Matarboð í góðum hópi

Þetta hefur verið rólegur dagur í dag. Svona eiginlega jafn rólegur og gærdagurinn var fullur af aðgerðum. Ég hélt nefnilega lítið matarboð í gærkvöldi. En gær dagurinn var eiginlega fyrsti dagurinn í sumarfríinu mínu, svo það er óhætt að segja að það hafi byrjað vel. En ekki með neinum rólegheitum samt. Það fylgja því alltaf ákveðin störf að halda svona matarboð nefnilega. Svo sem eins og innkaup, tiltekt og matreiðsla. Ég var kannski ekki alveg nógu skynsamur í matseðlinum. Kannski pínulítið bjartsýn.

Bjartsýnin fólst samt ekki í því að ég hefði verið að elda eitthvað sérstaklega flókið. Nei, það var ekki þannig. Heldur tókst mér að setja saman matseðil sem krafðist kannski heldur mikillar viðveru minnar í eldhúsinu. Á kostnað þess að geta skemmt mér með matargestunum. Sem er alltaf ókostur. Heyrði samt að gestunum leiddist ekki. Svo ætli mér sé ekki óhætt að segja að það hafi verið næst besti kosturinn að vera í eldhúsinu og hlusta á umræðurnar. Sem fóru víða. Man sérstaklega eftir umræðum um stálkúlur sem mér fundust líklegar til að geta orðið til erfiðleika í ferðum um flugvelli. En ég komst sem sagt að því að fyrir matarboð eins og þetta er annað tveggja. Koma sér upp hópi aðstoðarfólks sem sér um matreiðsluna. Eða hitt. Að setja saman matseðil sem útheimtir minni viðveru í eldhúsinu eftir að matarboðið hefst.

Ég kann hins vegar vel við fólk sem mætir á réttum tíma í matarboð. Raunar hefði ég mátt búast við því af þessum hópi. Held nefnilega að það séu frekar ég og mitt fólk sem kunnum ekki alveg nægilega vel að skipuleggja okkur. Þess vegna sem ég hef komið mér upp þeim sið að hefjast ekki handa við matreiðslu í matarboðum fyrr en gestirnir koma. Finnst ekkert spennandi að ofelda mat. Þetta þýðir hins vegar að ég er sjaldan tilbúinn með matinn þegar gestina ber að garði. Miklu líklegra að ég sé rétt að hefjast handa. Sem gefur þá bara gestunum tækifæri til þess að slaka aðeins á meðan matreiðslan stendur yfir. Svo finnst mér líka skemmtilegt að elda í félagsskap. Bara verst að eldhúsið mitt er eiginlega of lítið til þess að þar geti verið stór hópur í einu. Það er líka ferlega skemmtilegt að elda fyrir fleiri en sjálfan sig. Eins og ég hef minnst á, þá er matreiðsla fyrir einbýlinga fyndin á köflum. Eða sorgleg. Svona eftir því hvernig á málið er litið. Því ef ég geri galdra í eldhúsinu, þá vantar mig klappliðið í kjölfarið. Ekki svo að skilja að matreiðsla sé endilega galdur.

Það er nefnilega eitt af því sem ég hef lært. Til þess að geta eldað góðan mat þarf nefnilega ekki annað en að kunna að lesa. Því með því að kunna að lesa þá getur maður nýtt sér þær fjölmörgu góðu matreiðslubækur sem eru til. Það er ekki verra að vera lestrarfær á önnur tungumál heldur. Það opnar möguleika á því að sækja sér uppskriftir en lengra. Ekki að þið eigið eftir að lesa uppskriftir hér. Því ég verð auðvitað að halda þeim leyndum. En svona til að þið vitið af hverju þið voruð að missa. Þá var þetta matseðil gærkvöldsins.

Fordrykkur – Castillo Perelada Cava (Sec)
Tælensk kjúklingaspjót með gúrku og shallot sósu
Lax með söltuðum tómötum og krydd salati  borðið fram með rómversku spínati
Með þessu var boðið upp á Peter Lehmann Barossa Riesling (2004)
Risarækjur með vorlauks og mozzarella risotto
Með því var boðið upp á Poggio al Casone Chianti (2002)
Vanillu peru og ferskju salad með vanillu ís
Kaffi, Calvados og súkkulaði

Endaði í góðu stuði eftir góðan mat, góðan félagsskap og kíkti í 101. Það var ekki í frásögur færandi. En þetta var gott matarboð.


Ummæli

Nafnlaus sagði…
mmm...ótrúlega flottur matseðill, mér finnst gaman að lesa og tala um mat:)

(líka borða hann)
Nafnlaus sagði…
Takk kærlega fyrir mig! Þessi matur var æðislegur! :-)

-anna
Nafnlaus sagði…
"og kíkti í 101. Það var ekki í frásögur færandi. En þetta var gott matarboð.
"

Bíddu bara þangað þér er boðið næst !

Vinsælar færslur