Lítil saga úr Netheimum

Ég hef einhvern tíma minnst á það áður að ég á stafræna myndavél. Keypti mér þessa fínu Kodak vél fyrir tæplega 2 árum. Man eftir því að á þeim tíma fann ég það út að valið stóð á milli Kodak eða Canon. Mér leist betur á Kodak og ég hef ekki séð eftir því. Vélin virkar fínt. Stóð af sér vosbúðina sem drap gsm símann minn á Hornströndum í sumar. Rafhlaðan endist vel og það er einfalt og auðvelt að taka myndir á vélina. Svo sem alveg hægt að klúðra því en það er bara eitthvað svo vinalegt við að það sé partýstilling. Það er sú sem ég vel ef ég vil losna við rauðu djöfla augun sem stundum koma. Svo ég get alveg mælt með Kodak.

Síðan ég keypti mér þessa stafrænu myndavél hef ég hins vegar ekki látið prenta myndir á pappír. Sem mér finnst pínulítið leiðinlegt. Því það er eitthvað við það að hafa myndaalbúm á milli handana. Eitthvað miklu meira spennandi að skoða myndir þannig en á tölvuskjá. Þó það geti svo sem líka verið fínt. Ætli ég sé ekki bara svo gamaldags að mér finnst hitt skemmtilegra. Svo núna í sumarfríinu var ég einmitt búinn að ákveða að láta nú prenta fyrir mig eitthvað af þessum myndum sem ég hef verið að taka. Svona eitthvað úrval sem myndi fara á pappír og í albúm. Með myndavélinni minni hafði komið hugbúnaður sem sérstaklega var til þess ætlaður að einfalda alla myndvinnslu. Ég hef meira að segja fengið einhverjar uppfærslur á þennan hugbúnað síðan ég keypti mér myndavélina. Hann hefur reynst mér vel við að ná myndunum af myndavélinni. Skoða þær og flokka. Eitt af því sem hann býður líka upp á er að prenta myndir. Ekki bara á prentara heima, heldur líka í gegnum prentþjónustur á Netinu. Svo fyrst mér hafði hingað til gengið vel að nota myndavélina og þennan hugbúnað. Þá fannst mér tilvalið að nota hann áfram. Sem kannski voru ákveðin mistök.

Fyrsta daginn sem ég byrjaði að reyna þetta þá var ég búinn að eyða svona u.þ.b. 2 klukkutímum í að velja myndir þegar hugbúnaðurinn fraus. Það var alveg sama hversu lengi ég beið. Eftir aðra 2 tíma (sem þá voru samtals orðnir 4 í þetta) þá slökkti ég á hugbúnaðinum. Sem að sjálfsögðu þýddi að ég hafði tapað öllum myndunum sem ég hafði haft fyrir því að velja. Svo ég ákvað að prófa aftur daginn eftir. Það tók mig svo sem ekki alveg jafn langan tíma að velja myndirnar í þetta skipti. En svona um það bil sem ég var búinn að velja allar myndirnar sem ég ætlaði að velja. Þá gerðist þetta aftur. Hugbúnaðurinn fraus. Ég fékk samt villuskilaboð í þetta skipti. Svo ég reyndi aftur. Komst kannski í gegnum 20% af því sem ég ætlaði að velja. Þá fraus hugbúnaðurinn aftur. Svo ég gerði nýja tilraun. Endurræsti vélina mína. Byrjaði enn einu sinni að týna saman myndirnar. Þetta gekk fljótar fyrir sig en nokkru sinni fyrr hjá mér. Mér tókst meira að segja að koma öllum myndunum á sinn stað. Sem mér fannst bara nokkuð gott hjá mér. Svo loksins gat ég farið að skoða hversu mörg eintök af hverri mynd ég vildi. Eða hvort ég hefði nú kannski valið einhverjar myndir oftar en einu sinni. En þá fraus hugbúnaðurinn.

Sumir aðrir hefðu kannski lagt árar í bát á þessum tímapunkti. En ekki ég. Enda komst ég í gegnum hríð á Hornstrandargöngu svo ég læt ekki svona smámuni á mig fá. Svo næsta dag byrjaði ég einu sinni enn að týna saman myndir. Hafði samt passað mig á því að slökkva á öllu sem gæti farið í gang á meðan Kodak hugbúnaðurinn væri í gangi. Því það virtist vera það sem hafði óæskileg áhrif. Svo á þriðja degi tókst mér að komast í gegnum það að velja myndir. Velja fjölda mynda. Týna út þær myndir sem ég hafði óvart valið oftar en einu sinni. En þetta var hins vegar bara fyrsta skrefið. Næsta skref var að tengjast þjónustu í gegnum Netið. Sem tók dálitla stund. Svo þurfti ég að fara í gegnum skráningarferli. Sem tók líka dálitla stund. Svo þegar því var loksins lokið þá fyrst tók við ferli sem átti að pakka myndunum saman og senda þær á þjónustuna. Í fyrstu leit þetta vel út. Alveg þangað flutningurinn til prentþjónustunnar hófst. Þá beið ég. Ekkert gerðist. Ég beið í klukkutíma og ekkert gerðist. Svo ég ýtti á endanum á cancel. Las í gegnum allar leiðbeiningarnar. Fann Kodak prentþjónustu á vefnum. Las allt þar. Byrjaði aftur. Þurfti samt ekki að týna saman myndirnar einu sinni enn. Svo núna fylgdi ég nákvæmlega eftir leiðbeiningunum. Var búinn að komast að því að það væri svona lítið tákn sem ég gæti smellt á til að fylgjast betur með framvindu mála. Því miður gerðist ekki neitt. Í 5 klukkutíma beið ég eftir því að þetta næði einhverju sambandi. Byrjaði að flytja gögn til framköllunarþjónustunnar. Sem þessi hugbúnaður átti víst að vera sérhannaður til þess að gera. Vera mun þægilegri í notkun en til dæmis vefþjónusta. Eftir 5 klukkutíma bið. Þá gafst ég endanlega upp. Á hugbúnaðinum. Því ég hafði komist að því að Kodak bauð líka upp á vefþjónustu. Í gegnum vafra og lítið Active X control. Svo ég fann möppuna sem innihélt allar myndirnar mínar sem ég hafði valið að koma á pappír. Notaði síðan vefþjónustuna til þess að senda þær í framköllun. Það tók rúmlega 6 klukkutíma. En það virkaði. Gekk raunar eins og í sögu. Alveg óhætt að mæla með þeirri aðferð. Af þessu lærði ég að nota vefþjónustu frekar í framtíðinni. En mig hlakkar til að fá myndirnar. Það verður notaleg kvöldstund með myndaalbúm og penna.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
þvílík þolinmæði!

(aðdáunarvert)
Nafnlaus sagði…
sammála seinasta ræðumanni..
var pirruð og skildi þig svo vel bara á að lesa þetta en verð að vera hreinskilin ég væri löngu hætt að reyna þetta og væri farin með myndavél niður í pixla og fengið þá til að gera þetta fyrir mig.

Vinsælar færslur