Svona eiga sumardagarnir að vera

Ég er ekki frá því að Laugardagurinn hafi verið best dagur sumarsins til þessa. Eftir að hafa lokið fyrstu vinnuvikunni eftir sumarfrí með hefðbundinni heimsókn í Hress og síðan eytt kvöldinu í rólegheitum. Þá hafði ég ákveðið að stefna á göngu á laugardeginum. Hafði reyndar langað mikið til þess að kíkja út úr bænum á föstudaginn. En veðrið var bara ekki alveg nógu skemmtilegt. Svo niðurstaðan hafði verið að stefna á göngu héðan úr bænum. Veðurspáin lofaði góðu. Föstudagskvöldið var enn rólegra en ég átti kannski von á. En klukkan 9 á laugardagsmorgunn var ég vakinn.

Var nú ekki alveg í mesta stuðinu. En lét mig samt hafa það. Tók mig til. Safnaði saman göngufélögunum (alveg nýr og skemmtilegur göngufélagi bætist í litla gönguhópinn okkar) og stefnan var sett á Botnsúlur. Veðrið var svo hálf grátt en gengi veðurspá eftir átti að létta til þegar liði á daginn. Ætti að vera ljómandi fínt veður. Fyrri reynsla hefur hins vegar kennt mér að það er ekki alltaf að marka. Eftir að hafa keyrt inn í Hvalfjarðarbotn þá fann ég eiginlega strax og ég opnaði hurðina á bílnum að þetta stefndi í góðan dag. Við höfðum svolítið verið að spá í því hvort við myndum fara í Botnsúlur, en þarna var endanlega tekin ákvörðun um að stefna bara á súlu.

Einhverja hluta vegna hefur mér skilist að það sé erfitt að komast þarna upp. En svo reyndist ekki vera. Þetta er raunar dágóð ganga. Ætli við höfum ekki verið góða 4 tíma að komast upp. Kannski jafnvel rúmlega það. Eflaust eru þær líka misjafnlega erfiðar á að ganga. En sú leið sem við fórum, reyndist vera nokkuð jöfn og góð ganga. Fannst við líka ekkert vera slóra um of við þetta. Við stóðum okkur líka eins og hetjur í þessu. Enduðum á komast alla leið upp á eina súluna. Sem mér óaði nú reyndar dálítið við. Lofthræðslan alveg ekki að gera sig á köflum. En ég finn það líka að það er gott að hafa fleiri með sér. Þá sé ég alveg að þetta er hægt. Það sem var hins vegar stórkostlegast við þetta. Var að komast þarna upp í rúmlega 1000 metra hæð og það var blanka logn. Ekki oft sem ég upplifi það. Útsýnið hreint út sagt stórkostlegt. Göngufélagarnir góðir. En ég hefði betur munað eftir sólarvörninni. Því ég var dálítið rauðari við lok göngu en upphaf. En stórkostlegur dagur.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
þessi ganga var bara frábær, takk fyrir mig:)

ég er líka doldið sólbrunnin...en það er allt í lagi, vel þess virði:-)
Nafnlaus sagði…
Ég er ekkert smá ánægð með að hafa farið með í þessa göngu. Yndislegt veður og skemmtilegur félagsskapur og gaman að fá nýjan göngufélaga sem tók ekki annað í mál en á tindinn væri farið. Hefði séð eftir því alla ævi ef ég hefði ekki drifið mig upp. Hlakka til næstu ferðar.
Nafnlaus sagði…
já, þetta var firna flottur hópur...

(og auðvitað hefði verið aumt að fara "næstum" á Botnsúlur...)

myndir, Simmi???
Simmi sagði…
Set þær inn í kvöld:-) Detta inn í myndasafnið. Nú er bara spurning hvert við ætlum næst?
Nafnlaus sagði…
Marardalur er auðvitað flottur...fullt af fínum gönguleiðum á Hengilssvæði..

Vinsælar færslur