Góðir bakþankar

Það er tvennt sem einkennir gott frí í mínum haus. Í fyrsta lagi að það hafi liðið allt of hratt og hitt að þegar því er lokið þá man maður bara ánægjulegu hliðarnar á því. Því það merkilega við að lenda í svona skemmtilegum ævintýrum er að þau verða að góðum minningum. Eins og þetta frí sem ég er nýkominn úr.

Ég komst til dæmis að því í fríinu að ég kann ekki ennþá að pakka nægilega vel fyrir svona ferðalag með allt á bakinu. Tók með mér hluti sem reyndust vera óþarfir. Til dæmis skeinir fyrir heila herdeild. Sem gerði lítið annað en að taka pláss. Mun hafa minna af honum meðferðis næst. Líka of mikið af fötum. Sem ég notaði hreinlega ekki. Það er nefnilega alveg nauðsynlegt að taka með sér eitthvað til skiptana. En það er hins vegar rugl að vera að taka of mikið af fötum. Tekur bara pláss í pokanum og endar sem þyngsli á bakinu. Mér tókst líka að taka með mér hluti sem ég notaði aldrei. Fyrir nú utan að hafa gengið með laskaðan GSM síma með mér. Sem var reyndar í fínu lagi áður en við lentum í sameiginlegri vosbúð á leiðinni frá Hlöðuvík til Hesteyrar. Þetta þarf ég að muna næst. Ég var nokkuð nærri lagi með matinn hins vegar. Kannski heldur mikið af mat með í för, en það hefði komið sér vel ef ég hefði t.d. þurft að bíða deginum lengur eftir fari á Ísafjörð. Svo það var bara nærri lagi. Ég fann nefnilega að þyngdin í pokanum lagðist á hnéð á mér. Skilst að það sé einmitt það hættulega við að vera með of mikil þyngsli á bakinu. Það reyni um of á hnén. Svo í næsta skipti verður miðað við 15 kg sem hámarksþyngd.

Þessi eini dagur sem við lentum í virkilega vondu veðri varð líka að hluta af ævintýrinu. Eitthvað sem skerpti á minningunni. Ekki að mér hafi fundist það sérlega þægilegt að vera lentur í hríð og hálf brjáluðu veðri upp í fjallaskarði á Hornströndum. Hreint ekki. Það var heldur ekkert þægilegt að vera orðinn blautur á höndunum og finna að skórnir voru ekki að halda vatni. Vera ekki alveg viss um vegalengdina á næsta áfangastað og uppgötva klúðrið með GPS punktinn. En eftir á að hyggja þá var þetta ævintýri. Svona eins og þegar við setjumst upp í tæki í tívólí og látum sveifla okkur í hringi. Nema hvað þarna var ekkert öryggisbelti. Það er nefnilega frábær tilfinning að finna að maður getur treyst á búnaðinn sinn. Sem hélt mér sæmilega þurrum utan þess að skór og fingur urðu blautir. Ætli þetta kalli ekki á fjárfestingar í betri skóbúnaði. Finna að allt sem ég hafði lagt á mig til þess að undirbúa mig var að skila sér. Ég fann ekki fyrir skorti á orku á leiðinni. Fann að byrðarnar voru ekki að drepa mig. Svo þegar á leið og ég áttaði mig á því að við vorum á réttri leið, þá var þetta bara allt í nokkuð góðu. Svo þegar aðrir dagar voru baðaðir í sólskini og veðurblíðu. Þá urðu þessir erfiðleikar til þess að gera þessa göngu að sannkölluðu ævintýri. Eitthvað sem ég á eftir að geta sagt frá og muna eftir þegar á móti blæs. Því tilfinningin að hafa sigrast á erfiðleikunum er nefnilega líka góð.

Skipulagið á göngunni var líka nokkuð vel heppnað. Byrja á mesta klifrinu meðan við vorum fersk og búnaðurinn þyngstur. Láta síðan gönguna léttast. Eiga auðveldustu dagleiðina að lokum. Það var ekki vitlaus hugmynd. Heldur ekki hitt að gera ráð fyrir einum auka degi. Hefði samt viljað hafa haft betri hugmynd um hvað var í gangi með veðrið á laugardeginum. Eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegast fyrir okkur að sitja af okkur veðrið í Hlöðuvík. Taka því rólega. Lesa bók (sem ég hefði átt að taka með) og bara leyfa veðrinu að ganga yfir. Þá hefðum við gengið í sól og blíðu allan tímann. En það hefði ekki orðið jafn eftirminnilegt.
Ekki samt eins og sumarið sé liðið þó þetta mesta skipulagða ævintýri sé að baki. Júlí og ágúst hafa reynst góðir göngumánuðir. Bara spurning hvort veðrið verði áfram jafn vætusamt. En ég þarf að fara finna mér ný takmörk til að sigrast á. Svo langar mig að kíkja aftur á Hornstrandir. Spurning hvort ég nái einhverjum göngufélögum fyrir ævintýri á Hornströndum 2007?

Ummæli

Vinsælar færslur