Menningardagur og nótt

Þetta varð bara langur dagur í gær. En eftir því ánægjulegur. Eftir að hafa komið blóðrásinni vel af stað fyrir hádegið þá tók menningin við. Ég var raunar í 101 svo að segja allan daginn í gær. Hafði fundið það sem mér þótti áhugaverðast og búið mér til langan lista yfir það sem ég ætlaði mér sjá. Verð að viðurkenna að þrátt fyrir einbeitan vilja, þá tókst mér ekki að ná því öllu. Því sumt reyndist áhugaverðara en ég hafði gert ráð fyrir og tíminn bókstaflega flaug frá mér. Svo var veðrið eitthvað svo yndislegt að ég naut þess að taka því rólega.

Sýndist að það sama ætti við um flesta í bænum. Fólk var eitthvað svo glaðvært. Sýndi sig hvað það hefur mikið að segja. Ég hóf ferð mína á því að ferðast aftur á landnámsöld. Fannst það bara virkilega vel útfært. Kom mér eiginlega á óvart. Alveg óhætt að mæla með heimsókn þangað. Skoðaði líka ljósmyndasýninguna frá Litháen. Hún hefði gjarnan mátt vera stærri. Það var eitthvað við það að skoða svona einn dag festan á mynd. Þarna voru líka ljósmyndarar á ferð sem meira að segja ég kannaðist við. Ég hafði ákveðið að þetta væri góður dagur til þess að heimsækja listasöfn. Eitthvað sem ég gef mér ekki nægilega mikinn tíma til.

Fór þess vegna inn á Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands. Vart hægt að hugsa sér meiri andstæður í verkum. En báðar voru sýningarnar góðar. Gáfu mér í það minnsta eitthvað. Var sérlega ánægður með þessa í Listasafni Reykjavíkur. En vegna þess hve vel viðraði þá varð ekkert úr heimsóknum mínum á fleiri söfn. Þess í stað naut ég þess að hlusta á tónlistaratriðin. Fylgdist með listflugi. Hitti vini og kunningja. Tók mér stutt matarhlé og í kjölfarið á því var tónlistin á Laugaveginum könnuð. Margt í boði. Svona misjafnlega áhugavert. Fyrir flugeldasýningu endaði ég í örtröð við Landsbankann þar sem Mezzoforte kom fram í sinni upprunalegu mynd í fyrsta skipti í 20 ár. Snilldar hljóðfæraleikarar og þó örtröðin hafi verið aðeins of mikil, þá smitaðist ég samt af gleðinni í tónlistinni. Flugeldasýningin stóð fyrir sínu. Svolítið að venjast nýja staðnum, en kannski var líka bara aðeins of bjart í gærkvöldi.

Eftir að flugeldasýningu lauk þá var ég áfram í bænum. Sem hefur svo sem komið fyrir áður. En hingað til hef ég haldið upp á daginn í heimahúsi. Ekkert verið að flýta mér úr bænum, enda bílaumferðin þannig að það er ekki auðhlaupið að því að komast úr bænum. Mikil eftirspurn eftir öllum leigubílum. Svo ég hef yfirleit ekki tekið eftir því hvernig ástandið er í miðbænum og á Laugaveginum. Ekki átt þar leið um. Í þetta skipti breytti ég út af venjunni. Mér fannst ekki fallegt um að litast. Fólk í afar misjöfnu ástandi. Greinilegt að sumir höfðu drukkið heldur stíft og skilað kvöldmatnum á götuna. Glerbrot og rusl sem flæddi um göturnar. Mér fannst þetta ekki sérlega glæsilegt. Né heldur kræsilegt.

Ummæli

Vinsælar færslur