alveg hugsað mér að keyra svoleiðis. En hef aldrei fundið sérstaka löngun til þess að eiga og reka eitt jeppa. Svo þess vegna finnst mér mun skemmtilegri hugmynd að eiga svona snarpa borgarbíla sem fara vel með mig þegar ég ek eitthvað lengra. Svo þess vegna gæti ég líka hugsað mér að eiga Honda Civic. Hef átt þannig bíl áður og man eftir því að fyrir einhverjum árum þá voru Honda bílar ólíklegastir til þess að bila. Í það minnsta í Bandaríkjunum.

Að lokum kæmi auðvitað til greina að kaupa bara hreinlega bílinn sem ég er á núna. Þá gæti ég bara keyrt um á bíl sem ég á. En mér finnst einhvern veginn ekki nógu sniðugt. Hef til dæmis þá trú að viðhaldskostnaður muni fljótlega aukast. Bílinn dettur úr ábyrgð. Ég fer að þurfa greiða fyrir allar skoðanir. Fæ ekki heldur uppfærslu á búnaðinum mínum. En þetta kemur samt til greina.

Nú er þetta spurning hvað ég eigi að gera. Næstu skref verða reynslu akstur. Ábendingar frá ykkur eru líka vel þegnar. Gott að hlusta á vini sína. Eru þetta skynsamlegar hugmyndir hjá mér? Eða er ég að gleyma einhverjum bíl sem ég virkilega ætti að skoða? Kannski bara kaupa mér strætókort?

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Kauptu nýjan bíl. Það er buyers market núna. Bílaumboðin hljóta að vilja gera eitthvað fyrir þig.
Valtyr sagði…
Ertu ekki orðinn svo mikill fjallagaur. Þarftu þá ekki að fá þér upphækkaðann jeppa?
Simmi sagði…
Já, nýr bíl er held ég alveg málið. Allir hættir að kaupa og þá kemur maður og ætti að geta fengið sæmilegan díl. En ég vil helst ekki kaupa - fannst eitthvað svakalega þægilegt að vera bara með þetta á leigu.

Jeppi er bara kostnaður í mínum haus. Þarf jeppa ca 14 daga á ári (hámark) og ef ég leigi jeppa á ca 20 þúsund á dag í 14 daga á ári þá er það 280 þúsund á ári eða 840 þúsund á 3 árum. Sem þýðir að það er rugl að kaupa jeppa. Jeppi = dýrari í rekstri, dýrari tryggingar plús ca 1 milljón (lágmark) dýrari í innkaupum. Svo fyrir þessar 2 ferðir á ári sem ég þarf jeppa - þá bara leigja.

Vinsælar færslur